30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Ég á brtt. á þskj. 602, XXIV. lið, við 22. gr. Brtt. hljóðar um; „Að greiða úr ríkissjóði framlag til verðjöfnunarsjóðs til aukaverðuppbótar á útflutt kjöt af framleiðslu ársins 1934, allt að þeirri upphæð, er aðrar tekjur sjóðsins nema það söluár, ef verð á því kjöti verður tilfinnanlega lágt, svo að verðjöfnunarsjóður hrekkur hvergi nærri til að bæta upp verð útflutta kjötsins til samræmis við kjötverð á innlendum markaði“.

Á síðasta hausti voru menn allbjartsýnir í þessum málum, og byggðist það á því, að menn vonuðu, að verðjöfnunargjaldið mundi nægja til þess að útflutta kjötið kæmist í sæmilegt verð. Þessar vonir hafa því miður brugðizt.

Verðjöfnunarsjóður er ekki enn orðinn nema um 50 þús. kr., og þeir, sem djarfast vona um vöxt hans, ætla, að hann geti orðið 130—150 þús. kr.

Á þessu ári hefir alls verið slátrað á landinu 380 þús. fjár. Af freðkjöti munu ætluð til útflutnings um 1300 tonn, en af saltkjöti um 850 tonn. Alls mun því flutt út um 2200 tonn, eða kringum 2¼ millj. kg.

Söluhorfur eru ekki glæsilegar nú og lítil líkindi til, að bændur fái meira en 50 au. fyrir saltkjötið og 60—70 au. fyrir freðkjötið. Verðjöfnunarsjóður kemur því til með að hrökkva skammt, og það er sýnilegt, að þeir bændur, er flytja út kjöt sitt, fá minna fyrir það en í fyrra. Þá er og þess að geta, að bændurnir á því svæði, sem aðallega þarf að búa við erlenda markaðinn, urðu margir fyrir stóru tjóni síðastl. vor vegna fjársýki og þar af leiðandi vanhalda. Ofan á það bættust svo hinir stöðugu óþurrkar síðastl. sumar, og samfara þeim skemmdir á heyjum, svo að bændur í þessum landshlutum verða að kosta mjög miklu til við fóðurbætiskaup. Þegar svo stendur á, hefðu bændurnir á Norður- og Austurlandi sannanlega haft fremur á öðru þörf en verðlækkun á afurðum sínum.

Í Ed. bar ég fram till. um, að úr þessu yrði bætt í sambandi við kjötl., en það þótti eiga betur við, að till. væri flutt sem brtt. við fjárl. en við frv. sjálft, og þess vegna flyt ég nú hér þessa till.,

Með þessu á að stuðla að því, að bændur fái það verð fyrir afurðir sínar, að þeir geti lifað af atvinnu sinni. Þetta er því sanngjarnara, þar sem sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að halda uppi verðgildi peninganna, og verðið mundi vera hærra, ef þeim ráðstöfunum hefði ekki verið beitt. Þessi styrkur er því uppbót til framleiðenda fyrir það, að genginu er haldið uppi með opinberum ráðstöfunum. Ég vænti því þess, að þessi till. verði athuguð með velvilja, því að hér er þörf aðgerða.

Hv. 9. landsk. var hér með glósur, bæði til mín og Búnaðarfél. Enda þótt þessi hv. þm. sé nú í rauninni ekki svaraverður, ætla ég að víkja að honum nokkrum orðum. Hann talaði um skozku nautin og fann að því, að fulltrúa S. Í. S. hefði verið falið að annast innkaupin. Honum var nú ekki falið það upp á eindæmi, heldur eftir leiðsögn fulltrúa í Búnaðarfélagi Skotlands, sem hann átti að hafa til ráðuneytis. Ég hygg, að þótt við eigum góða búfjárræktarfræðinga, þá munu þeir ekki vera betri en þessi erlendi kunnáttumaður í búfjárræktinni, sem áður hefir verið fulltrúa Bf. Ísl. til aðstoðar, m. a. við kaup skozka sauðfjárins. Þm. sagði, að ekki hefði verið keypt annað en tarfar. Ég get upplýst það, að keypt var naut og kvíga af Galloway-kyni, einn nautkálfur af stutthyrningakyni, annar af skozku hálendingskyni og þriðji af Aberdeen-Anguskyni. Þessi innkaup voru gerð eftir bendingu skozka búfjárræktarfræðingsins, sem ég áður nefndi, og ætla ég að ekki hafi til annara verið betra að leita í þessu efni.

Nautkálfarnir voru keyptir til þess að vita, hvern árangur mætti fá hér af einblendingsrækt til slátrunar, og var ákveðið, að fleiri skyldu keyptir síðar, ef vel tækist.

