30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1935

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á engar brtt. við fjárl.frv., hvorki þennan kafla eða hinn fyrri, svo ég stend eigi upp til þess að tala fyrir till. Hv. frsm. minni hl. gat þess nýskeð, að sér þætti einkennilegt, að enginn af þm. stjórnarflokkanna ætti brtt. við fjárlfrv., og lagði hann það þannig út, að allar óskir okkar um að bera fram brtt. væru tæmdar að þessu sinni. Ég skal lýsa því yfir, að svo er ekki að því er mig snertir. Ég hefði haft löngun til þess að bera fram ýmsar till. til útgjalda, bæði fyrir mitt kjördæmi og ýms málefni, sem ég vil greiða fyrir. En ég beygi mig fyrir þeirri nauðsyn, sem á því er nú að afgr. fjárl. þannig, að ekki horfi til verulegra vandræða. Af þeim ástæðum mun ég láta liggja niðri till. um margt, sem ég annars hefði viljað flytja, og greiða atkv. á móti mörgum till., sem eiga í sjálfu sér fullan rétt á sér.

Ég ætla ekki að minnast á margar af þeim brtt., sem fyrir liggja. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á eina, sem sé till. um að færa laun Einars Helgasonar yfir á Búnaðarfélagið. Ég vil benda hv. Alþ. á, að þetta er ekkert annað en lækkun á styrknum til B. Í., því starf þessa manns kemur því ekkert við fremur en t. d. starf skógræktarstjóra og sandgræðslustjóra. Mér finnst því eðlilegra, ef óhjákvæmilegt er að létta þessum 5 þús. kr. af ríkissjóði og taka þær af B. Í., að lækka styrkinn til þess um þessa upphæð og láta liðinn til Einars Helgasonar halda sér eins og verið hefir.

Þá kem ég að því, sem ég sérstaklega ætlaði að gera að umtalsefni nú, en það er styrkurinn til B. Í. og athugasemdin, sem honum á að fylgja, og þó ekki síður það umtal, sem um

B. Í. hefir orðið að undanförnu. Ég hefi orðið var við það nú undanfarið, að vísu meira utan þings en innan, að B. Í. verður fyrir allharðri kritík; menn tala um, að það sé óstarfhæft og yfirleitt illa samansettur hlutur að öllu leyti. Kom þetta ekki sízt fram nú í ræðu hv. 9. landsk., sem varði meiri hluta ræðu sinnar til þess að bera sakir á B. Í. Ég mun ekki svara honum sérstaklega, nema í sambandi við aðra liði ræðu minnar, er ég tala um starfsemi B. Í. viðvíkjandi því, sem hann var að tala um innflutning nauta, get ég sagt honum það, að það var ekki B. Í., sem gekkst fyrir þessum innflutningi, heldur ríkisstj. samkv. fyrirskipunum Alþ. Hinsvegar veitti B. Í. aðstoð sína í þessu máli, eins og öllum öðrum landbúnaðarmálum, sem stj. leitar aðstoðar þess við. Það, sem hv. þm. var að tala um, að flutt hefði verið inn ein kvíga af einni tegundinni og tvö naut sitt af hvorri tegund, er algerlega á misskilningi byggt. Af einu kyninu var flutt inn eitt par, kvíga og boli. Það kann að vera, að þessi hv. þm. þekki einhver naut, sem verpa eggjum, en ég hefi ekki heyrt getið um þau fyrr. Býst ég við, að þetta sé eitthvað af þeim nýstárlegu skoðunum, sem fram hafa komið í sambandi við B. Í.

Hæstv. landbrh. lét orð falla á þá leið við frh. 1. umr. þessa máls, að nú um nokkurt skeið, eða síðan B. Í. átti í nokkrum útistöðum við Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra, hafi það verið óstarfhæft. Þetta eru svo þungar sakið á félagið, að ég treysti mér ekki til að láta hjá líða að bera þær af því, þó ég sé ekki sá meðlimur búnaðarfélagsstjórnarinnar, sem á að standa Alþ. reikningsskap, þar sem ég er kosinn af búnaðarþingi. Þegar svo dillandi fregnir um starfsemi félagsins koma frá hæstv. landbrh., finnst mér þörf á að velta nokkrar upplýsingar, svo að þingheimur, sem er svo örlátur að veita Búnaðarfélaginu nokkurt fé, þurfi ekki að standa í þeirri trú, að það renni til félags, sem er sjálfu sér sundurþykkt og óstarfhæft með öllu.

