30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

1. mál, fjárlög 1935

Þorbergur Þorleifsson:

Hv. þm. A.-Húnv. þakkaði meiri hl. fjvn. fyrir að hafa mælt með láni til rafveitu í Austur-Húnavatnssýslu, en hann sagði, að þetta væri nú ekki þakkarvert og tók þakklætið aftur, af því hann taldi, að ríkið stæði í svo mikilli skuld út af rafveitum, vegna þess manns, er ríkið hefði sent til eftirlits, eftir því sem hv. þm. segir, með þessu fyrirtæki. Ég er ekki kunnugur þessu máli, en vildi þó fara um það nokkrum orðum af sérstökum ástæðum. Hefir nú nýlega komið bréf til Alþingis frá Erling Ellingsen, manni þeim, sem hv. þm. A.-Húnv. mun hafa átt við, þar sem hann ræðst mjög óviðeigandi á meiri hl. fjvn. fyrir ummæli í nál. um rafmagnseftirlit ríkisins. En þar er aðeins sagt, að það sé mikil óánægja út af þessu eftirliti, og ég vil mótmæla því fyrir mína hönd og allra nm., að verið sé að ráðast ódrengilega á þennan mann. Hinsvegar vil ég að dæmi hæstv. atvmrh. gefa þessum manni færi á að koma hér með sín rök, og ætla ég því, með leyfi hæstv. forseta, að lesa kafla úr þessu bréfi Ellingsens til fjvn. eða Alþingis. Þar segir: 1) „Ég ber enga ábyrgð á þeim ágöllum, sem urðu á rafstöð Sauðarkrókshrepps, heldur einmitt forráðamenn rafveitunnar þar, þ. e. a. s. þeir, sem segir, að málsóknar megi vænta frá, eða þeir, sem sáu um byggingu rafstöðvarinnar, enda var ég aldrei ráðinn ábyrgur eftirlitsmaður verksins, heldur aðeins leiðbeinandi um einstök atriði, og sérstaklega vil ég taka það skýrt fram, að ég hafði lokið þeim leiðbeiningum, er ég var beðinn um, löngu áður en gengið var frá þeim hlutum virkjunarinnar, er síðar biluðu, og var aldrei kvaddur til leiðbeiningar um þau atriði, né að leggja dóm á verkið, 2) að starf mitt við byggingu fyrrgreindra rafstöðva var rafmagnseftirliti ríkisins með öllu óviðkomandi, og er því gersamlega gripið úr lausu lofti, að setja umkvartanir, sem fram hafa komið frá hreppsnefnd Sauðarkrókshrepps út af starfi mínu, á nokkurn hátt í samband við rafmagnseftirlitið eða forstöðumann þess, enda hefir atvinnumálaráðuneytið að athuguðu máli með bréfi til hreppsnefndarinnar, dags. 17. júlí þ. á., vísað fyrrgreindum umkvörtunum hennar frá sér, sem ríkinu og rafmagnseftirlitinu gersamlega óviðkomandi, og neitað um öll fjárframlög af ríkisins hálfu í þessu tilefni“.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, því að eins og ég sagði áðan, hefir meiri hl. fjvn. í nál. ekki á nokkurn hátt hallað á þennan mann, eða lagt dóm á verk hans, en aðeins skýrt frá því, að það hafi verið óánægja með hann, af hvaða rótum sem það hefir verið runnið.

Ég þarf ekki að lengja umr. með því að verja okkur nm. í meiri hl., því að hv. frsm. hefir svarað öllum árásum í okkar garð. En fyrst ég tók til máls, vil ég aðeins benda minni hl. fjvn. á það, af því að hv. minni hl. hefir brugðið okkur um hlutdrægni, að í hans till. kemur greinilega fram hlutdrægni í garð Austurlands og skal ég sérstaklega nefna till. hans um sparnað til strandferða. Það mundi hér um bil eingöngu koma niður á Austfirðingafjórðungi, og kemur það mjög illu við, því að sá landshluti hefir áður verið mjög afskiptur fjárframlögum, og má beinlínis rekja erfiða afkomu atvinnurekstrar þar til þeirrar vanrækslu, sem þeim landshluta hefir verið sýnd í því að sjá honum fyrir nægilegum samgöngum.