Þá talaði þessi hv. þm. um kaupin á karakúlfénu. Um þessi kaup var fylgt ráðum þýzkra sérfræðinga, og hverri kind fylgdi ættartala og öll nauðsynleg vottorð frá erlendum sérfræðingum. Þá réðist þessi sami hv. þm. á hrossaræktarráðunautinn fyrir það, að hann hefði tekið að sér launað aukastarf fyrir 100 kr. á mánuði. Og mun hv. þm. þar hafa átt við, að ráðunauturinn hefir tekið að sér í bili a. m. k. að gegna gjaldkerastörfum hjá Bf. Ísl. og fær dálitla aukaþóknun fyrir þessa vinnu, sem áður var sérstakt starf. Ég hygg, að hv. þm. hafi hér höggið nokkuð nærri sjálfum sér. Ég veit ekki betur en þessi hv. þm. hafi embætti í þjónustu ríkisins, en hafi aukastörf, sem borguð eru a. m. k. þrisvar sinnum hærra en þessi aukastörf ráðunautarins.

Þá var hv. 9. landsk. með órökstuddar dylgjur um, að hlutdrægni væri beitt við úthlutun styrkja til búnaðarsambandanna. Vil ég vísa þessum ummælum hans heim til föðurhúsanna. Hann talaði um að koma nútímaskipulagi á Búnaðarfél. Ég veit ekki betur en að allir skynbærir menn í þessu efni telji skipun og starf Bf. Ísl. fyllilega nútímabært, og vil ég því vísa þessu heim líka.

Þá kem ég að hv. forsrh. og ummælum hans um Búnaðarfél. Hann dró úr sínum fyrri orðum um, að félagið væri ekki starfhæft, en reyndi að afsaka sig með því að segja, að það gæti ekki talizt starfhæft, ef eitthvað yrði að því fundið. Telur hv. forsrh., að hann sé óstarfhæfur, þótt eitthvað megi finna að störfum hans? Hann sagði, að Sigurður Sigurðsson hefði ekki fengið það starfssvið, að hann gæti notið sín. Ég hygg, að mikið og jafnvel ómetanlegt gagn hafi verið að starfi Sig. Sig. hin síðustu ár, enda hefir félagið notið sín mjög vel og komið stórmiklu í verk, eins og kom fram í skýrslum hv. þm. Mýr. Það verður ekki til peninga metið, hvað félagið hefir starfað fyrir jarðrækt og búfjárrækt landsins.

Þá lét hv. ráðh. sér sæma að feta í fótspor þess þm., er talaði á undan honum, og sagði, að einn ráðunauturinn hefði ekki mætt í skrifstofu sinni í langan tíma. Þessi ráðunautur hefir skrifstofu heima hjá sér. Hann vinnur að skýrslugerð um fóðurbirgðir, ættartölum í hrossaræktinni og hefir þar m. a. á skrá um 1000 úrvalshross. Auk þessa stendur hann í stöðugum bréfaviðskiptum við menn úti um land.

Ég ætla, að að þessum störfum megi vinna í hvaða skrifstofu sem er. Annars mun þessi ráðunautur vera í skrifstofu Bf. þann tíma, sem skrifstofan er opin, og oft eftir það, þegar hann er ekki á ferðalögum í þarfir Bf. Þá vinnur þessi maður að sýningum, og kennslubók hefir hann samið í sérgrein sinni hana bændaskólunum og almenningi. Hefir bók þessi hlotið almannalof. Hv. forsrh. átaldi félagið fyrir afskipti þess af loðdýraræktinni og fyrir að skipa mann fyrir ráðunaut í þessari grein, sem jafnframt væri framleiðandi. Ég held, að þessi maður sé ekki framleiðandi á þessu sviði; það má vera, að faðir hans sé það, en ég tel það engan galla, þótt hann hafi tækifæri til að vinna að refarækt á heimili sínu og fái þannig daglega reynslu. Ég álít, að það veiti því betri trygging fyrir því, að hann sé starfi sínu vaxinn.

Annars er það um afskipti Búnaðarfél. af refaræktinni að segja, að Bf. Ísl. hefði kannske átt að taka þetta fyrr í sínar hendur. Það var yfirsjón, að fyrstu refirnir voru fluttir inn eftirlitslítið frá norskum refabúum, og ekki vandað svo til valsins sem æskilegt hefði verið. Annars situr sízt á hæstv. landb.ráðh. að átelja fyrirrennara sinn í þessu efni, því að ég setti fyrstur allra ströng skilyrði um innflutningsleyfi á silfurrefum. Þess var krafizt, að þeir refir, sem fluttir væru inn, væru annaðhvort sjálfir verðlaunadýr eða undan völdum verðlaunadýrum. Það má vera, að þessum skilyrðum hafi ekki alltaf verið fullnægt, og átti þó dýralæknir að gæta þess, en þeir, sem fullnægðu ekki að öllu þessum reglum, urðu að láta af höndum skriflega drengskaparyfirlýsingu um það, að þeir lóguðu dýrunum næsta haust, ef þau reyndust ekki vel, að dómi ráðunautarins.

