11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

148. mál, stimpilgjald

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi ekki tekið eftir því, að fram hafi komið nokkur áætlun um það, hvað mikilla tekna mætti vænta af þeim ráðstöfunum, sem hér eru ráðgerðar. Ég skal viðurkenna, að erfitt muni að gera slíkar áætlanir. Ég vil samt spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann geti ekki gefið einhverjar upplýsingar um þetta atriði. Manni verður það nú oftast nær, þegar nýr skattur kemur fram, að grennslast eftir því, hvað miklar tekjur hann muni gefa í ríkissjóðinn. Fyrr en maður hefir einhverja hugmynd um það, er erfitt að mynda sér skoðun á málinu. Ég held, að þessi skattur muni verða mjög óvinsæll, einkum til sveita. Það verður mjög vafsturssamt fyrir hvern bónda að verða að hafa þessi stimpilmerki á heimili sínu. Ég skýt því til hæstv. ráðh., að hann athugi, áður en reglugerðin, sem gert er ráð fyrir í 15. gr., verður gefin út, að ekki er hlaupið að því fyrir öll heimili að ná í þessi merki. Þar sem svo er ákveðið, að meira að segja bréf, sem einhverjum er skrifað, og hann beðinn að greiða nokkra upphæð, þarf að stimpla, þá sé ég ekki betur en að merkin verði að vera til á hverju heimili áður en l. koma til framkvæmda. — Ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. ráðh., hvernig skilja beri 4. gr. frv. Þar stendur, að það varði sektum að taka við óstimplaðri ávísun eða kvittun, nema viðtakandi láti þegar í stað sjá um að stimplað sé, en stimplun þessi leysir ekki útgefanda frá sektum. Þetta finnst mér vera hart að gengið. Segjum svo, að til mín kæmi maður með óstimplaða ávísun eða kvittun, og hlutaðeigandi hafi ekki haft stimpilmerki, en ég hafi þau og láti þau á reikninginn eða ávísunina. Á útgefandi þá samt sem áður að sæta sektum, og á mér að vera skylt að kæra þennan mann fyrir lögbrot? Ég sé ekki, að nein meining sé í þessu. Í 4. gr. stendur ennfremur: „Ávísanir þær (eða kvittanir), sem gefnar eru út erlendis óstimplaðar, skal stimpla áður en þær eru hér greiddar eða framseldar,“ o. s. frv. Nú er því svo varið, að ávísanir og kvittanir munu mjög óvíða vera stimplaðar erlendis, nema þá í Englandi. Það er hvorki lögboðið í Þýzkalandi eða á Norðurlöndum. Allar þær kvittanir og ávísanir, sem koma frá þessum löndum, eru því óstimplaðar. Nú vildi ég spyrja, hvort með þessu sé átt við, að þær séu óstimplaðar fyrir íslenzka ríkissjóðinn, — því að með því móti einu væri einhver vitglóra í þessu. (Fjmrh.: Það er vitanlega meiningin). En nú eru allar kvittanir, sem koma erlendis frá, óstimplaðar fyrir íslenzka ríkissjóðinn, því að ekki er hægt að leggja mönnum erlendis þá skyldu á herðar að setja á slík plögg, er til Íslands ættu að fara, íslenzk stimpilmerki. Eiginlega er þetta ákvæði bara vitleysa, a. m. k. ætti orðið „óstimplaður“ að falla niður, svo að meining gr. yrði sú, að engar kröfur yrðu gerðar á hendur mönnum erlendis um þessar stimplanir, og það að sjálfsögðu látið nægja gagnvart íslenzka ríkissjóðnum að fyrirskipa stimplanir hér.

Ég verð að taka það fram, að ég hefi ekki haft tíma til þess að athuga frv. nákvæmlega. Það, sem ég hefi minnzt hér á, eru atriði, sem ég rak augun í við fljótan yfirlestur, og má vel vera, að ýmislegt sé fleira þar, sem mér þætti athugavert, ef tóm gæfist til nákvæmrar athugunar. En mér virðist þetta benda til þess, að frv. sé ekki svo vel undirbúið, að ekki hefði mátt gera það betur. Mér finnst t. d. ákaflega hart, að krefjast stimpils á einkabréf, þar sem viðtakandi er beðinn að greiða nokkra upphæð fyrir þann, sem bréfið sendir. Segjum nú svo, að ég fengi bréf utan af landi, og í því væri ég beðinn að greiða tiltekna skuld, en hlutaðeigandi á ekkert hjá mér. Á að stimpla svona bréf eða ekki? Eða á að stimpla bréfið svo framarlega sem ég borga, og annars ekki?

Það var gott að heyra frá hæstv. ráðh., að hann ætlaði sér ekki að hafa gjaldið nema eitt, því að með því móti verða l. ólíkt hægari í framkvæmdinni, — en ekki kæmi mér á óvart, þó að liði á nokkuð löngu þar til menn eru orðnir þessum l. vanir, svo vanir, að þeir viti yfirleitt, hvað þeim er skyldugt að gera í þessum efnum. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um frv. nú, en mun halda áfram að athuga það meðan umr. stendur, og spyr þá um það síðar, ef ég skyldi rekast á fleiri torskilin atriði.