17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

148. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil út af orðum hv. þm. G.-K. taka það fram, að ég álít eðlilegt, að leitað sé umsagnar bankans til þess að þm. gefist kostur á að sjá, hvaða rök bankinn hefir fram að færa í málinu. En ég lít svo á, að umsögn bankans geti ekki verið bindandi fyrir þm. — að þeim sé endilega skylt að haga sér eftir því, sem bankinn álítur. Ef þm. líta svo á, að rök bankans séu svo sterk, að vegna þess sé ástæða til að láta málið ekki ganga fram, þá gera þeir það. En líti þeir gagnstætt á það, fara þeir líka eftir því.

Frá sjónarmiði bankanna er eðlilegt, að þeir séu á móti þessu máli, vegna þess að það hefir í för með sér aukna fyrirhöfn um alla afgreiðslu og snertir bankana nokkuð öðruvísi heldur en ýmsar aðrar skattaálagningar, og þess vegna munu þeir vilja, að öðru jöfnu, bara frá þessu sjónarmiði, stuðla að því, að teknanna sé aflað á einhvern annan hátt, sem ekki kemur þeim neitt við. Ég læt þetta nægja um álit bankans.

Ég hefi orðið var við, að mörg mál eru send bönkunum til umsagnar, eins og eðlilegt er, og ég hefi tekið eftir því, að þeir, sem fá umsögn frá einhverjum banka sér í vil, hampa henni eins og að hún sé einhver dómsúrskurður. Þetta hefir komið dálítið einkennilega fram í tveimur málum hér á þinginu. Annað málið var frá stjórnarflokkunum, og umsagnir bankanna um það mál voru á móti því, og þá var því mjög hampað af andstæðingunum, hversu mjög bankarnir hefðu um það að segja. En hitt málið kom fram frá stjórnarandstæðingum, og í því máli var umsögn bankanna stefnu stjórnarinnar í vil, en þá var því ekkert haldið á lofti, að ástæða væri til að fara eftir umsögn bankanna. Það má ekki um of hengja sig í að fara eftir öllum slíkum umsögnum, þó að það sé í sjálfu sér mikils virði, að þær komi fram í málinu, og þau rök, sem þar koma fram, séu til greina tekin.