Ein af þeim röksemdum, sem hæstv. ráðh. færði fyrir óstarfhæfni B. Í., var sú, að það hefir um skeið haft tvo búnaðarmálastjóra. Hæstv. ráðh. sagði, að einmitt þegar ákveðið var að hafa búnaðarmálastjórana tvo, hafi veilan í félaginu sýnt sig; það hefði ekki haft þrek í sér til þess að skera fyrir meinsemdina, annaðhvort að láta Sigurð Sigurðsson fara frá eða ráða hann einan sem búnaðarmálastjóra áfram. Það vill nú svo til, að ég hefi verið í stjórn B. Í. frá því 1927, eða einmitt þann tíma, sem Búnaðarfélagið á að hafa verið óstarfhæft. Get ég því búizt við, að ég verði ekki talinn dómbær í þessu máli, þar sem ég að einhverju leyti yrði að dæma í eigin sökum, en ég vona þó, að ég geti gefið þær upplýsingar um starfsemi Búnaðarfélagsins, að hv. þm. geti betur fellt dóm sjálfir eftir en áður. Ég verð að líta svo á, þó ég ætti ekki þátt í því samkomulagi, sem gert var á búnaðarþingi 1927, þegar tveir búnaðarmálastjórar voru ráðnir, að það sé langt frá því, að því máli væri ráðið illa til lykta. Það hafði þá komið upp í B. Í. svo mögnuð deila um þennan mæta mann, Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra, að til stórvandræða horfði. Ég er sannfærður um, að ef Sigurði hefði þá verið vísað á dyr, hefði félagið ekki borið sitt barr úr því. Hvað sem annars má um hann segja, þá hefir hann yfir svo mikilli þekkingu og reynslu í landbúnaðarmálum að ráða og svo óvenjulegum áhuga, að það hefði verið félaginu ómetanlegur skaði að vera svipt starfskröftum hans. Auk þess var fylgi hans úti um landið svo mikið, að óánægjan út af brottför hans hefði verið nægileg til þess að ríða félaginu að fullu. Hinsvegar var komið upp svo mikið ósamkomulag, að ef átt hefði að setja Sigurð einan sem búnaðarmálastjóra áfram, hefði það haft mjög slæmar afleiðingar fyrir félagið, því nokkuð mikill hluti af starfsmönnum þess hefði farið, og hefði þá orðið að taka aðra í þeirra stað, sem ekki hefðu haft eins mikið til brunns að bera á þessu sviði, auk þess sem svo mikill órói var kominn utan um Sigurð og hefði orðið utan um hann áfram, að það hefði ekki farið hjá því, að félagið hefði orðið fyrir stórskaða af því. Þess vegna var það ráð tekið á búnaðarþinginu 1927 að reyna að græða saman þá bresti, sem farið var að bera á, heldur en að kljúfa félagið. Þegar ég var kosinn inn í búnaðarfélagsstj., tók ég það sem óskrifað skipunarbréf mér til handa, að ég ætti að vinna að samkomulagi í félaginu og reyna að græða þau sár, sem komin voru. Og ég hefi reynt að gera mitt ýtrasta í þessu efni, og þar sem ég hefi þrisvar verið endurkosinn, tel ég það vott um, að ég hafi unnið að því starfi, sem búnaðarþingið upphaflega fól mér að vinna að.

Að segja, að Búnaðarfél. sé óstarfhæft, þó það hafi tvo búnaðarmálastjóra, nær vitanlega engri átt. Eftir sömu forsendum mætti segja, að ríkisstj. væri óstarfhæfari vegna þess að ráðh. eru þrír heldur en ef aðeins væri einn ráðh. Þegar starfsemi einhverrar stofnunar hefir aukizt fram úr vissu marki, getur hún einmitt orðið starfhæfari með því að hafa tvo til þrjá framkvæmdarstjóra heldur en einn, ef samkomulagið milli þeirra er sæmilegt. Og ég held, að stj. Búnaðarfélagsins hafi tekizt það svo vel að halda einingu innan félagsins, að öll þau mál, sem það hefir haft með höndum, hafi fengið þá afgreiðslu, sem með sæmilegri sanngirni er hægt að heimta. Það hefir verið talað um ósamkomulag milli starfsfólks félagsins. Ég er því ekki kunnugur, hvað mikið ástríki er yfirleitt milli fólks, sem vinnur saman á skrifstofum hér í bænum. Það má vera, að það sé sumstaðar meira en í Búnaðarfélaginu. En þó búnaðarmálastjórarnir hafi ekki verið í sífelldum faðmlögum, þá hygg ég, að það starf, sem þeim hefir verið falið, hvorum á sínu sviði, hafi ekki misst neins í fyrir ósamkomulag þeirra á milli. Það hefir verið reynt að marka hverjum þeirra fyrir sig og undirmönnum þeirra, ráðunautunum, sitt starfssvið. Það hefir verið reynt að haga starfseminni þannig, að enginn brestur gæti í henni orðið, og hvernig sem hugarfarið kann að hafa verið í fyrstu, get ég fullyrt, að samstarfið hefir farið batnandi ár frá ári.

Það hefir einnig verið talað um, að samkomulagið hefi ekki verið betra en það, að sum árin hafi jafnvel sumir starfsmennirnir ekki látið sjá sig í Búnaðarfélaginu. Þetta byggist vitanlega á röngum fréttaflutningi, eins og fleira, því það er svo langt frá því, að það sé rétt, að starfsmenn Búnaðarfélagsins eru svo að segja allan sinn tíma í búnaðarfélagshúsinu, þegar þeir eru ekki á ferðalagi í þágu félagsins úti um land. Aðeins einn ráðunautanna kaus heldur að vinna annarsstaðar, og var honum leyft það m. a. vegna þess, að húsrúmi félagsins er þannig háttað, að það þótti heppilegra. Hinsvegar hefir þessi ráðunautur alltaf komið á fundi stjórnarinnar, þegar um málefni hans starfsgreinar hefir verið rætt, og hann hefir engan styrk fengið til skrifstofuhalds annarsstaðar. Hefir þetta því engum óþægindum valdið.

Til þess að gera hv. þm. ennþá glöggar grein fyrir, hvert er starfssvið Búnaðarfélagsins og hver starfsemi þess hefir verið þann tíma, sem hér er um að ræða, skal ég fara nokkru lengra út í þetta efni. Ef margir hv. þm. eru álíka kunnugir þessum málum eins og hv. 9. landsk. virðist vera, þá býst ég við, að þeim veiti ekki af að taka eftir þessari skýrslu.

Eins og kunnugt er, er starfsemi B. Í. tvíþætt. Annarsvegar eru störf þess fyrir ríkisstj., einskonar skrifstofustarfsemi fyrir málefni, sem heyra beint undir ríkið. Þar til má fyrst og fremst nefna jarðræktarlögin. Af framkvæmd þeirra hefir Búnaðarfélagið þau afskipti, að það semur fyrst reglur um, hvernig framkvæmdar skuli þær jarðabætur, sem styrks njóta, og sér um, að þeim sé fylgt, semur reglur um, hvernig jarðabæturnar skuli lagðar í dagsverk, lætur mæla þær, endurskoðar skýrslur trúnaðarmannanna og gerir þær upp, og sér svo um úthlutun jarðabótastyrksins fyrir bönd ríkisstj., þegar allri þessari starfsemi er lokið.

