12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

155. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Thor Thors):

Allshn. hefir haft málið til athugunar og er sammála um að leggja til, að frv. gangi fram, þó með brtt. um, að fyrir 15 ár í frv. komi 10 ár. Það hefir verið svo undanfarið, að þeir, sem hafa sótt um ríkisborgararétt, hafa fengið hann án sérstakra skilyrða. Nú eru ákveðin þau skilyrði, að sá, sem sækir um ríkisborgararétt, skili hegningarvottorði, að hann hafi ekki þegið styrk hér á landi og að hann hafi haft búsetu hér á landi nokkur ár. Þessi skilyrði hafa ekki verið áður, en virðist rétt að taka þau upp, vegna þeirra hlunninda, sem ríkisborgararétturinn veitir. Er algengt erlendis að hafa 15 ára búsetuskilyrði fyrir ríkisborgararétti. En þó að nauðsynlegt sé, að maðurinn hafi átt hér nokkra dvöl og fest rætur þykir ekki ástæða til að hafa ákvæðið eins strangt og víða annarsstaðar, vegna þess, hve hér er fámennt og strjálbyggt, en atvinnumöguleikar miklir. Það er annað viðhorf hjá þjóðum, sem stynja undir atvinnuleysi og þéttbýli. Vildi ég mælast til, að hv. þdm. fallist á brtt. n., en í heild er frv. til bóta.