30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

1. mál, fjárlög 1935

Thor Thors:

Satt er það, að logn er hér í hv. þingi, og ætla ég ekki að stofna til stórviðris hér. Ég ætla aðeins að svara hv. frsm. meiri hl. fjvn. nokkrum orðum viðvíkjandi fáeinum atriðum í ræðu hans, út af þeirri ábyrgðarheimild á láni til rafvirkjunar í Stykkishólmi, sem ég bar fram till. um. Hv. þm. sagði, að í rauninni væri ekki hægt að mæla á móti þeim rökum, sem ég bar fram í þessu efni. Hann sagðist í rauninni vera málinu sjálfu fylgjandi, en þó ætlaði hann að greiða atkv. á móti því. Hann vildi halda því fram, að þessu ætti að fresta, þangað til betur léti í ári. Ef þessu máli á að fresta, getur vel farið svo, vegna þeirrar sérstöku ástæðu, að nýja sjúkrahúsið þar á staðnum verður að fá rafmagn jafnskjótt og það tekur til starfa, að sá frestur verði eyðileggjandi og framkvæmd málsins um seinan. Ég vil benda hv. þm. S.-Þ. á það, ef hann er vakandi einhverstaðar hér í nánd, að það er ekki rétt að fresta framkvæmdum, ef illt er í ári. Á krepputímum er einmitt ástæða til þess að hefja framkvæmdir. Sérstaklega er rétt á slíkum tímum að taka fé til láns, vegna þeirrar staðreyndar, að þá er féð ódýrara á peningamarkaðinum, sökum minnkandi eftirspurnar. Sérstaklega er þetta nauðsynlegt á krepputímum, eins og nú, þegar atvinnuvegir einstaklinganna eru ekki eins færir um að sjá landsmönnum fyrir atvinnu eins og ella. Þá er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að efla opinberar framkvæmdir.

Af þessum 165 þús. kr., sem áætlað er, að þessi rafvirkjun muni kosta, verða 66 þús. kr. a. m. k. eftir í landinu sjálfu í beinu framlagi til verkafólksins. Hrein vinnulaun vegna rafvirkjunarinnar eru ekki minni en 66 þús. kr. Þetta skapar aftur aukna kaupgetu í landinn og vinnu, sem ekki er vanþörf á að auka á þessum tímum, sem við eigum nú við að búa. Þegar svo fer að rofa til fyrir framkvæmdum einstaklinga og þess opinbera, þá er kominn tími til þess að fara að borga af lánunum, sem tekin hafa verið.

Hv. þm. sagði, að það vantaði peninga til þessarar greiðslu. Það á ekki að borga neitt strax, en taka féð að láni, og það er aðeins farið fram á það, að ríkið láti sína ábyrgð í té. Við það, að þetta lán er tekið, rennur í þjóðarbúið nýr erlendur gjaldeyrir, sem verzlunina vanhagar mjög um einmitt á þessum tímum.

Hv. þm. sagði, að fé til greiðslunnar vantaði, vegna erfiðleika afurðasölunnar. Ég vil benda hv. þm. á það, að þótt ekkert yrði úr þessum framkvæmdum, er samt óhjákvæmileg nauðsyn að borga fé út úr landi til þess að kaupa fyrir erlendar vörur. Eins og nú hagar, þarf að kaupa árlega olíu til rafmagnsstöðvarinnar í Stykkishólmi fyrir 3500 kr. og til annara þarfa í sama kauptúni þarf að kaupa af sömu vörutegund fyrir 6600 kr. árlega. Á þessum síðastnefndu kaupum telja kunnugir, að árlega mætti spara um 5200 kr., ef fullkomin rafvirkjun væri komin á fót. Nú þarf að kaupa kol til kauptúnsins fyrir 22500 kr. Ef rafvirkt yrði mundi þar geta sparazt 12300 kr. Eftir virkjunina verða árlegar greiðslur rafmagnsstöðvarinnar til útlanda 13200 kr. í vexti og afborganir, og 2000 kr. í viðhaldskostnað. Samtals verður þetta 15200 kr., svo að það eru 5800 kr., sem minna þyrfti til kaupa á erlendum vörum, ef stöðin kæmist upp. Það virðist því einnig af þessari ástæðu rétt að snúa sér að þessari virkjun. Hv. þm. vildi benda á, til samanburðar við þetta, að í hans kjördæmi væru 14 bæir, sem vildu fá rafmagn, en hann væri svo fórnfús að berjast ekki fyrir þessu vegna þess, að hann vissi, að ekki væri fé fyrir hendi til þess. Ég álít þetta ekki sambærilegt. Hér er aðeins um 14 bæi að ræða, en í Stykkishólmi eru 600 íbúar, auk þess sem bændur í Helgafellssveit og á Skógarströnd mundu njóta góðs af virkjuninni. Og meginatriðið er, að sjúkrahúsið getur ekki tekið til starfa, ef það fær ekki rafmagn, en það er hagsmunamál allra nærsveita, að það geti tekið til starfa.

Ég hefi áður tekið fram, að hér er ekki farið fram á annað en það, sem aðrir landshlutar hafa fengið. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, enda fáir á fundi og kl. orðin þrjú að nóttu. Fullveldisdagurinn er runninn upp og menn væntanlega komnir í hátíðarskap. Ég vænti því þess, að hv. þm. minnist þess nú, að þeir eru ekki aðeins þm. ákveðins flokks, heldur líka þm. allrar þjóðarinnar, og það verði til þess að hvetja þá til að sýna réttlæti í þessu máli.