30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

1. mál, fjárlög 1935

Guðrún Lárusdóttir:

Ég get verið mjög fáorð, því að ég á hér enga brtt. En það eru fáein atriði viðvíkjandi fjárl., sem ég vildi tala svolítið um.

Í sjálfu fjárlfrv., sem stj. lagði fram, er styrkur til Kvenfélagasambands Íslands færður niður úr 1700 kr. í 1000) kr., en á sömu bls. hefir styrkur til Sambands sunnlenzkra kvenna fengið að halda sér. Ég ætla nú alls ekki að mæla á móti því, að það fái þessar krónur. En hitt get ég ekki annað en undrazt, að hæstv. stj. skyldi fara að klípa af styrk til hins sambandsins, og neyðist ég því til að bera fram brtt. við það við 3. umr. Ég ætla að sleppa að tala um Blönduósskólann. Það er búið að taka svo rækilega fram, hve örlagarík áhrif það gæti haft fyrir skólann, ef styrkur til hans verður lækkaður. Hv. þm. A.-Húnv. tók fram, að það gæti farið svo, að honum yrði lokað, og er þá illa farið.

Þá vil ég minnast hér lítillega á eina brtt. hv. meiri hl. fjvn. Hefir hún áður verið nefnd í umr., en það er um styrk til Péturs Sigurðssonar til þess að ferðast um og halda uppi bindindisfræðslu. Er viðurkennt, að þessi maður komi miklu góðu til leiðar. Er hann orðinn landskunnur, fólk vill hlusta á hann. Hann talar vel máli bindindisins, sem sízt mun af veita nú, eigi síður en endranær, þegar búast má við nýju áfengisflóði inn í landið í náinni framtíð. Ég tel það illa farið að fella niður þann litla styrk, sem hann hefir haft. Ég hefi heyrt, að það sé ætlazt til, að Stórstúka Íslands greiði honum laun. En þegar þess er gætt, að stórstúkan hefir lítinn styrk, en mikla þörf fyrir aukna starfsemi, er það ekki réttmætt, að ganga á hann og minnka hann á þennan hátt. Ég ætla þess vegna að vona, að hv. þdm. sjái sér fært að láta Pétur Sigurðsson halda þeim styrk áfram, sem hann hafði síðastliðið ár.

Þá kem ég að þeirri brtt. hv. meiri hl. fjvn., sem mikið hefir verið talað um, sem sé niðurfelling styrks til Elliheimilisins á Grund í Rvík. Ég verð að segja eins og er, að ég varð forviða, er ég sá þessa till., því bæði er hér ekki nema um litla fjárhæð að ræða, og í öðru lagi á hún að fara til þess að hjálpa gamla fólkinu, sem ekki getur lengur séð fyrir sér sjálft. Og ég er hér um bil viss um, að ef hv. meiri hl. fjvn. hefði gert sér það ómak að skreppa suður að Grund, og hefði kynnt sér ofurlítið hagi heimilisins og fjárhag stofnunarinnar, þá hefði meiri hl. fjvn. ekki flutt þessar niðurskurðartillögur. Þar eru um 40 örvasa gamalmenni alveg rúmföst, þar eru 10 blindir, 2 alveg heyrnarlausir og stór hópur annara fatlaðra gamalmenna. Sem stendur eru vistmennirnir á Grund rúmlega 130, allt gamalmenni, auk þess 4 sjúklingar um þrítugt og 3 blindir drengir á blindraskólanum, sem leigir þar skólastofu og vinnustofu. Vistmenn á Grund eru að ætt og uppruna úr flestöllum héruðum landsins, þótt flestir þeirra hafi dvalið eitthvað í Rvík áður en þeir komu að Grund. Reykjavík gefur að öllu leyti með 70 vistmönnum og fyrir hönd annara sveitarfélaga með 11, en seytján fá meðgjöf sína beina leið frá öðrum sveitarfélögum eða kaupstöðum en Reykjavík, og nálega 30 gefa með sér sjálfir eða eru á framfæri vandafólks síns, og ennfremur gefur Blindravinafélagið með 4.

