11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

176. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af orðum hv. þm. vil ég taka það fram, að ég gleymdi að minnast á það áðan, að þó að Landsbankinn fái þetta lán greitt, mundi það ekki auka á lánsmöguleika hans innanlands, því að hann mun hafa þörf fyrir að létta af sér þessu erlenda láni. Um mismuninn á lántökuheimildinni og skuldum þeim, sem gert er ráð fyrir að greiða, er það að segja, að nokkuð mun þurfa í kostnað við lántökuna, og svo er þægilegra að hafa nokkuð sléttar tölur í frv. Vænti ég, að stj. verði trúað til þess að nota ekki þetta fé til annars en þess, sem fram er tekið í grg. frv.