30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1935

Thor Thors:

Ég á við þessa umr. fjárl. aðeins eina brtt., og vil ég leyfa mér að gera grein fyrir henni. Brtt. er á þskj. 613, 2. liður, og á við 22. gr. Er hún á þá leið, að heimila stj. að ábyrgjast fyrir hreppsnefnd Stykkishólmshrepps allt að 180000 kr. lán til rafvirkjunar, gegn þeim tryggingum, sem stj. metur gildar. Ég vil nú rökstyðja þessa till. með nokkrum orðum.

Í Stykkishólmi eru nú um 600 íbúar. Þar er nú rafmagnsstöð, sem er rekin með gömlum olíumótor, bátamótor, sem er bæði lélegur og eyðslufrekur. Stöðin er svo úr sér gengin, að ef ætti að reka hana áfram, þá yrði ekki komizt hjá að gera mjög kostnaðarsamar endurbætur á henni þegar á næsta ári. En svo er það fleira, sem kemur hér til greina. Nú stendur yfir bygging á stóru og fullkomnu sjúkrahúsi í Stykkishólmi. Verður þar með leyst úr mjög brýnni þörf þessa kauptúns, alls héraðsins og margra aðliggjandi héraða, en í samningi, sem Stykkishólmshreppur hefir gert við aðilja sjúkrahússbyggingarinnar, hefir hreppurinn skuldbundið sig til þess að láta sjúkrahúsinu í té rafmagn til ljósa og smávéla fyrir sjúkrahúsið þegar á næsta ári. Rafmagnsþörf þessa sjúkrahúss er mikil. Ef hreppurinn ætti þess ekki kost að reisa vatnsaflsstöð, þá verður hann að reisa nýja mótorstöð, því að illkleift verður að stækka núv. stöð svo, að hún fullnægi ljósaþörf kauptúnsins og sjúkrahússins, en án þess, að séð sé fyrir rafmagnsþörf sjúkrahússins, getur það ekki tekið til starfa, þó að það verði fullreist næsta haust.

Aðstaðan til rafvirkjunar hefir verið rannsökuð af sérfræðingum, svo sem Jakobi Gíslasyni verkfræðingi og Höskuldi Baldvinssyni rafvirkja. Það er meiningin að virkja Svelgsá, sem er í námunda við kauptúnið. Fyrst fór fram afhugun á þessu sumarið 1933, og var hún framkvæmd af Jakobi Gíslasyni, og síðan hafa farið fram iðulegar vatnshæðarmælingar á þessu vatnsfalli. Þær sýna, að þarna má fá vatnsafl til að reka allt að 250 hestafla aflstöð, sem muni framleiða 180 kílóvött, eða meira en 0,4 kílóvött á íbúa, en það mun nægja, auk lýsingar, til iðnaðar, fullkomlega til suðu, og eftir þeirri reynslu, sem fengin er annarsstaðar hér á landi, t. d. á Reyðarfirði, má reikna með því, að það verði að mjög miklum notum til húshitunar.

Stofnkostnaður stöðvarinnar er áætlaður um 165000 kr., eða um 660 kr. á hestafl. Er þar í innifalinn allur kostnaður við byggingu aflstöðvarinnar, háspennuveitu til Stykkishólms og orkuveitu um kauptúnið. Til samanburðar vil ég geta þess, að í áætlun um fyrstu virkjun í Soginu er gert ráð fyrir, að hestaflið kosti 760 kr., eða 100 kr. dýrara en í Stykkishólmi.

Árleg gjöld stöðvarinnar eru áætluð 29000 kr., en þar af eru rúm 3000 kr. (rekstrarhagnaður) til vara. Af hverju árskílóvatti eru tekjurnar 160 kr., en tekjur á íbúa um 48.50 kr. Afl á íbúa er 300 vött, en fyrir svo mikið afl ætti að vera hægt að ná yfir 50 kr. tekjum á mann, eða nokkru meiru en áætlunin er byggð á.

Eins og nú standa sakir er eyðsla Stykkishólmshrepps til rafstöðvarinnar þessi:

l.

Til ljósa (tekjur núverandi stöðvar

um .......................

kr. 10200

2.

Til suðu, hitunar og vélarekstrar:

a. Steinolía — þar í olía til

rekstrar frystihúss, sem nota

mundi rafmagn ............

— 6600

b.

Kol ........................

— 22500

e. Mór ........................

— 3900

Samtals

kr. 43200

En það, sem ætla má, að af þessu muni sparast, er þetta:

1.

Rekstur núverandi stöðvar ....

kr. 10200

2.

a. Steinolía ........... ......

— 6600

b.—c. 2/3 af kolum og mó

— 17600

Samtals

kr. 34400

Beinn hagnaður af stöðinni yrði því árlega 5000—6000 kr., ef gengið er út frá, að rekstrarkostnaður hennar sé 29000 kr.

Allar þessar áætlanir eru byggðar á rannsókn þeirri, sem nú hefir farið fram, og það er álit þeirra sérfræðinga, sem það hafa gert, að það geti ekki komið til mála, að þær fari fram úr 165000 kr., sem áætlað er, að kostnaðurinn verði við þessa rafvirkjun. Þar af færu 66000 kr. í vinnulaun. Rekstraráætlun sú, er gerð hefir verið fyrir fyrirtækið, er á þessa lund:

1.

