30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get verið stuttorður. Ég vil aðeins segja fáein orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Skagf., frsm. minni hl., sem ég gat því miður ekki hlýtt á nema að nokkru leyti, vegna annríkis. Ég tók þó svo eftir, að hann bæri fram fyrirspurn til stj., hvort hún hefði gert nú þegar ráðstafanir til þess að koma fram launalækkunum hjá þeim mönnum, sem ekki væru ráðnir samkv. launal., og ef svo væri, hvort stj. hefði aðvarað þessa menn um það. Ég vil gefa þær upplýsingar, að stj. hefir ekki ennþá gert neinar ráðstafanir í þessa átt. Hún vildi ekki gera neitt í þessu fyrr en hún vissi þingviljann í þessu máli, þ. e. a. s. ekki fyrr en hún vissi, hvort þingið vildi fallast á till. stj. um dýrtíðaruppbót þeirra manna, sem taka laun samkv. launal., en það fannst stj. sanngjarnt, ef þingið fellst á þær till., að þá væri hlutfallslega það sama látið ganga yfir þá menn, sem tækju laun eftir öðrum ákvæðum en launal. En það veldur einhverjum örðugleikum í framkvæmdinni, ef þingið fellst á till. um dýrtíðaruppbótina; það veldur örðugleikum á framkvæmd á lækkun á launum annara, þó að ég hafi ekki ennþá rannsakað það í einstökum atriðum, og ýmsir starfsmenn ríkisins hafa samninga, sem eru þannig vaxnir, að erfitt er að koma þar fram launalækkun þegar í stað, en það verður að sjálfsögðu farið eftir þingviljanum um launagreiðslur þeirra, sem taka laun sín eftir launal.

Hv. þm. undraðist þá upphæð, sem hv. þm. S.-Þ. taldi, að sparast mundi á launum þeirra, sem tækju laun eftir öðrum fyrirmælum en launal., ef farið yrði með laun þeirra á sama hátt og hinna, sem taka laun eftir launal. Þessa upphæð hefi ég gefið hv. þm. upp eftir athugun, sem aðalendurskoðandi stjórnarráðsins hefir gert um þetta efni, og ég hefi ekki ástæðu til að véfengja hann um þær tölur. En ég held, að þessi undrun hv. þm. hafi stafað af misskilningi í ræðu hans, þar sem hann gerði ráð fyrir því, að sanngjörn meðferð á mönnum, sem tækju laun utan launal., væri að lækka svo laun þeirra, að enginn hefði hærri laun en þeir, sem nú taka laun samkv. launal. En stj. lítur svo á, að ef réttilega á að fara að, þá eigi að lækka laun þessara manna á sama hátt og þeirra, sem taka laun samkv. launal., en ekki öðruvísi. Það ber vel að athuga, að þótt í fljótu bragði líti það sanngjarnlega út að lækka laun þeirra, sem eru utan launal., svo mikið, að þeir hafi ekki hærri laun en þeir, sem fá laun samkv. launal., þá er það þó í raun og veru ekki rétt, því að fjöldi þeirra, sem taka laun eftir launal., hafa ýmiskonar viðbætur, sumpart eftir launal. og sumpart eftir samningum og venjum, svo að ef ætti að lækka laun allra, sem taka laun utan launal., niður í það, sem er hæst eftir launal., þá yrði líka að taka af þeim, sem taka laun eftir launal., allt, sem er fram yfir það, sem launal. sjálf ákveða, en það álít ég allt of mikla röskun á launal., að gera það í skyndi, sérstaklega þar sem ég geri ráð fyrir, að stj. leggi fyrir næsta þing till. um framtíðarúrlausn þessa máls, sem byggð verður á áliti því, sem vænta má frá þeirri n., sem nú starfar að athugun þessara mála. Ég tel, að sú mesta röskun, sem verða megi á næsta ári, bæði á launum þeirra, sem eru undir launal., og eins hinna, sem taka laun sín utan þeirra, sé það, sem hv. meiri hl. fjvn. leggur til.