Þá er annað mál, sem heyrir undir ríkisstj. og fé er sérstaklega veitt til í fjárl., en það er sandgræðslan. Framkvæmd hennar hefir Búnaðarfél. með höndum, og ákveðið er í lögum, að sandgræðslustjóri skuli vera starfsmaður B. Í., þótt hann fái laun sín í fjárl. framhjá Búnaðarfélaginu.

Sömuleiðis hefir síðan búfjárræktarlögin voru sett framkvæmd þeirra, sem undir ríkisstj. fellur, verið falin Búnaðarfélaginu. Það semur skýrslur um styrkveitingar samkv. þeim, og það vinnur úr skýrslum um vanhöld, til undirbúnings ákvarðana um iðgjöld til búfjártryggingasjóðs. Það hefir eftirlit með fóðurbirgðafélögum og styrkgreiðslum til þeirra, og það safnar og gefur út skýrslur um nautgriparæktarfélögin.

Nú, síðan fiskiræktarlögin voru sett, hefir fiskiræktarráðunautur Búnaðarfél. haft með höndum þá starfsemi, sem fiskimálastjóra er ætluð samkv. þeim, og vinnur hann að þeim málum í samráði við ríkisstj.

Þá má einnig nefna það, að Búnaðarfél. hefir yfirumsjón með verkfærakaupasjóði og vélasjóði og bókfærslu þeirra. Þar við bætist, að Búnaðarfél. er ráðunautur ríkisstj. í öllum málum, stórum og smáum, sem landbúnaðinn varða og stj. leitar umsagnar þess um. Það svarar öllum fyrirspurnum, veitir upplýsingar og yfirleitt alla þá hjálp, sem stj. óskar eftir.

Þetta eru þá í stórum dráttum þau störf, sem Búnaðarfél. hefir með höndum fyrir ríkisstj. og sem strangt tekið heyra ekki beinlínis undir Búnaðarfélagið.

Svo kem ég að hinni eiginlegu starfsemi Búnaðarfél., og byrja á starfi ráðunautanna, sem er aðalþáttur búnaðarfélagsstarfseminnar. Skal ég þá fyrst nefna jarðræktarráðunautinn, sem staðið hefir fyrir mælingum og öðrum undirbúningi allra meiri háttar jarðræktarframkvæmda síðustu ára. T. d. hefir hann mælt fyrir og skipulagt jarðyrkju í 36 kauptúnum og á 1000 jörðum, að mestu leyti á tímabilinu frá 1927, þeim tíma, sem Búnaðarfél. á að hafa verið óstarfhæft. Sjö af þeim kauptúnum, sem mælt hefir verið fyrir, hafa ræktað um 400 ha., sem gefa af sér ca. 500—600 kýrfóður. En alls eru lönd þau, sem ráðunauturinn hefir mælt á þessu tímabili, 32638 ha., eða nokkru stærri heldur en öll tún, sem til eru á landinu enn í dag.

Auk þess hefir jarðræktarráðunauturinn reynt að gangast fyrir stofnun ýmsra ræktunarfélaga, til þess að hrinda framkvæmdum af stað, og má segja, að sú starfsemi hafi átt mestan þátt í, að lagt hefir verið í þá ræktun, sem fram hefir farið kringum kauptún landsins undanfarin ár. Einnig hefir félagið haft með höndum stórframkvæmdir fyrir ríkisstj., en þar sem svo mikið hefir verið að gera í Búnaðarfél. á þessu sviði, hefir það orðið að taka sérstakan mann til þess, sem að vísu hefir verið greitt út ríkissjóði, en Búnaðarfél. hefir algerlega séð um þetta og staðið fyrir því.

Þá vil ég minnast á verkfæraráðunautinn, sem B. Í. hefir haft í sinni þjónustu til þess að leiðbeina bændum og búnaðarfélögum um verkfærakaup og meðferð verkfæra. Síðan 1927 hefir verið samvinna milli B. Í. og S. Í. S., sem hefir með höndum mestan hluta af sölu landbúnaðarverkfæra, þannig að þessi félög hafa skipt verkfæraráðunautnum á milli sín. Er mér óhætt að segja, að á þessu tímabili hefir verið flutt inn meira af jarðræktarverkfærum heldur en áður hafði verið flutt inn frá því Ísland byggðist. Starf ráðunautsins á þessu sviði hefir orðið okkur til ómetanlegs gagns, og fyrir hans tilstilli hefir tekizt að fá gerðar ýmsar breytingar á þessum verkfærum, sem henta betur okkar staðháttum.

Búnaðarfél. Ísl. hefir látið rannsaka og gera tilraunir með notkun nýrra verkfæra og gera samanburð á þeim og áður notuðum verkfærum, til þess að geta komizt að raun um, hvaða verkfæri henta bezt á íslenzkri jörð.

Garðyrkjuráðunauturinn starfar undir stjórn Búnaðarfél. Ísl. og annast tilraunir með matjurtarækt og kennslu í garðyrkju. Til skamms tíma hefir hann verið hér í Rvík, en er nú fluttur austur að Laugarvatni með starfsemi sína. Hefir Búnaðarfél. tryggt sér þar spildu, með bæði heitu og köldu landi, til afnota við garðyrkjutilraunir og kennslu.

