30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

1. mál, fjárlög 1935

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Í nál. hv. meiri hl. fjvn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um rafmagnseftirlit ríkisins: „Nefndin hefir orðið vör við, að töluverð óánægja er með framkvæmdina á rafmagnseftirliti ríkisins, reynist það dýrt neytendum, og virðist ekki svara þeim tilgangi, sem fyrir vakti með löggjöfinni um þetta efni. Alveg sérstök óánægja er með eftirlitsmann þann, er mælt var með af forstöðumanni þessarar stofnunar til að hafa eftirlit með byggingu rafstöðvanna á Blönduósi og Sauðárkróki. Má eftir þeim gögnum, sem liggja fyrir fjvn., jafnvel búast við málshöfðun frá rafveitustjórn Sauðárkrókshrepps út af framkomu eftirlitsmannsins þar“.

Þetta er fært hér í nál. sem grg. fyrir þeirri till. hv. meiri hl. á þskj. 508, tölul. 78, að liðurinn til rafmagnseftirlits ríkisins verði felldur niður. Nú þykir mér rétt, af því ég hefi ekki heyrt neitt nánar rökstudda þessa till. en hér hefir fram komið, og með því að sveigt er að tilteknum manni án þess að nokkuð hafi komið frá honum sjálfum, þá þykir mér rétt, að hér komi einnig fram álit hans í þessu máli, ekki sízt þar sem nál. segir, að yfir vofi málssókn frá Sauðárkrókshreppi. Ég hefi nú ekki heyrt það fyrr, og mér er ekki kunnugt um, að neitt í þá átt liggi fyrir ráðuneytinu. En það, sem er víst meint hjá hv. fjvn. með þessu, er, að þegar vatninu var hleypt í pípurnar á Sauðárkróki, þá reyndust þær of veikar og sprungu. Í skýrslu Jakobs Gíslasonar, sem er fyrir ríkisstj. við rafmagnseftirlitið, segir svo:

„Það er enginn ágreiningur um það, að E. Ellingsen var ekki kvaddur til að leggja dóm á verkið áður en farið var að prófa það, að hann var ekki kvaddur til að vera viðstaddur, þegar vatninu var hleypt í pípurnar, og ekki heldur tilkvaddur, þótt það kæmi í ljós, að pípurnar þoldu ekki vatnsþrýstinginn. — Það virðist heldur ekkert ágreiningsmál, að enginn hafði fengið neitt leyfi eða samþykki E. Ellingsens til að hleypa vatni á pípurnar“.

Í skýrslu frá Ellingsen sjálfum um sama atriði, segir svo: „Til eftirlits með byggingu pípna, stöðvarhúss etc. var ég aldrei kvaddur. Þó reiknaði ég skv. ósk Runólfs Runólfssonar í 1. eða 2. ferð minni út nauðsynleg járn á trépípuna (10 stk. 12 m/m j. á metralengd neðst 1 vatnsþr. 50 m.) og tilsvarandi ofar) og tilkynnti ég R. Runólfssyni og Stefáni Runólfssyni niðurstöður mínar þá þegar og ráðlagði þeim að bæta við 2 járnum milli hverra 2ja járna, sem þá voru komin á pípurnar með 25 cm. millibili á neðsta partinum, þannig að bilið milli járnanna hefði þá orðið 8 cm. Hvernig framkvæmd þessa verks varð, veit ég ekki, því jafnvel í síðustu ferð minni til Skr. var viðbótarjárnið ekki komið, en sagt á leiðinni. Kom því aldrei til minna kasta að líta eftir þessu“.

Þetta er í skemmstu máli sagt af hálfu rafmagnseftirlitsins. Og er því bert af skjölum málsins, að ráðleggingum Ellingsens var ekki fylgt. Að vísu voru pantaðar gjarðirnar frá landssmiðjunni, en látið þar við sitja. Hreppsn. Sauðárkr.hr. hefir því sett vatnið í pípurnar vitandi vits, að gjarðirnar voru of gisnar. (JS: Er það samhlj. áliti hreppsnefndarinnar?) Ég hefi leitað í plöggum þeim, er fyrir liggja, og hefi ekkert fundið, er sýni það út af fyrir sig, en ég þori ekkert að fullyrða um álit hreppsn. í þessu, en ef þm. veit betur, getur hann að sjálfsögðu skýrt það. Ég vil bara láta koma fram álit þess manns, sem deilt hefir verið sérstaklega á, og tel það sjálfsagt, úr því víttar eru gerðir hans. Ég get tekið undir með hv. frsm. meiri hl. fjvn., að sjálfsagt sé að athuga, hvort ekki er tiltækilegt að steypa saman í eitt rafmagnseftirlitinu, eftirliti með símanum, vélum, skipum, mæli og vogartækjum o. fl. Út af fyrir sig er ég ekki móti till. fjvn. hvað sameininguna snertir, en taldi rétt, að málsvörn aðila kæmi fram, svo ekki væri of einhliða litið á, hvernig þessu máli er háttað.

Ég held, að það séu ekki fleiri atriði í brtt., sem ég vil tala um, en get tekið undir margt af því, sem frsm. meiri hl. hafa sagt. Að því er snertir ummæli hv. 1. þm. Skagf. um brtt. á þskj. 543, að lækka framlag til atvinnubóta, get ég látið nægja að vísa til útvarpsumræðna við 1. umr. fjárl. Læt ég svo þetta nægja, og mun ekki lengja umr. að sinni.