30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Torfason:

Ég býst við, að það þyki kveða við annan tón hjá mér en síðasta ræðumanni, og þó ætla ég að tala um sama efni og hann. Það ber talsvert á því, að rætt sé um skipulag Búnaðarfél. Ísl., og þykir mér ekki nema full von til þess, að svo sé gert, þar sem B. Í. er meinað að ráða sínum málum sjálft. Orsökin er blátt áfram sú, að við höfum ekki enn fengið sérstakt landbúnaðarráðuneyti, fyrir landbúnaðinn hafa verið settir menn, sem aðallega hafa orðið að gegna öðrum störfum og ekki verið valdir með tilliti til landbúnaðarmála. Þess vegna er það eðlilegt, að því meir sem þrengir að bændum, og landbúnaðarstarfsemin verður vandasamari og víðtækari með hverju ári sem liður, og sérstaklega eftir að Alþingi hefir hvað eftir annað orðið að taka í taumana með þvingunarlögum. — þá vil ég segja, að það sé ekki nema eðlilegt, þó litið sé þannig á, að mál, sem komin eru út á þessa braut, þurfi lagfæringar við.

Ég skal ekki gera að umtalsefni þá aths. í fjárlfrv. sjálfu, sem fylgir fjárveitingunni til B. Í. blátt áfram af því að það er komin till. frá meiri hl. fjvn. um breyt. á henni. Ef við athugum þessa brtt., þá er það tvennt, sem í henni felst: Í fyrsta lagi er stj. falið að undirbúa till. um framtíðarskipulag B. Í. og leggja fyrir næsta þing; og í öðru lag í er það skilyrði sett fyrir fjárveitingu til B. Í., að ráðh. samþykki fjárhagsáætl. fél. og skipun búnaðarmálastjóra, er ekki sé nema einn. Slíka skipun til ríkisstj., sem felst í fyrri hluta till., er ekki vant að setja í fjárlög. Það er gömul venja, að Alþingi afgreiði slík fyrirmæli í þál.formi, en ekki í lagaformi, hvað þá í fjárl. Auk þess verð ég að telja þetta alveg óþarft, að bera fram slíka till. sem þessa, þar sem stj. hefir sýnt það með sinni upphaflegu till., að hún hefir fullan áhuga fyrir að breyta skipulagi B. Í. Þessi áminning til ríkisstj. er því alveg að ófyrirsynju, og ég tel alls ekki rétt að láta hana verða fyrir slíku hnjaski, sem felst í þessari till.

Ég skal ekki á neinn hátt mótmæla því, að það geti ekki hafa verið einhver ástæða til þess á síðastl. hausti, þegar fjárlfrv. var samið, að gera ráð fyrir einhverju í þá átt, sem er í hinni upphaflegu aths. í fjárlfrv., af þeirri ástæðu, að þá var það áreiðanlega ekki vitað, hvort næsta þing kæmi saman í vetur eða ekki fyrr en að hausti. Ég geng út frá því, að þegar þetta fjárlfrv. var samið, hafi hugsunin jafnvel verið sú, að þingið mundi ekki koma saman aftur fyrr en næsta haust. Þess vegna er það eðlilegt, eða a. m. k. skiljanlegra, að þessi aths. kom fram. En nú er áformað, að þingið komi aftur saman í vetur, eftir 2—3 mánuði; og nú stendur einnig þannig á, að búnaðarþing kemur saman skömmu áður. Því býst ég fastlega við, að fyrir þann tíma verði ekkert verulegt gert í þessum málum. Mér dettur ekki annað í hug en að hæstv. ríkisstj. vilji áður bera ráð sín saman við búnaðarfulltrúa, eða a. m. k. heyra, hvað búnaðarþing leggur til málanna; og þykir mér sennilegast, að stj. byggi sínar till. um framtíð B. Í. á þeim grundvelli, sem búnaðarþingið leggur. Ég get þess vegna ekki séð neina ástæðu til þess að samþ. fyrri hluta brtt. hv. meiri hl. fjvn. Það verður hvort sem er ekki svo langt þangað til landbúnaðarráðuneytið fær öll þessi mál til meðferðar, í sambandi við búnaðarþing.

Síðari hl. till. fjallar um, að það verði ráðinn einn búnaðarmálastjóri, og það er þetta, sem ég hefi skilið að væri mest aðkallandi og mest áhersla lögð á, og því er ég alveg samþykkur. Að öðru leyti skal ég aðeins geta þess, að ég hefi fellt úr till. minni skilyrðið um það, að fjárhagsáætlun Búnaðarfélagsins sé samþ. af landbúnaðarráðh. og það blátt áfram af þeirri ástæðu, að ég tel þess ekki þörf. Þetta með fjárhagsáætlunina er gamalt fyrirkomulagsatriði, og það hefir ætíð verið svo, að nefndir, sem hafa haft slík mál með höndum, hafa lagt sínar áætlanir fyrir atvmrh., og hann hefir lagt samþykki sitt þar á. Ég skal líka geta þess, að þetta kemur líka í bág tíð suma aðra liði fjárl., t. d. er ekki sagt neitt slíkt um skógræktina, en það er vitanlegt, að ekki er sett niður ein einasta trjáplanta, nema því aðeins, að það sé áður samþ. af atmvrh. Með þessari till. minni er ætlazt til, að hér væri farinn miðlunarvegur að því leyti, að það verði gert, sem þarf að gera nú í bráðina, en hinu verði frestað til næsta þings, sem á að koma saman eftir örfáa mánuði. Menn, sem þessum málum eru kunnugir og ábyggilega líta á þetta mál aðeins frá því sjónarmiði, að Búnaðarfél. geti sem bezt gegnt starfi sínu, líta svo á, að heppilegast sé að setja málið niður á þann veg, þannig að stj. fái það fram, sem hún leggur mesta áherzlu á, en annað megi bíða síns tíma.