Þá hefir Búnaðarfél. Ísl. haldið uppi tilraunum í fóðurrækt. Það hefir gert samanburð á ýmsum fóðurjurtum og sérstaklega haft áburðartilraunir í sambandi við fóðurræktina. Hefir félagið gefið árlega út skýrslur um niðurstöður þessara tilrauna, til þess að menn geti fært sér þær í nyt. Nú upp á síðkastið hefir þessi starfsemi að mestu leyti verið flutt til ræktunarstöðvarinnar á Sámsstöðum.

Þá vil ég aðeins minnast á Ræktunarfélag Norðurlands, sem að vísu heyrir ekki undir Búnaðarfél Íslands. En þetta félag starfar ásamt Búnaðarfél. Ísl. jöfnum höndum að ýmsum tilraunum og hefir undir stjórn þess manns, sem nú er framkvæmdarstjóri ræktunartilrauna þess, gert margar og merkar tilraunir á sviði jarðyrkjumála, sem bændum hefir orðið og mun verða að miklu liði. Það er einn liður í styrktarstarfsemi Búnaðarfél. Ísl., að það hefir veitt þessu félagi nokkurn styrk árlega af því fé, sem B. Í. hefir haft með höndum. Það er rétt hjá hv. 9. landsk., að af síðasta búnaðarþingi var þessu félagi veittur 4 þús. kr. styrkur til fjósbyggingar á landi ræktunarstöðvar þess á Akureyri. Var það gert vegna þess, að félagið hafði stórt bú, sem var vaxandi, en ónóg húsakynni, og til þess að gefa Ræktunarfél. aðstöðu til þess að halda áfram ræktunartilraunum sínum, sem það þurfti m. a. húsadýraáburð til.

Um olnbogabarnið Sámsstaði er það að segja, að sá mikli munur er á starfsemi þar og í Ræktunarfél. Norðurlands, að á Sámsstöðum rekur félagið ekkert bú ennþá. Það getur vel verið, og mér þykir það sennilegt, að brátt verði að því snúizt, að samhliða ræktunarstöðinni á Sámsstöðum verði komið upp nautgripabúi, og þegar sú ákvörðun verður tekin, þá munu Sámsstaðir ekki verða látnir sitja á hakanum um fjárveitingar á þessu sviði fremur en öðrum sviðum. En á meðan á öðrum stað var til bú í sambandi við ræktunartilraunir til leiðbeiningar í jarðrækt, og þar voru kýr, sem vantaði fjós yfir, en hinsvegar ekki á Sámsstöðum, þá áleit búnaðarþingið réttara að styrkja þetta bú Ræktunarfél. til fjósbyggingar heldur en að fara að byggja fjós á Sámsstöðum, til þess að láta það standa tómt.

Þá ætla ég að minnast á ræktunarstöðina á Sámsstöðum. Af öllum framkvæmdum Búnaðarfél. Ísl. frá 1927 munu ræktunartilraunirnar þar vera eitthvað hið merkasta. Þó að öll sú krítík, sem beint hefir verið gagnvart Búnaðarfél., væri á rökum reist — sem ég álít alls ekki að sé —, þá væri Búnaðarfél. þó búið að vinna merkilegt starf og þarft, þar sem er þessi tilraunastarfsemi. Þetta hygg ég, að mundi vera dómur þjóðarinnar. Árið 1927 voru Sámsstaðir teknir til notkunar af Búnaðarfél. Ísl. í þeim tilgangi að koma þar upp innlendri fræræktarstöð, vegna þess að það þótti líklegt, að fræ, sem ræktað væri hér á landi, yrði harðgerðara og betra til að nota hér heldur en fræ frá suðlægari löndum. En á meðan verið var að eyða úr tilraunasvæðunum öllum innlendum gróðri, (áður en hægt væri að nota landið til fræræktartilrauna) var landið notað til kornræktartilrauna. Þessar tilraunir, sem haldið hefir verið þarna uppi síðan 1927, hafa sýnt, að hér má fá fullræktaða hafra, og bygg sömuleiðis, og að þessum korntegundum er eins vel líft hér og í nágrannalöndum okkar. Tilraunir hafa einnig verið gerðar með að rækta rúg og hveiti, sem ekki hafa borið eins glæsilegan árangur, en standa þó vafalaust til bóta.

Nú hafa verið stofnuð tvö myndarleg kornræktarfélög, annað undir Eyjafjöllum og hitt í Borgarfirði, og kornrækt er nú stunduð á nokkuð á annað hundrað stöðum á landinu, og uppskera af kornræktinni virðist, a. m. k. af sumum tegundum, tiltölulega eins mikil hér og í nágrannalöndum okkar og kornið alveg eins gott.

Á Sámsstöðum er búið að brjóta um 30 ha. lands og byggja kornhlöðu og myndarlegt íbúðarhús. Og eftir því, hvernig Búnaðarfél. hefir búið að þessari stöð sinni á Sámsstöðum, geta menn getið sér til, hvort Búnaðarfél. sé líklegt til að svelta þessa tilraunastöð sína á þann hátt að veita henni ekki fé, t. d. til fjósbyggingar, ef slíkrar byggingar yrði þörf, m. ö. o., þegar félagið sér sér fært að koma upp búi í sambandi við stöðina. Þarna á Sámsstöðum hafa verið gerðar margvíslegar samanburðartilraunir með áburð í sambandi við fóðurrækt o. fl. o. fl.

