30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1935

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Ég hefði haft nokkra löngun til þess að fara fleiri orðum um fjárlagafrv. og brtt. ýmsar en tími er nú til, og mun ég því halda mér við það eitt, að skýra frá tveim brtt., sem ég flyt á þskj. 602. Í brtt. nr. XXI er farið fram á, að upphæð sú, sem ætluð er til sandgræðslu, hækki um 12000 kr., vegna sandgræðslu og landvarnar í Meðallandi. Fjárveiting til landvarnar á þessum slóðum er mjög aðkallandi. Málið er svo vaxið, að nokkurri sandgræðslu hefir verið haldið þarna uppi, og eru mörg ár síðan á henni var byrjað. Þetta starf hefir komið að þó nokkru gagni við uppgræðslu sanda í Meðallandi vestan Eldvatns. En svo illa hefir tekizt til, að áveita sú, sem átti að gera sandana að gróðurlendi, hefir í stað þess ráðizt á graslendi, og liggur þar við miklum skemmdum, verði ekki gripið til landvarna. Loks fékkst maður frá Búnaðarfél. til þess að fara austur og athuga þetta. Hann hefir svo gefið skýrslu um málið, sem fjvn. hefir haft með höndum. En líklega hefir hún lent þar á kaf í skjalabunkana, og aldrei verið lesin, þar til ég dró hana þaðan út. Ég reifaði svo málið fyrir hv. nefndarmönnum, og vona, að eitthvað af orðum mínum og útskýringum hafi setið eftir í eyrum þeirra. — Þetta mun vera eina sveitin á landinu, sem uppfyllir kröfur núv. stjórnarflokka því viðvíkjandi, að allar jarðir skuli vera ríkisins eign. Svo að þarna er spurningin sú hvort stj. vill verja þessa ríkiseign ágangi. Ég skal geta þess, að hæstv. landbúnaðarráðh. hefir nú lesið þau gögn, sem ég hefi fram að leggja í þessu máli, og hefir hann látið sá skoðun í ljós, að hver ráðh. sem verið hefði mundi hafa sinnt þessum beiðnum, jafnvel án þess að sérstaklega væri gert ráð fyrir því í fjárl., því að hér væri bersýnilega um neyðarlandvörn fyrir ríkisjarðir að ræða. — Í skýrslu þeirri, sem ég áður nefndi, er bent á þrjár leiðir til lagfæringar á þessu, og eru þær misjafnlega dýrar og líka misjafnlega öruggar. Við hæstv. ráðh. erum sammála um það, að ekki sé hægt að fara dýrustu leiðina, og ekki heldur þá ódýrustu, þar sem hún sé ótryggust. Okkur hefir litizt bezt á meðalveginn, og gerum ráð fyrir, að sandgræðslunni verði haldið við, en jafnframt séð til þess, að graslendið spillist ekki. Kostnaður við þetta hefir verið áætlaður 12000 kr., og hefi ég tekið þá upphæð til í brtt. minni. — Ég vil bæta því við, að ég mun taka þessa brtt. mína aftur til 3. umr., í þeirri von, að hæstv. landbúnaðarráðh. taki málið upp með mér, en bið hæstv. forseta að minnast þess, að till. er geymd, en ekki gleymd.

Í síðari brtt. minni, nr. XXVII, er farið fram á að kaupa þrjár jarðir í Mýrdal, — Keldudal, Álftagróf og Holt. Mönnum kann að virðast það undarlegt, að ég beri fram slíka till., enda hefir það sínar ákveðnu orsakir. Ég geri þetta ekki í því skyni að hjálpa hæstv. stj. til þess að framkvæma stefnuskrá sína, heldur af öðrum, knýjandi ástæðum.

Vegamálastjóri hefir í umboði ríkisstj. látið gera fyrirhleðslu þannig, að Hafursá er veitt vestur í Klifanda. Það hefir verið byggð voldug brú yfir þetta vatnsfall, sem er hinn mesti skaðræðisgripur og hefir gert afarmikið tjón. En við þessa breytingu hafa 3 jarðir orðið fyrir áníðslu, og er afleiðingin sú, að þeir menn, sem eiga jarðirnar, sjá sér ekki fært að halda þeim. Það er því eðlilegt að stemma á að ósi, með því að ríkisstj. taki jarðirnar, þó að þær leggist kannske í auðn. Það verður að teljast skylda ríkisins að taka jarðirnar, þegar svona er gengið á þær, því það er ekki heppilegra að meta skemmdirnar jafnóðum, og ríkið bæti þær þannig. Einn ábúandinn ætlaði sér að reisa hús á jörð sinni, en varð að hætta við það, af því að hann treystist ekki til þess að byggja á eigin spýtur, þar sem jörðin liggur undir skemmdum. Það er því farið fram á, að ríkisstj. sé heimilað að kaupa þessar jarðir. Þær eru metnar samtals á um 10 þús. kr., og sjá menn því, að hér er ekki um meira að ræða en eitt jarðarverð, þegar um sæmilegar jarðir er að ræða. Þó munu dæmin vera fleiri, að jarðir ganga kaupum og sölum fyrir hærra verð. Hér er ekki í mikið ráðizt, og vænti ég því, að þessari till. verði vel tekið. Hæstv. landbrh. á hér hlut að máli, og tel ég honum skylt að gæta hagsmuna þeirra, sem þetta snertir. — Ég mun svo láta þessi orð fylgja till. og taka hana aftur til 3. umr. Það er nú orðið svo áliðið tímans, að hlé mun verða gefið, og sé ég mér því ekki fært að fara út í fleira að sinni, og mun ég þá láta staðar numið að svo stöddu.