Vextir og afborganir af 165000

kr., miðað við 20 ára afborgunar-

tíma og 5% vexti. ............

kr. 13200

2.

Viðhald, 2½ af stofnkostnaði

— 4150

3.

Gæzla, reikningshald o. fl. ......

— 8000

4.

Óviss gjöld og rekstrarafgangur

— 3450

Samtals

kr. 28800

Tekjur eru áætlaðar 180 kílóvattár á kr. 160 eða 28800 kr., og er það þá nægilegt til að mæta öllum útgjöldum. Til samanburðar má geta þess, að í Rvík er hvert kílóvattár selt á 650 kr.

Þessu máli horfir þá þannig við, að líklegt má telja, að lán sé fáanlegt í Danmörku með góðum skilmálum, en það verður gert að skilyrði fyrir lánveitingunni, að ríkisábyrgð sé á bak við. Ég hygg, að enginn þm. geti gengið þess dulinn, að þetta skilyrði er fram komið vegna þess fordæmis, sem hefir verið skapað hér á Alþingi fyrir ríkisábyrgðum til rafvirkjunar hér á landi. Það var skapað með Sogsvirkjuninni og ennfremur með ábyrgð fyrir rafveitunni á Sauðárkróki, einmitt á þessu þingi, til viðbótar við það, sem fyrir var, og loks ábyrgðinni fyrir rafveituna á Blönduósi. Það er því ekki óeðlilegt, þó að ekki sé hægt að fá lán til þessa fyrirtækis nema sömu skilyrði séu fyrir hendi og hafa verið við lántökur annarsstaðar á landinu í þessum sama tilgangi.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. talaði um, að það væru sérstakar ástæður fyrir hendi um ábyrgð þá fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, sem veitt hefir verið á þessu þingi. M. a. var þess þar getið, að Hafnarfjarðarkaupstaður hefði án nokkurs ríkisstuðnings komið sér upp atvinnufyrirtæki, sem hefði verið til mikillar bjargar kaupstaðnum. Sé þetta ástæða til þess að bregðast vel við þeirri ábyrgðarbeiðni, þá er sama ástæða fyrir hendi, þegar um Stykkishólm er að ræða. Þar hefir verið komið upp allmiklu samvinnuútgerðarfyrirtæki án þess að leita hjálpar ríkissjóðs. Það hefir verið stofnað fyrir atbeina hreppsbúa, en ekki með ríkisstyrk eða ríkisábyrgð, eins og flest önnur samvinnufyrirtæki hafa hlotið á síðari árum.

Það, að hér er um brýna nauðsyn að ræða fyrir starfrækslu á mjög fullkomnu og stóru sjúkrahúsi, bendir einnig til þess, að hér eru alveg sérstakar ástæður fyrir hendi. Af þessu nýja sjúkrahúsi mundi ekki eingöngu Snæfellsnessýsla hafa not, heldur einnig Borgarfjarðar-, Mýra- og Dalasýsla og Vestfirðir. Hér er því ekki eingöngu um almenna hagsmuni að ræða fyrir þetta kauptún heldur er hér líka um mannúðarmál að ræða, að hægt verði að starfrækja þetta sjúkrahús. Mér þykir því sterkari rök mæla með þessari ríkisábyrgð en ef til vill nokkurri annari ríkisábyrgð, sem tekin hefir verið vegna rafvirkjunar. Mér þætti sérstaklega einkennilegt, ef þetta mál ætti ekki að eiga a. m. k. samskonar vinsældum að fagna hér á þingi eins og ábyrgð sú, sem nú hefir verið tekin fyrir Hafnarfjarðarkaupstað fyrir 150000 kr. láni. Hér er einnig tekið upp í till. fjvn. lán og ábyrgð fyrir Sauðárkrókshrepp, 40000 kr., og loks ábyrgð fyrir Austur-Húnavatnssýslu, 60000 kr.

Að sjálfsögðu verður gætt þess skilyrðis, sem þingið setur um það, að trúnaðarmenn fjármálaráðuneytisins starfi að lántökunni, svo að ekki sé verið að óþörfu að flagga með ríkisábyrgðum erlendis, til þess að spilla lánstrausti ríkisins. Ennfremur er það skýrt tekið fram í till. minni, að gegn ábyrgðinni komi tryggingar, sem stj. metur gildar. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég þykist hafa bent glögglega á það, að hér er um mikið nauðsynjamál og hagsmunamál að ræða fyrir kauptúnið. Ennfremur er um brýna nauðsyn að ræða, svo að nýtt og stórt sjúkrahús geti tekið til starfa. Ég þykist ennfremur hafa bent á, að þetta er áhættulítið fyrir ríkissjóð. Ég vil því mælast til, að þessi ábyrgðarheimild fái samskonar undirtektir og samskonar till. hafa áður fengið hér á þingi, og skal ég ekki trúa öðru í lengstu lög en að svo megi verða.