Þá sný ég mér að starfsemi Búnaðarfél. Ísl. viðkomandi búfjárræktinni. Félagið hefir slegið saman leiðbeiningastarfsemi sinni um nautgriparækt og sauðfjárrækt, þannig, að sami ráðunautur hefir haft á hendi fræðslustarfsemi í hvorutveggja, sem er innifalin í því, að þessi ráðunautur hefir fyrir B. Í. annazt um að halda sýningar á nautgripum og sauðfé, þannig, að landinu hefir verið skipt í 5 svæði, til að halda sýningar á nautgripum á einu af þessum svæðum á ári, og þannig alstaðar á landinu á 5 árum. En viðvíkjandi sýningum á sauðfé hefir landinu verið skipt í 4 svæði á sama hátt. Sömuleiðis annast þessi ráðunautur skýrslugerð og leiðbeinir landsmönnum á margvíslegan hátt um mjög margt, sem tilheyrir þessum greinum búfjárræktarinnar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er ungur maður og mjög efnilegur nú að nema sauðfjárræktarfræði úti í Skotlandi, og hefir Búnaðarfél. Ísl. styrkt hann. Þegar hann hefir lokið námi, þá er ætlunin að hafa sauðfjárræktarráðunautinn einn og nautgriparæktarráðunautinn annan.

Þá er að minnast á hrossaræktarráðunautinn. Í tilefni af spurningu hæstv. ráðh. skal ég taka það fram, að sá maður hefir unnið skrifstofustörf sín sem ráðunautur heima hjá sér, en í hvert skipti, sem stj. Búnaðarfél. óskar og þegar hann þarf eitthvað við búnaðarfélagsstj. að tala, hefir hann komið á fundi félagsstj. niðri í búnaðarfélagshúsi.

Starf hans á sínu sviði hefir verið eins og störf hinna ráðunautanna. Hann hefir haldið hrossasýningar árlega, eina til tvær í hverri sýslu, og einnig afkvæmasýningar, þar sem sýnd hafa verið afkvæmi þeirra fola, sem notaðir hafa verið á vissum stöðum. Miðar starfsemi þessa ráðunauts að því að bæta hrossakynið og hjálpa bændum til að fá sem nothæfasta hesta. Sömuleiðis annast hann skýrslugerð fyrir hrossaræktarfélögin og úthlutar styrkjum til þeirra samkv. búfjárræktarlögunum. Á undanförnum árum hefir hann unnið að samningu rits um hesta og hestarækt, sem félagið hefir gefið út fyrir 3 árum, sem notað er sem kennslubók við skóla, og einnig er hentugt að öðru leyti til almennra nota sem fræðandi rit um þessa grein búskaparins. Þessi ráðunautur hefir einnig með höndum eftirlit með fóðurbirgðafélögum, stofnun þeirra og starfrækslu, vinnur úr vanhaldaskýrslum og er auk þessa gjaldkeri félagsins. Af þessu sést, að þessi maður, sem ég hefi heyrt álasað fyrir, hve lítið hann hefði að gera, hefir fleiri störfum að sinna heldur en hrossaræktarstarfseminni einni.

Þá eru fóðrunartilraunirnar. Félagið hefir ráðunaut á því sviði sem öðrum, og það er Þórir Guðmundsson, kennari á Hvanneyri. Hann hefir staðið fyrir fóðrunartilraunum á kúm undanfarin ár, og gefur hann skýrslur um þessar tilraunir, þar sem bændum veitist kostur á að fá upplýsingar um margt nytsamt í þeirri grein.

Félagið hefir ennfremur fiskiræktarráðunaut, sem gefur bændum upplýsingar um klakhúsabyggingar, seiðaflutning og annað, sem að veiðimálastarfsemi lýtur. Félagið hefir einnig með höndum styrktarstarfsemi í þessu efni.

Þá hefir Búnaðarfél. haft ráðunaut um rafvirkjanir, sem ferðaðist til þess að leiðbeina bændum um rafvirkjanir. Að þessu starfaði hann fyrir félagið í 2 ár, og var hann mikið notaður.

Loðdýraræktarráðunaut hefir félagið haft síðasta árið. Nú er þessi atvinnurekstur að færast í vöxt hér og trú á því að aukast, að hann geti orðið okkur Íslendingum að liði. Á þessu sviði eins og öllum öðrum sviðum, sem við höfum ekki starfað á, erum við auðvitað fákunnandi. Þess vegna var nú til þessa ráðunautsstarfs stofnað, og ber þessum ráðunaut að gefa allar upplýsingar á þessu sviði, sem óskað er, eins og hinum ráðunautunum á öðrum sviðum. Um stofnun þessa ráðunautsstarfs kom áskorun frá bændum víðsvegar að á sínum tíma.

Þá er það um bókaútgáfu félagsins að segja, að það gefur út Búnaðarritið, sem er mikil bók, er fjöldi manna les, og menn eiga kost á að fá æfilangt með því að borga 10 kr. í eitt skipti fyrir öll. Auk þessa gaf félagið út:

„Efnafræði“ 1927, eftir Þóri Guðmundsson, „Fóðurfræði“ 1929, eftir Halldór Vilhjálmsson, „Líffærafræði“ 1930, eftir Þóri Guðmundss, og „Hesta“ 1931, eftir Theódór Arnbjarnarson. Allar þessar bækur eru mjög merkar, hver á sínu sviði, og eru þær notaðar jöfnum höndum sem kennslubækur í búnaðarskólum og til lestrar af almenningi þar fyrir utan. Þessar bækur eru samtals 85 arkir. Í tveim þeim síðasttöldu eru á fjórða hundrað myndir.

Auk þessa gefur félagið út skýrslur, sem gefa upplýsingar um tilraunastarfsemi félagsins á öllum sviðum, sem komið hafa út í 11 heftum, um 40 arkir.

Félagið hefir haldið uppi fyrirlestrafræðslu um langt skeið, bæði á búnaðarnámskeiðum, sem haldin hafa verið víðsvegar um landið um mörg undanfarin ár, og einnig með fyrirlestrum í gegnum útvarp. Það hefir komið til orða að færa þessa fyrirlestrafræðslu í það horf, að veita bændum hana meira gegnum útvarpið en verið hefir. En það er óráðið, og þykir jafnvel margt mæla með því, að bændur fái fyllri og haldbetri fræðslu með búnaðarnámskeiðum heldur en í fyrirlestrum gegnum útvarpið, þó að þeim fyrirlestrum verði sennilega alltaf haldið áfram meðfram námskeiðunum.

