03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég minntist víst eitthvað á það við síðustu umr., að þær almennu umr. um gildi og ókosti dragnótaveiða ættu ekki heima við þetta frv., en í tilefni af tilboði hv. þm. Ísaf. um að ræða mál þetta á breiðara grundvelli, þar sem hann var að tala um að opna landhelgina gersamlega, þá hefi ég því að svara, að ég er náttúrlega ekki tilbúinn að flytja till. um það, en hinsvegar er það ekki nema gott, að hann býðst til að fylgja minni forystu í þinginu, og þigg ég það með þökkum, að hann fylgi mér í öllum góðum málum og hafi mig fyrir vegvísi. — Hv. þm. var að segja, að menn vildu banna dragnótina þar, sem menn þekktu ekkert til veiðinnar. Það er undarleg framkoma þessa hv. þm. í ýmsum mikilsverðustu málum sjávarútvegsins, sem vafalaust stafar af vankunnáttu hans og þekkingarleysi á þeim. En það sætir undrum, að jafnþekkingarsnauður maður skuli blanda sér svo mikið inn í þessi mál sem hann gerir. Það er öllum kunnugt, að í ákvæðum 8. gr. l. frá 1928 er dragnótaveiði leyfð, en á einstökum stöðum eru sérstakar samþykktir gerðar um að banna þessa veiði, þar sem menn höfðu reynslu fyrir því, að þessi veiði stórspillti fyrir almennum fiskveiðum. Ég skal í því efni benda á samþykkt, sem gerð var í Norður-Þingeyjarsýslu og jafnvel í Suður-Þingeyjarsýslu líka; ég skal benda á samþykkt um þetta í Suður-Múlasýslu, samþykkt við Faxaflóa, ég skal benda á samþykkt, sem gerð var fyrir Vestfjörðum um að banna dragnótaveiði. Alstaðar voru þessar samþykktir gerðar af því, að þeir, sem að þeim stóðu, töldu dragnótaveiðina hafa stórskaðleg áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Það er frámunaleg vanþekking að halda, að þessar samþykktir hafi verið gerðar fyrir það, að engin reynsla hafi verið fyrir hendi um þessa veiði. Nei, það var þvert á móti.

Að öðru leyti er ekki ástæða til að fara út í almennar umr. um það mál út af þessu frv. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég benti á í síðustu ræðu minni, að hér er eingöngu um það að ræða, hvort sjómenn á svæðinu frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs eigi að fá að hafa sama rétt og aðrir til þess að nota ákvæði löggjafarinnar í þessu efni eða ekki, eins og þeir menn hafa, sem við strendur landsins búa annarsstaðar, ef þeim sýnist að gera héraðssamþykktir um þetta efni. Ef mönnum sýnist hinsvegar að hafa allt opið, þá skil ég ekki í því, að það sé svo mikil hætta á, að Vestmannaeyjar t. d. fari að loka sinni landhelgi, eftir því hve samhuga þeir eru, að því er sagt er, um að veiðin sé óskaðleg. Það er því engin hætta á því, að gripið verði fram fyrir hendurnar á þeim, sem vilja veiða með dragnót, ef menn þar álíta það óskaðlegt og hagkvæmt. — Ég vil svo vænta, að atkvgr. verði eingöngu miðuð við frv. sjálft, þ. e. a. s. efni þess. Eins og stendur hafa menn misjafna aðstöðu og misjafnan rétt í þessu efni, og það á að greiða atkv. um það, hvort svo á að vera framvegis eða ekki, hvort þetta tiltekna svæði á að verða svipt sínum rétti. Ég vona, að Alþingi sjái sóma sinn í því að framlengja ekki slík lög, hvernig sem hv. þm. annars líta á dragnótaveiðina í sjálfu sér.