03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (2941)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Finnur Jónsson:

Hv. þm. N.-Þ. segir, að Norður-Þingeyingar hafi ekki sett bann gegn dragnótaveiðum hjá sér af þeim sökum, að þeir þekktu ekki þessi veiðarfæri. En ég hélt því fram, að þeir, sem ekki hefðu ennþá farið að stunda dragnótaveiðar sjálfir, vildu yfirleitt banna dragnótaveiðar, en hinir, sem farnir væru að nota dragnætur og kynnu með þær að fara, vildu hafa landhelgina opna fyrir slíkri veiði. Ég held fast við þetta, og vil því til sönnunar benda á þá reynslu, sem fengin er í þessu efni.

Hv. þm. Borgf. vildi halda fram, að lokun landhelginnar fyrir dragnótaveiðum skapaði bætta aðstöðu til annara fiskiveiða. Ég vil spyrja hann: Hvaða fiskiveiðar eru stundaðar hér á Faxaflóa þann tíma, sem talað er um að, opna fyrir dragnótaveiðum, og hvaða fiskiveiðar telur hann, að hægt væri að stunda með góðum árangri þá? Hvers vegna stunda ekki þeir, sem nú stunda dragnótaveiðar, þær arðsömu fiskiveiðar, sem hann er að tala um?

Hv. þm. Borgf. vildi halda því fram, að þessi lög breyttu engu fyrir þau héruð, sem ekki vildu hafa bann á dragnótaveiðum hjá sér. Ég vil leyfa mér að benda honum á, að í 1. gr. l. nr. 55 frá 1928 er sagt, að dragnótaveiðar skuli bannaðar frá 1. jan. til 31. ágúst og frá 1.—31. desember ár hvert. En í l. þeim, sem sjútvn. leggur hér til, að séu framlengd, er veiði leyfð á þar til teknu svæði frá 15. júní, og er þannig veiðitíminn lengdur um 2½ mánuð. Á þetta jafnt við Vestmannaeyjar sem aðra staði, og er því alrangt, að þetta frv. breyti engu fyrir þau héruð, sem vilja leyfa dragnótaveiðarnar.

Hv. þm. Borgf. var að tala um, að mér hefði gengið illa að opna augu nágranna minna fyrir nytsemi dragnótaveiðanna. Ég hefi ekkert prédikunarstarf tekizt á hendur í þessu efni, og hefir því ekkert reynt á, hvernig mér gengi. En í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að af sjómönnum vestanlands eru Önfirðingar þeir einu, sem farnir eru að stunda dragnótaveiðar, og þeir vilja fyrir hvern mun halda fjörðunum opnum, en hinir, sem ekki eru enn farnir að stunda dragnótaveiðar, vilja hafa firðina lokaða fyrir slíkum veiðiskap. Ég held, að hv. þm. Borgf. gerði betur í því að beita sér fyrir, að menn í hans byggðarlagi taki upp dragnótaveiðar þann tíma árs, sem þeir hafa ekki tækifæri til að stunda aðra veiði, heldur en að berjast á móti því hér á Alþ. með hnúum og hnefum, að þetta mál nái fram að ganga.

Hv. þm. Borgf. er orðinn svo staurblindur í þessu máli, að í fyrra skiptið, sem það var á dagskrá hér í d., virtist hann ekki sjá neinn til að beina orðum sínum að annan en hv. þm. Vestm. Þetta sýndi betur en nokkuð annað, hvað litla stund hann leggur á að reyna að horfa á málið frá almenningssjónarmiði, þegar hann er orðinn svo blindur, að honum finnst ekki muni vera neinn annar til í þinginu, sem haldi uppi þessum „vonda málstað“, en hv. þm. Vestm.

Ég benti á það áðan, að ef þingið felldi þetta frv. um að framlengja undanþágu frá l. um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi, þá yrði það að sjá þeim mönnum fyrir annari atvinnu, sem við það misstu atvinnu sína. Og ég held fast við áskorun mína til hv. þm. Borgf. um það, að hann ábyrgist þeim 200 mönnum, sem hér er um að ræða, ekki lakari atvinnu, ef hann verður til þess að fella frv. hér í d., sem ég vona, að ekki verði. Enda er áreiðanlega þörf á nokkurri víðsýni í þessu efni, en ekki þeirri fádæma þröngsýni, sem þessi hv. þm. gerir sig sekan um.