Félagið hefir haldið uppi eftirlits- og trúnaðarmannanámskeiðum fyrir trúnaðarmenn búnaðarfélaga um að mæla jarðabætur og fyrir þá, sem ætla að vera eftirlitsmenn fóðurbirgðafélaga. Þessi námskeið hefir sótt fjöldi manna. Auk þess hefir félagið haft námskeið til að kenna mönnum að fara með dráttarvélar, og full þörf er á fræðslu á þessu sviði.

Félagið hefir einnig haldið uppi garðyrkjukennslu og garðyrkjunámskeiðum, styrkt garðyrkjustöðina hér í Rvík og ýmsa, sem álitnir hafa verið til þess færir að hafa fræðslustarf í garðrækt með höndum. Félagið hefir og veitt nokkurn styrk til stofnunar og rekstrar nýju skólabúi, sem stofnað hefir verið á Hriflu í Þingeyjarsýslu. Auk þess hefir það veitt kvenfélagasamböndum marga styrki til matreiðslunámskeiða, garðyrkjukennslu o. fl. o. fl.

Þá vil ég minnast á einn af helztu liðunum í starfsemi Búnaðarfél. Ísl., þó að hann heyri ekki beint undir stjórn B. Í., sem er starfsemi búnaðarsambandanna. Landinu er öllu skipt niður í búnaðarsambönd, þar sem félög innan einstakra hreppa taka höndum saman um framkvæmdir sinna mála. Samböndin vinna að allskonar jarðræktar- og landbúnaðarmálum hvert í sínum landshluta, og til þeirra rennur allmikill hluti af því fé, sem Búnaðarfél. Ísl. fær frá Alþ. auk þess venjulega árlega styrks, sem samböndin njóta, var af síðasta búnaðarþingi veittur sérstakur aukastyrkur til þessara sambanda til þess að gera tilraunir um ýmsar nýjungar í búnaði. Þessi styrkur hefir mikið verið notaður, til aukinnar garðyrkju, alifuglaræktar, loðdýraræktar, heimilisiðnaðar o. fl. o. fl.

Á fjárhagsáætlun Búnaðarfél. Ísl. er ákveðið að veita fé til þess að hafa héraðsráðunauta innan búnaðarsambandanna. Nú þegar eru þeir í tveim búnaðarsamböndum, hér á Suðurlandi og í búnaðarsambandi Eyfirðinga. Og eftir því sem þeim mönnum fjölgar, sem hafa mikla þekkingu á landbúnaðarmálum, verður þeim dreift fleirum út um landið. Styrki til náms erlendis hefir félagið alltaf veitt nokkra í þágu landbúnaðarins, en þó meiri nú en nokkru sinni áður til að ala upp unga menn til starfsemi fyrir landbúnaðinn.

Búnaðarfél. Ísl. hefir haft mjög mikið með höndum undirbúning mestallrar þeirrar löggjafar, sem sett hefir verið til hagsbóta fyrir bændur um landbúnaðarmál. T. d. eru jarðræktarl., búfjárræktarl. o. fl. runnin undan rifjum félagsins.

Síðan árið 1927 hefir, vegna starfsemi Búnaðarfél. Ísl., allskonar búfjárræktarfélögum stórfjölgað. Meginhlutinn af mælingum jarðyrkjuráðunauts hefir fram farið á þeim tíma.

Starfsemi félagsins á Sámsstöðum hefir öll myndazt á því tímabili. Öll bókaútgáfa félagsins hefir verið hafin á þeim tíma, og öll skipulagning B. Í. á ræktunarmálum kaupstaða tilheyrir þessu tímabili. Meginhluti af starfsemi verkfæraráðunautsins fellur og á það tímabil. Ennfremur má benda á það, að notkun tilbúins áburðar og sáðrækt hefir aukizt ákaflega mikið á þessu tímabili, sem að miklu leyti er að þakka tilraunastarfsemi Búnaðarfél. Ísl. og leiðbeiningum.

Ég vil nú segja, að þótt þessi skýrsla mín um störf Búnaðarfél. Ísl. sé ófullkomin, þá gefi hún þó nokkra hugmynd um hina margbreyttu og mikilfenglegu starfsemi félagsins. Margt hefir verið fundið að Búnaðarfél. Ísl. og sagt, að það hafi stigið mörg víxlspor. En ég vil nú spyrja hv. hlustendur að því, hvaða félagsskapur til sé í landinu, sem ekki hafi stigið fleiri og færri víxlspor. Hvaða einstaklingur í landinu hefir ekki gert meiri og minni vitleysur í sínum atvinnurekstri á undanförnum 5—10 árum? Þegar framfarir og framkvæmdir eru svo stórstígar eins og á því tímabili hefir verið, svo að það nálgast byltingu, þá er ýmislegt gert, bæði af hinu opinbera og einstaklingum, sem við nána athugun eftir á sést, að hefði mátt öðruvísi betur fara.

Ég þykist nú hafa gefið hv. þm. nokkra skýrslu um það, til hvers hefir verið varið því mikla fé, sem Búnaðarfél. Ísl. hefir fengið sem framlag frá ríkinu, og sem fjöldi hv. þm. virðist ekkert hafa vitað um, hvað verður af.

Þá ætla ég að minnast á brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 582 frá meiri hl. fjvn. Fyrri hl. brtt. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er falið að undirbúa tillögur um framtíðarskipulag félagsins og um yfirstjórn búnaðarmála og leggja þær fyrir næsta Alþingi. Þar til sú framtíðarskipun er gerð, getur ríkisstjórnin gert það að skilyrði fyrir greiðslu á styrk til félagsins, að fjárhagsáætlun þess sé samþ. af landbúnaðarráðherra, svo og ráðning búnaðarmálastjóra, er ekki sé nema einn“.

