03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Finnur Jónsson:

Ég þakka hv. þm. Borgf. fyrir það, að bjóða mér sína forystu í sjávarútvegsmálum, þó ég geti ekki orðið við hans ósk og tekið tilboðinu. Hann óskaði eftir því, að ég fylgdi sér að málum, þegar hann fylgdi góðum málstað. Það má nærri geta, hvernig sá málstaður yfirleitt er, þegar hv. þm. sjálfur efast jafnvel um, að hann sé stundum góður. Hv. þm. var að minnast á það, að Þingeyingar hefðu gert samþykktir um að útiloka dragnótaveiði. Ég man eftir því, að ég hefi heyrt getið um eina slíka samþykkt úr Ljósavatnshreppi, en ég man ekki um Bárðdælahrepp og Mývatnssveit, þó það geti vel verið, að þar hafi líka verið gerðar samþykktir um að banna dragnótaveiði þar. Hv. þm. Borgf. vildi með þessu afsanna þau ummæli mín, að þeir hefðu mest á móti dragnótaveiði, sem minnsta reynslu hefðu á henni, og hann sannaði mitt mál rækilega, því hvenær hafa Þingeyingar notað þetta veiðarfæri? Það eina, sem þeir vita um það, er, að menn í öðrum landshlutum hafa sópað upp miklum afla með þessu veiðarfæri, og það er alkunnugt, að þeir, sem ekki geta notað sér veiði þessa, eru öfundsjúkir yfir því, að aðrir nota veiðina, og finnst, að þeir þurfi að varna því, að nokkrir veiði fyrir þeirra landi. Það er fjarri því, að ég sé með þessu að sneiða Þingeyinga nokkuð.

Það sýnir, hvað skoðun hv. þm. Borgf. er fráleit, að hann segir, að ekki megi tala um þetta mál almennt. Ég vil nú einmitt tala um það nokkuð almennt. Því hefir ekki verið á móti mælt, að um 2 hundruð manna hér á landi hafa þegar stundað dragnótaveiði með ágætum árangri um nokkurt skeið, og það verður óhjákvæmilegt að sjá þessum mönnum fyrir einhverri annari atvinnu, ef þeir eru sviptir þeirri, sem þeir hafa nú, með því að fella þetta frv. Ég skora á hv. þm. Borgf. að benda á leið til að útvega öllum þessum mönnum atvinnu, ef hann vill greiða atkv. á móti frv.