17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég hefi nú í sjálfu sér ekkert um það sagt, að Sjálfstfl. gæti ekki hugsað sér á sínum tíma að vera með einhverjum tekjustofnum ríkisjóði til handa á svipuðum grundvelli og hér er farið fram á. En andstaða Sjálfstfl. í þessari hv. d. — og um hana var ég að tala — hnígur fyrst og fremst að því, að honum finnst ástæðulaust fyrir þingið að samþ. slíkt frv. í hasti og umhugsunarlaust, gegn vilja og tilmælum þjóðbankans.

Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort hann telji, að þegar slíkt mál sem þetta liggur fyrir, sé eðlilegt að leita umsagnar þjóðbankans um það, og ef honum finnst það eðlilegt, vil ég einnig spyrja hann að því, hvort honum finnist ekki einmitt sérstök ástæða að taka tillit til þeirrar umsagnar, þegar hún er svo ákveðin sem sú umsögn er, sem hér liggur fyrir frá þjóðbankanum, og einmitt þegar umsögnin er ákveðnust í því að telja nauðsynlegt, að afgreiðsla málsins bíði frekari athugunar bankanna og annara sem sérstaklega eiga við þessi lög að búa.

Mér þætti vænt um að heyra, hvernig hæstv. fjmrh. lítur á svona fyrirspurn til þjóðbankans og hvaða afstöðu eigi að taka til hennar, þegar henni er svo ákveðið svarað sem í þessu máli.