Nú vil ég taka það fram í þessu sambandi, að það er alveg rétt orðað hér í till., að gera till. um framtíðarskipulag Búnaðarfél. Ísl., því að vitanlega getur Alþ. ekki gert annað en till., sem búnaðarþingið verður að ákveða, hvort það gengur að eða ekki. Ríkisvaldið getur ekki sagt annað en þetta: „Þið verðið að ganga að þessu, eða við sviptum ykkur þeim fríðindum, sem þið hafið notið frá ríkinu“. Búnaðarfél. verður svo að velja um, hvorn kostinn það heldur tekur.

Ég skal líka taka það fram, að mér finnst ekkert óeðlilegt, þó að ríkið vilji fylgjast með skipulagi Búnaðarfél. Ísl., enda hefir Alþ. sýnt það mjög greinilega, að það vill hafa hönd í bagga um stjórn þess, þar sem í jarðræktarl. var sett ákvæði um það, að Alþ. eða landbn. þess skyldu tilnefna tvo menn af þremur í stj. félagsins. Þar er ennfremur sett það skilyrði fyrir styrkveitingum samkv. þeim 1., að styrkþegi sé í búnaðarfélagi. Ég veit, að það vakir fyrir ýmsum hv. þm. að gera breytingar á skipulagi Búnaðarfél., og þær jafnvel meiri en hér er farið fram á. Undanfarið hefir þeim röddum sífellt farið fjölgandi, sem vilja taka af félaginu allt administrativt starf, og leggja það undir deild í stjórnarráðinu, og gera það að privatfélagi, sem ríkið skipti sér ekkert af. Þessir menn líta svo á, að búnaðarmálastjórnin sé svo bezt komin, að hún standi beint undir stj., t. d. eins og vegamálastjórnin, og ráðunautsstarfsemin færist líka yfir á hendur ríkisins. Þessar raddir hafa oft heyrzt, bæði utan þings og innan. Og nú verður Alþ. úr því að skera, hvort Búnaðarfél. á að verða áfram samskonar stofnun og hingað til, eða hvort á að gerbreyta skipulagi þess. Ég vil lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég er sannfærður um, að það skipulag, sem Búnaðarfél. Ísl. hefir sjálft klætt sig í með áratugalangri frjálsri þróun, sé næst því fullkomna skipulagi, sem komizt verður, eftir því sem nú er háttað málum. Ég býst við, að þetta fyrirkomulag sé hvergi viðhaft nema hér á landi. Í nágrannalöndunum er það viss skrifstofa í stjórnarráði undir viðkomandi ráðh., sem hefir stjórn þessara mála með höndum. Hér er það svo, að með ákvæðum jarðræktarl. er í raun og veru hver bóndi skyldur til þess að vera í búnaðarfélagi. Þar með er lagður traustur grundvöllur undir búnaðarfélagsskapinn í landinu. Þessi félög mynda svo með sér héraðssambönd til þess að stuðla að framgangi sameiginlegra áhugamála innan sambandssvæðisins, aukinni jarðrækt og ýmsri annari umbótastarfsemi. Sérstaklega á sviði jarðræktarinnar hafa þessi sambönd staðið fyrir stórstígum framförum. Sambönd þessi kjósa svo fulltrúa á búnaðarþing. Þetta fyrirkomulag er mjög líkt því, sem Samband íslenzkra samvinnufélaga er byggt upp með, og hefir það gefizt vel. Og ég er í engum vafa um það, að svona á það að vera í Búnaðarfél. Ísl. áfram. Hin einstöku félög kjósa fulltrúa á sambandsþing, sambandsþing kýs fulltrúa á búnaðarþing, og búnaðarþing kýs svo stjórn Búnaðarfél., sem ræður búnaðarmálastjóra, og hann svo aðra starfsmenn félagsins. Þetta kerfi er brotið í toppinum með ákvæði jarðræktarl. um skipun Alþ. á tveim af stjórnarmeðlimum félagsins. Með þessu móti er fyrirkomulagið ekki fullkomið, en væri það byggt heilsteypt upp að neðan og til toppsins, þá er þar að mínu áliti fengið það bezta fyrirkomulag á stjórn búnaðarmálanna hér á landi, sem fáanlegt er.

Ég veit, að það getur vitanlega staðizt að leggja þessi mál undir deild í stjórnarráðinu, og skipuleggja þau ofan frá. En ég er ekki í neinum vafa um það, að sá búnaðarmálastjóri, sem kosinn er eftir hinu fyrirkomulaginu, geti verið eins vel fær um að gegna hinni administrativu hlið eins og sá, sem þannig væri skipaður af ráðh. Og á því er enginn vafi, að með núv. fyrirkomulagi fæst miklu betri og fullkomnari tengiliður milli bændanna í landinu og yfirstjórnar búnaðarmálanna. Og mér finnst svo mikill munur á þessu, hvort skipulagið er látið vaxa eðlilega upp að neðan, eða að það sé allt fyrirskipað ofan frá, að ég vildi líkja því við tré, þar sem annað stæði í lifandi sambandi við frjómoldina með sterkum, marggreindum rótum, og yxi neðan frá, eins og allur eðlilegur gróður, en hitt væri upphöggið og fest niður í malbikaða borgargötu, fyrirfram dæmt til fúa og dauða. En þetta er einmitt einkenni bureaukratismans. Þar þróast fúi og skemmdir og fleira slíkt, sem andstætt er öllu gróandi lífi. — Ég segi þetta til þess að það komi skýrt fram, hvernig ég álít, að Búnaðarfél. Ísl. eigi að vera byggt upp. En auðvitað er það Alþ. að skera úr því, hvert skipulag verður haft á búnaðarmálunum eftirleiðis. Ég væri því meðmæltur, að stj. væri falið að koma með þessi mál undirbúin fyrir næsta þing. Ég treysti stj. til þess að hafa nána samvinnu við Búnaðarfél. Ísl., ekki sízt þar sem búnaðarþingið kemur saman eftir áramótin, áður en næsta Alþ. kemur saman, og gerði vafalaust till. um framtíðarskipulagið, ef það óskaði að breyta því.

