22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

155. mál, ríkisborgararéttur

Magnús Guðmundsson:

Ég get mjög vel gengið inn á, að rétt sé að herða á kröfunum um skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, þó að ég geti ekki að öllu leyti tekið undir aths. í grg. frv. um þetta efni. En ég stóð upp af því að mér þykir aldurstakmarkið nokkuð hátt til þess að gilda jafnt fyrir alla. Það er til bóta að vísu, ef samþ. verður brtt. um styttri tíma fyrir þá menn, sem hér starfa í þjónustu ríkisins. En það er annar flokkur manna, sem ég teldi rétt, að hefði nokkra sérstöðu, en það eru Íslendingar, sem fengið hafa ríkisborgararétt í öðru landi, en flytja síðan alfarnir heim. Það er nokkuð algengt, að Íslendingar, sem dvalið hafa vestan hafs, hverfi heim aftur, og ég álít rétt að vera ekki eins kröfuharður gagnvart þeim eins og óviðkomandi mönnum. Ég vil skjóta því til hv. n., hvort hún vildi ekki athuga fyrir 3. umr., hvort ekki væri hægt að setja svipuð ákvæði gagnvart Íslendingum, sem verið hafa langdvölum erlendis, en flytja alfarnir heim, eins og lagt er til í brtt. að því er snertir erlenda menn í þjónustu ríkisins.