30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af aðfinnslum hv. 1. þm. Skagf. um, að þeir, sem taka laun utan launal., hefðu ekki verið látnir vita, að breyt. á launakjörum þeirra væri fyrirhuguð, og að þess vegna væri ekki hægt að breyta launum þeirra fyrr en 6 mán. væru liðnir af næsta ári. Mun hv. þm. eiga hér við það, að þessum mönnum hefði átt að segja upp, því það var það eina, sem gat flýtt fyrir því máli. Ég get upplýst, að við vildum ekki segja þessum mönnum upp, fyrr en við vissum um undirtektir Alþ. og það hefði látið í ljós vilja sinn gagnvart þeim, sem taka laun eftir launalögum. Sáum við ekki ástæðu til að hrófla við þessu fyrr, en teljum sjálfsagt, að þetta sé undireins fært til samræmis, að svo miklu leyti, sem hægt er. Bjóst ég við, að sparnaðurinn mundi nema um 26 þús. kr., en hann mun tæplega geta náð því, vegna þess að ekki er hægt að lækka laun sumra þessara manna fyrr en árið er liðið. Hér er um 40 menn að ræða, og get ég trúað, að sparnaður gæti orðið um 40 þús. kr., ef lækkunin næði til alls ársins. En því ekki sé hægt að koma þessu við nú get ég ekki að því gert.