Almennasta meðgjöfin er 3 kr. á dag, fyrir þá, sem hafa fótavist, en 4 kr. fyrir rúmliggjandi fólk. Þó borga sumir meira, þeir, sem búa á einbýlisstofum — 115 kr. á mánuði, hafi þeir fótavist. Þessi meðgjöf er talsvert minni en í sjúkrahúsum bæjarins, — 2—4 kr. á dag — en þangað mundi leitað með flestöll rúmföst gamalmenni, ef elliheimilið tæki þau ekki. Og þar sem sjúkrahúsin eru oftast nær fullskipuð og þeim er auk þess óljúft að taka karlæg gamalmenni, ætti elliheimilið að njóta þess hjá fjárveitingavaldinu, — njóta þess helzt svo vel, að unnt væri að losa stofnunina við talsvert af skuldum, sem á henni hvíla, er aftur yrði til þess að gjöld vistmanna gætu lækkað til muna.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. kvartaði um, hvað það væri ógurlega dýrt að vera á elliheimilinu, þótt hann ætti að vita, að þar er langódýrasta sjúkravist í Reykjavík (munurinn 60 kr. til 120 kr. á mánuði). En setjum svo, að hann teldi þetta samt of mikið meðlag, því fer hann þá fram á að fella ríkisstyrkinn? Sér hann ekki, að bein afleiðing þess verður hækkun, en ekki lækkun hjá þeim, sem ætla mætti, að þm. vildi fremur styðja en hitt?

Reykjavík veitir elliheimilinu 8000 kr. styrk á ári, og er auk þess langstærsti viðskiptavinur þess, svo það kemur alls ekki til mála, að hækkað verði meðlag þess fólks, sem Reykjavík gefur með. Hitt mun sennilega gert, ef styrkur til hælisins verður felldur, að hækkað verður meðlag með öllu fólki, sem aðrir kaupstaðir og sveitarfélög gefa með þangað. Þótt sú hækkun verði ekki nema 50 aurar á dag, munar heimilið það meiru en þessum 4000 kr. styrk, (fyrir 28 vistmenn verður sú hækkun alls 5110 kr. á ári). En hreppana allflesta mun muna um að gefa 180 kr. meira á ári framvegis með hverju gamalmenni, sem þeir ráðstafa að Grund, og þykir mér ólíklegt, að sveitarstjórnir og aðrir gjaldendur verði þakklátir hv. meiri hl. fjvn. fyrir þá ráðsmennsku að fella styrkinn til elliheimilisins, til þess að meðlögin með gamla fólkinu þar hækki á þessari einu stofnun í landinu, sem getur tekið karlæg gamalmenni til langdvalar í tugatali.

Ef einhver skyldi halda, að stjórn elliheimilisins mundi óttast, að slík hækkun yrði til þess að aðsóknin minnkaði að hælinu, þá get ég fullyrt, að reynslan mun sanna hið gagnstæða. Aðsóknin er að aukast og fyrirspurnir um hælisvist koma úr fjarlægum héruðum, engu síður en úr nærsveitum. Vistmenn, sem komnir eru að Grund, vilja yfirleitt alls ekki þaðan fara, — og sveitarstjórnir geta hvergi fengið sjúkrahúsvist handa farlama fólki fyrir 4,50 kr. á dag, svo að þar er ekkert að óttast fyrir hælið.

Hitt er annað mál, að Grund er í stórskuldum síðan stórhýsið var reist, greiddi t. d. liðið ár yfir 30 þús. kr. í vexti af þeim skuldum, og ýms sveitarfélög og kaupstaðir aðrir en Rvík eiga erfitt með að standa í skilum. Sem stendur á Elliheimilið t. d. um 11 þús. kr. hjá 14 slíkum „viðskiptavinum“, og mun mikill hluti þess tapað fé.

Varla mun þurfa að geta þess hér, að stofnendur og stjórnendur elliheimilisins taka engan eyri fyrir störf sín fyrir það, og eiga engan eyri í því. Heimilið er alveg sjálfstæð sjálfseignarstofnun.