Þá kem ég að seinni lið till., sem hljóðar svo:

„Þar til sú framtíðarskipun er gerð, getur ríkisstj. gert það að skilyrði fyrir greiðslu á styrk til félagsins, að fjárhagsáætlun þess sé samþ. af landbúnaðarráðh., svo og ráðning búnaðarmálastjóra, sem ekki sé nema einn“.

Hvað þessu viðvíkur, þá er krafan um, að landbúnaðarráðh. samþ. fjárhagsáætlun félagsins, ekki ný. Þetta hefir verið regla undanfarið, og er ekki nema sjálfsagt. Hitt er aftur nýtt, að ráðh. skuli þurfa að samþ. kosningu búnaðarmálastjóra. Þetta ákvæði finnst mér aðeins geta komið til greina sem bráðabirgðaákvæði. Um það hefir verið talað, að verði þetta ákvæði samþ., sé Búnaðarfél. búið að glata sjálfstæði sínu. En mér finnst lítið fyrir af frelsi búnaðarþings í þessum efnum, þegar það má aðeins kjósa einn af þremur stjórnendum félagsins. Þar er sannarlega ekki miklu fyrir að fara. Ég held því, að sjálfstæði Búnaðarfél. geri hvorki að aukast eða minnka, hvernig sem fer með þessa till. Hitt er vitanlegt, að tilætlunin með þessu ákvæði jarðræktarl. hefir verið sú, að aðalflokkar þingsins ætla sér að fá íhlutunarvald um þá tvo stjórnarmeðlimi félagsins, sem landbúnaðarn. Alþ. tilnefna. Það hefir verið svo, að tveir stærstu flokkar þingsins hafa átt þarna fulltrúa. Nú hefir farið svo, að báðir fulltrúarnir, sem Alþ. kýs, eru úr andstöðuflokkum stj. Það er því eðlilegt, fyrst búið er á annað borð að setja pólitík í þessi mál, að sá þingmeirihluti, sem styður núv. stj., vilji hafa nokkur afskipti af þessum málum líka. Ég hefi alltaf verið hræddur um það, að þetta ákvæði, að Alþ. kysi menn í stj. Búnaðarfél., yrði að ásteytingarsteini, og að því virðist nú komið. Með því eru ráðstafanir gerðar til þess að gera stj. fél. pólitíska, því að bersýnilegt er, að ef tveir af stjórnendunum eru fulltrúar pólitískra flokka, getur sá þriðji ekki haldið sér frá því að vera dreginn í pólitískan dilk, og þar með fengi meiri hl. stj. á sig ákveðinn pólitískan blæ. Þó að reynt hafi verið til hins ýtrasta að halda félaginu ópólitísku, hefir þetta ákvæði jarðræktarl. legið eins og vakandi neisti, sem nú hefir kviknað út frá. En ég hefi þá trú á ábyrgðartilfinningu þeirra pólitísku flokka, sem hér eiga hlut að máli, að þeir muni stuðla að því að halda Búnaðarfél. Ísl. utan við flokkadeilurnar, og velji hæfa menn til stjórnar þessum málum, meðan á þessu millibilsástandi stendur, — ég lít svo á, að hér sé aðeins um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða. Búnaðarfél. verður í framtíðinni að fá að kjósa sína eigin valdstjórn. Það mun nú komið svo, að allir aðilar eru að verða óánægðir með núv. fyrirkomulag á yfirstjórn B. Í. — og það hefir máske verið nauðsynlegt, að svo færi, til þess að fá samkomulag um að breyta því. Meiri hl. Alþ. hyggst að ná sínum pólitíska rétti með þessari till., og mun sumum þar finnast skemmra farið en skyldi. Öðrum stjórnmálaflokkum finnst vafalaust, að vald sitt sé skert um of með henni. Þannig er B. Í. nú að verða leiksoppur stjórnmálaflokkanna, og að þessu hlaut að koma fyrr eða síðar með þessu fyrirkomulagi, og verður það vonandi til þess, að því verði breytt í viðunandi form, og að allir flokkar sameinist nú um að draga félagið út úr flokkadeilunni.

Frá hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. landsk. hafa komið fram svipaðar brtt. þeim, er ég nú hefi rætt, en þó ekki eins, og felli ég mig að vísu betur við till. hv. þm. V.-Húnv., ef hér ætti að vera um framtíðarskipulag að ræða. En þar sem ég, eins og ég hefi tekið fram, álít þetta aðeins bráðabirgðafyrirkomulag — sáttatilraun — í þeim tilgangi, að B.fél. Ísl. og hæstv. landbúnaðarráðh. tali saman um hlutina og leitist við að ráða þeim til lykta með samkomulagi, en ekki átökum, þá mun ég greiða atkv. með till. á þskj. 582. Og þó að segja megi, að B.fél. Ísl. fái nokkurn hluta af því valdi, sem því ber, með því að það sé látið fá vald yfir ráðningu búnaðarmálastjóra í þetta skipti, þá eru þær réttarbætur hvorki heilar né hálfar, en til þess eins fallnar að stinga því svefnþorn um sínar sjálfsögðu kröfur, að það fái fullkomið vald yfir allri sinni stjórn, sem ég ætíð hefi fylgt og mun fylgja á meðan ég á sæti hér á Alþingi.