10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. til að leiðrétta villu, sem slæddist inn í l. á síðustu stundu, eða hv. 3. þm. Reykv. kom inn í Ed. Var þá slegið föstu, að bálar frá Vestfjörðum og Faxaflóa mættu veiða við Vestmannaeyjar, en bátar frá Vestmannaeyjum mættu ekki veiða á Faxaflóa. Sjá allir, hvaða vit er í þessu, enda lýsti hv. þm. Borgf. því með sterkum orðum, hvílíkur óskapnaður þetta væri. (PO: Frv. í heild, já). Nei, þessi breyting. (PO: Nei, áður en þessi breyt. var gerð. Frv. með haus og sporði). Mér þótti það líka, en þótti svo mikið við liggja að eyðileggja ekki alveg þennan atvinnuveg, að ég taldi réttara að hleypa því áfram, en það var komið alveg í eindaga og ekki hægt að lagfæra sem þurfti. Ég heyri sagt, að hv. þm. Borgf. hafi komið með rökst. dagskrá um að vísa frv. frá. Við, sem að málinu stöndum, höfum hér í höndunum ótal mörg áskorunarskjöl, undirskrifuð af hundruðum sjómanna og smáútgerðarmanna, bæði frá Vestmannaeyjum, Keflavík og annarsstaðar af Suðurnesjum og víðar að, um að leyfa þessar veiðar áfram. Ég veit ekki, hvort hv. 3. landsk., frsm. þessa máls, hefir lesið þessi bréf upp eða ekki, en ef það er ógert, vil ég eindregið mælast til þess, að hann geri það, því það hafa aldrei komið fram jafnsterk rök í þessu máli og nú, svo ég viti. Það er hreint og beint óvitaháttur að vilja eyðileggja atvinnu fyrir fleiri tugum manna.

Þegar menn eru að mótmæla þessu leyfi, tala þeir um, að verið sé að opna fyrir Dönum. En þetta er hinn mesti misskilningur. Það er hvorki verið að opna né loka fyrir Dönum. Þessir fáu bátar, sem þeir eiga hér við land, fá að veiða óhindrað jafnt innan sem utan landhelgi. Danir hafa svo fullkomin tæki á sínum bátum, að þeir geta vel verið langt innan við landhelgislínu með veiðarfari sín, þó skipin séu fyrir utan. Ég veit ekki, hvort þm. hafa gert sér þetta ljóst, en ég er þessu kunnugur af viðtali og náinni kynningu við fiskimenn víðsvegar um land, og veit það líka af því ég hefi sjálfur verið í förum, hvernig dönsku bátarnir hagnýta sér að geta haft veiðarfærin langt frá. Mér finnst ekki vera gerandi leikur að því að bægja trillubátum og öðrum skipum frá að stunda þessar veiðar og stöðva þannig atvinnu fjölda manna. Þegar ég hefi barizt fyrir þessu máli og hefi verið að reyna að vinna bug á bábiljunum, hefir mjög verið vitnað í, að menn bæru lítið úr býtum við þessa veiði. Þetta var satt. Íslendingar voru lítið kunnugir dragnótaveiði og kunnu ekki með að fara. En þeir eru farnir að læra það af reynslunni. Meðferð dragnóta krefst nákvæmni, sem ekki næst strax. En það er auðséð á aflanum, að sjómennirnir íslenzku eru farnir að læra handtökin, og útkoman er miklu betri en var. Ég hefi hér með höndum nokkur skjöl, þar sem eru tölur í þessu efni. Ég skal aðeins taka sem dæmi 3 báta héðan úr Rvík, eða rekstrarreikninga þeirra í sumar, þar sem sýnir sig, hvað þessi atvinnugrein gefur í aðra hönd. Einn bátanna hefir aflað fyrir 4000 kr. og haft í ágóða 800 kr. Annar báturinn hefir aflað fyrir 6500 kr. og ágóði orðið 3000 kr., og þriðji báturinn aflaði fyrir rúml. 7500 kr. og ágóði hans varð 1800 kr. Þess háttar dæmi eru mörg. Í fyrra sumar höfðu Vestmannaeyingar betri vertíð við dragnótaveiði en á vetrarvertíðinni. Ég skal taka það fram, að útkoman er betri, ef ekki eru allt of margir bátar, sem stundu þessar veiðar. Í sumar voru fleiri bátar, sem stunduðu dragnótaveiðar, en í fyrra, og útkoman er góð, þó hún sé ekki eins glæsileg og í fyrra. Ég veit ekki, hversu sterk rök hv. þm. Borgf. hefir flutt með dagskrártill. sinni. En ég get fullvissað hv. þdm. um, að með því að samþ. hana gerðu þeir hundruðum sjómanna þann mesta ógreiða, sem hægt væri, því að það er nauðsynlegt að leyfa dragnótaveiðar næsta sumar.

Eins og allir vita, hefir það komið fyrir, að bátar hafa verið teknir í landhelgi og dæmdir í háar sektir, en enginn hefir getað borgað, og dómsmálaráðherrar, hverjir sem það hafa verið, hafa orðið að gefa eftir sektina og þagga málið niður. — Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en skora á hv. d. að ganga ekki undir það jarðarmen, sem hv. þm. Borgf. vill láta ganga undir hér, og með því taka atvinnu af mörgum sjómönnum, sem annars gætu haft sæmilega atvinnu, ekki einungis hér við Faxaflóa, heldur um allt land, þar sem einhver mannskapur er í mönnum að bjarga sér. Það væri hreinasti óvitaháttur að samþ. þessa dagskrá, og ég skal benda á eitt dæmi enn. Eins og kunnugt er, brjóta togarar landhelgislögin, og t. d. enskir togaraskipstjórar, sem þekkja botninn og gullnámuna í grennd við Vestmannaeyjar, hafa skafið botninn þar, án þess varðskipin fái að gert, enda geta þau ekki séð við því nema vera alveg á sömu stöðum að staðaldri. En síðan dragnótabátarnir fóru að vera á þessum stöðum, hafa togararnir ekki haldizt við, þeir hafa hætt ásóknum sínum af ótta við klögumál þessara mörgu báta.

Vinningurinn við veiðar þessara báta er því tvöfaldur, um leið og þeir hafa hagnýtt sér auðæfi hafsins á þessum slóðum hafa þeir bægt lögbrjótum frá skemmdarstarfi þeirra. Með því að kippa að sér hendinni um leyfi til dragnótaveiða er því togurum gefið undir fótinn um að nota landhelgina, og með því væri lífsframfærið tekið frá fjölda manns.