16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

148. mál, stimpilgjald

Ólafur Thors:

Fjmrh. lagði þetta frv. fyrir fjhn. d. og óskaði, að hún flytti það. Hv. 3. þm. Reykv. og ég bárum fram þá ósk í n., að málið yrði sent Landsbanka Íslands til umsagnar, af þeirri ástæðu, að við töldum að sjálfsögðu, að þá bæri að hlíta umsögn þessa dómbæra aðila um það, hver áhrif hann teldi, að þetta hefði á viðskiptalífið og starfsemi bankans. N. barst umsögn Landsbankans, sem öll hné að því að mæla á móti frv. Ég held, að það sé bezt, að ég lesi upp úr bréfi bankastjóranna, af því að ég hefi í rauninni ekki annað um málið að segja en þar er. Það er dagsett 8. nóv. og hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Vér höfum móttekið bréf hv. fjhn. Nd. Alþingis, dags. 31. f. m., ásamt uppkasti af frv. til l. um viðauka við lög nr. 75 27. júní 1921, um stimpilgjald, er nefndin óskar umsagnar bankans um.

Stimpilgjaldslög vor frá 27. júní 1921 eru, eins og flestir þættir löggjafar vorrar, sniðnir eftir löggjöf Norðurlandaþjóðanna, og hefir það samræmi, sem þar með hefir skapazt, yfirleitt reynzt vel. Með því að kljúfa sig út úr þessari heild og taka ýmsar nýjungar af handahófi eftir löggjöf annara þjóða utan Norðurlanda, getur ef mikil brögð eru að því, komið losi á löggjafarkerfi vort.

Með frv. þessu er ætlazt til, að stimpla skuli alla tékka og allar ávísanir, og munu slík skjöl vera stimpilskyld í Englandi og fleirum löndum. Hér á landi — bæði í bæjum og sveitum — hefir notkun tékka farið mjög vaxandi meðal almennings hin síðari árin, enda eru þeir fyrir allra hluta sakir ein hin handhægasta greiðsluaðferð, sem kostur er á. Mikill fjöldi manna, jafnvel meðal þeirra, sem ekki hafa atvinnurekstur eða verzlun með höndum, hafa tekið upp þá aðferð, sem felst í notkun tékka, þ. e. að láta bankana eða sparisjóðina annast allar útborganir sínar. Erlendis mun þetta ekki vera eins algengt um þá menn, sem að ofan greinir, og er það vegna fjölmennisins; menn þekkja ekki við hvern þeir eiga og standa uppi varnarlausir, ef innstæða er ekki fyrir hendi. Hér á landi horfir þetta mál allt öðruvísi við, kunnugleiki manna í fámenninu er miklu meiri, og því hefir raunin orðið sú, að tékkar eru orðnir mjög algengur gjaldmiðill.

Þegar menn eiga nú að greiða stimpilgjald af tékkum, þá sýnist vera nokkur hætta á, að þessir menn hætti að eiga skipti við banka og sparisjóði; þeir munu heldur kjósa að varðveita fé sitt sjálfir, taka það út af reikningum sínum hjá bönkunum. Af því mundi aftur leiða aukna seðlaveltu í landinu og rýrnandi möguleikar lánsstofnana til útlána. Þetta, ásamt því, að lánsfé lánsstofnana festist í skuldabréfum Kreppulánasjóðs, sýnist þess vert, að því sé nokkur gaumur gefinn.

Það lagaboð að leggja stimpilgjald á kvittanir allar og reikninga (fyrir ofan kr. 20.00) má gera ráð fyrir, að verði til þess að draga úr því, að formlegar kvittanir verði almennt gefnar fyrir ýmiskonar greiðslum og innborgunum, það mundi aftur hafa í för með sér minna öryggi í daglegum viðskiptum.

Benda má á, m. a. að því er bankana snertir, að ávísana-viðskiptin munu óhjákvæmilega minnka, ef slíkt stimpilgjald verður lögleitt.

Bein afleiðing af því, að ávísananotkun minnkar, er það, að bankarnir missa hlaupareikningsfé að meira eða minna leyti, og ennfremur leiðir af því mikla aukningu á vinnu í bankanum.

Um einstakar greinar frv. getum vér ekki sagt að svo stöddu, hefir oss ekki unnizt tími til þess vegna annríkis að athuga þær nákvæmlega, enda mál þetta margbrotið og grípur víða inn, en vér munum síðar koma að þeim, ef með þarf. Þó má nefna sem dæmi, að í framkvæmdinni yrði allt auðveldara fyrir fólk, ef gjaldið væri sama af öllum ávísunum og kvittunum (fyrir ofan eitthvert víst lágmark) eins og mun tíðkast í Englandi.

Vér viljum beina því til nefndarinnar, hvort ekki væri rétt að athuga þetta mál frekar en orðið er, og láta það svo koma fyrir þing í marzmánuði næstkomandi.“

Mér sýnist nú, að í þessu bréfi séu færð fram, þó hógværlega sé, ýms rök gegn frv., sem ég tel a. m. k. nægileg til þess, að það sé ekki eðlilegt og ekki rétt, að þd. afgr. málið rannsóknarlítið nú á þessu þingi, m. a. af því, að það verður ekki hægt að segja, að það sé höfuðnauðsyn að flýta málinu svo mjög. Við rök þau, sem fram komu í bréfinu, hefi ég svo engu að bæta, enda tel ég þá menn, sem undir bréfið hafa skrifað, eins dómbæra um málið og alla þm. samanlagða.