Þá kem ég að deilunni um stjórn Bf. Ísl. í sambandi við hina margumtöluðu klásúlu forsrh. Deilan snýst um það, hvort yfirráð yfir Búnaðarfél. eigi framvegis að vera hjá Alþingi og stj. eða hjá búnaðarþingi, eins og lög félagsins mæla fyrir um og búnaðarþingið hefir jafnan óskað. Búnaðarþingið er skipað fulltrúum bænda og á að mínum dómi að vera æðsta vald í öllum búnaðarmálum. Öðru kann að gegna um þau mál, sem ráðuneytið felur Búnaðarfél. að annast fyrir sína hönd, eins og t. d. útreikning á jarðræktarstyrknum, því að þar getur landsstj. haft það eftirlit, sem hún óskar.

Það hefir verið stöðug ósk búnaðarþingsins, að það fengi allt vald yfir Búnaðarfél. í sínar hendur. Allir gömlu flokkarnir eru samsekir um, að þetta er ekki orðið svo fyrir löngu. En um þá afstöðu Bændafl., að hann styður sjálfstæði Búnaðarfél., þarf ekki annað en að vitna í fyrstu starfsskrá flokksins.

Hæstv. forsrh. átaldi mig fyrir að skipa þá menn í stjórn Búnaðarfél., sem þar átti að skipa samkv. lögum, eftir tillögum landbúnaðarnefnda Alþingis. Þetta var bein skylda mín. Hitt er ekkert annað en blekking, að þessi skipun gildi áfram, þótt Alþingi breyti nú jarðræktarlögunum þann veg, að búnaðarþingið fái æðsta vald yfir félaginu. Við þá breytingu fellur auðvitað þessi skipun niður af sjálfu sér.

En það vil ég heldur telja mér til kosta en hitt, að hafa farið eftir lögum.

Þá gerði hæstv. ráðh. sér tíðrætt um álit Sigurðar búnaðarmálastjóra, sem hann lagði fyrir búnaðarþing 1933. Ég hefi nú lesið þetta álit og get fullyrt, að frásagnir hæstv. ráðh. um þetta eru algerlega villandi. Aðaltillögur Sigurðar gengu einmitt í þá átt, að búnaðarþing fái æðsta vald í málum Búnaðarfél. og þær hömlur, sem nú eru því til fyrirstöðu í löggjöfinni, verði numdar burtu hið bráðasta. Hæstv. ráðh. sleit hér ýmislegt út úr samhengi, svo sem eins og það, að verksvið hinna tveggja búnaðarmálastjóra séu ógreinilega aðgreind. Ég held, að það sama mætti nú segja um stjórnarráðið sjálft, að þar séu ekki alltaf glöggar markalínur milli ráðuneytanna, svo að sama málið geti stundum heyrt undir tvö ráðuneyti, en með góðri samvinnu, eins og er í Búnaðarfél., leysast slík mál greiðlega, þótt markalínurnar séu ekki alveg glöggar.

Sigurður Sigurðsson leggur einmitt til, að Búnaðarfél. ráði sjálft lögum þeim og reglum, sem það starfar eftir, og hafi hið sama lýðræðisfyrirkomulag og ákveðið er í lögum þess, þótt þeim lögum hafi ekki fengizt fullnægt vegna þeirra ákvæða í jarðræktarlögunum, að stjórn Búnaðarfél. skuli að 2/3 vera skipuð af landbúnaðarnefndum beggja deilda Alþingis. Þótt Sig. Sig. benti á einstaka atriði, sem hann vildi breyta, staðfesta þær undantekningar aðeins regluna.

Í sömu átt stefna og þær. till., sem fram hafa komið hér. Minni ég þar sérstaklega á brtt. hv. 2. landsk., að Búnaðarfél. skuli ráða öllum sínum málum sjálft, og þá einnig því, hver er búnaðarmálastjóri.

Ríkisstj. ætti að láta af þeim ofbeldishug, sem hún hefir sýnt í þessu máli, og styðja lýðræðisskipulag Búnaðarfél. skv. þess eigin lögum. Búnaðarþingið er eins fært til að stjórna sjálft málum félagsins eins og þeir, sem ofsækja það.

Umr. (atkvgr.) frestað.