Auðvitað er það hið mesta misrétti að veita ríkisstyrk tveim litlum elliheimilum, sem taka 18—24 vistmenn hvort, og varla nema úr næsta nágrenni við sig, — en svipta styrk þá einu stofnun, sem getur tekið um 150 gamalmenni frá öllu landinu. Hafi nokkur ætlað að skeyta skapi sínu á pólitískum andstæðingum með þeirri rangsleitni, þá mistekst það með öllu. Eini sjáanlegi árangurinn verður sá, að einhver fátæk hreppsfélög kunna að hika við að senda vinasnauð og heilsulaus gamalmenni að Grund, en reyna að hola þeim niður heima fyrir, þar sem enginn má vera að sinna þeim sem skyldi. Og er þá ráðizt á garðinn þar sem hann er lægstur, ef Alþingi með því að spara 4000 kr., níðist á allslausum gamalmennum.

Frsm. hv. meiri hl. var að minnast á, að nær hefði verið að reisa ódýrt timburhús í sveit fyrir gamla fólkið, heldur en dýrt steinhús í Reykjavík. En mér er spurn, því réðist ekki þessi hv. þm. í það sjálfur, þau árin, sem hann notaði aðstöðu sína til að veita ríkisstyrk til fjölmargra bygginga úti um sveitirnar? Og getur hann bent á viðunandi sjúkrahúsvist í sveit, þar sem allur kostnaður er minni en 4 kr. á dag fyrir hvern sjúkling? Og hvort heldur hann, að sé alþjóð til meira gagns, að reist sé vandað stórhýsi úr steini, er endist öldum saman með tiltölulega litlu viðhaldi, eða einhver ódýr timburhjallur, sem varla endist hálfa öld, nema með sívaxandi kostnaði af endurbótum? Sé einhver alvara á bak við skrafið um ódýrt ellihæli uppi í sveit, vil ég að þeir sýni það í verkinu, þeir, sem nú fara með völdin og mestu ráða um ríkisfé sem stendur. Nóg er af gamla örvasa fólkinu, sem fulla hefir þörfina á næði í ellinni og góðri aðhjúkrun, svo það yrði ekki vandi að fylla það, þótt eldri hælin séu fullskipuð. En ef þess háttar tal er ekki annað en fyrirsláttur, til þess að spilla fyrir ríkisstyrk til hælisins hér í Rvík, þá er það lítils virði, og óhætt að segja, að það er hvorki skynsamleg íhugun né heldur mannúð eða velvild til gamla fólksins, sem býr á bak við þess háttar skraf. Ég býst ekki við því, að hv. meiri hl. fjvn. hafi gert sér grein fyrir því, að vinsælt verður það ekki á meðal margra kjósenda þeirra, að svipta þannig aldrað og farlama fólk þeirri hjálp, sem það getur ekki án verið. Ef til vill komast þeir á gamals aldur sjálfir, og skilja kannske þá, hvers virði öldruðu fólki er slík hjálp.

Ég veit varla, hvort ég á að hafa svo mikið við hann Halldór Laxness, að minnast hans hér með nokkrum orðum. Ég sé, að nú á enn að hækka styrk hans, og heyri, að hjartnæmt hefir verið um hann talað. Ætlandi væri því, að hann hafi eitthvað til matarins unnið. Nú verð ég að játa, að ég hefi ekki lesið síðustu bókina hans, sem hann skrifaði í „sólskininu á Spáni“, eins og hv. frsm. meiri hl. komst að orði í sinni háfleygu ræðu um hinn unga rithöfund, en ég býst ekki við öðru en að hún sé lík hinum bókunum hans. Ég heyrði lesinn kafla úr bókinni í útvarpið og varð ekki hrifin af. Gat ég ekki heyrt af þeim kafla, að um þá framför væri að ræða, að ástæða væri til að verðlauna slík skrif með stórhækkuðum styrk. Ég ætla a. m. k. að athuga þetta nánar og kynna mér betur áður en ég greiði atkv. um viðbótarstyrk hans, þá má vel vera, að mér snúist hugur, ef ég sé greinilega bragarbót. Nú á að sýna leikritið „Straumrof“ á næstu dögum, og gefst þá þm. kostur þess að sjá list Halldórs á leiksviði. Sjái ég þar sýnilegar framfarir á efni og meðferð, má vel vera, að ég hugsi mig um tvisvar áður en ég rétti upp hönd á móti styrknum til höfundarins. En því miður hefi ég sáralitla trú á, að svo fari.