17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég get fallizt á sumt af þeim rökum, sem hæstv. ráðh. færði fram. Það er náttúrlega rétt, að það, að senda banka málefni til umsagnar, getur ekki verið skuldbinding fyrir þingið að hlíta þeirri umsögn, því að það væri alltof mikið valdaafsal af hálfu Alþingis yfir til bankanna. En ég vil þó segja um þetta mál, að ef á annað borð nokkur ástæða er nokkurn tíma til þess að taka tillit til umsagnar bankanna, er það í þessu máli, þar sem ekki er farið fram á annað en að bankinn fái frekari tíma til að athuga málið heldur en honum gafst nú í þetta skipti. Það finnst mér ákaflega sanngjarnt. En út af þeim almennu ummælum, sem hæstv. ráðh. viðhafði í sambandi við mína fyrirspurn, þá getur verið, að þau hafi við rök að styðjast að því er hans flokk snertir. Mér finnst Sjálfstfl. hafa tekið mikið mark á umsögn þjóðbankans, og það síðasta í því efni, sem ég get bent á, er það, sem gert er að umtalsefni í blöðum hæstv. ríkisstj. í dag, að þjóðbankinn hefði lagt til, að afgreiðslu skuldaskilasjóðs útgerðarmanna yrði frestað til næsta þings, sem væntanlega kemur saman í marzmánuði næstkomandi, um leið og hann gaf vilyrði fyrir því, að hann skyldi ekki ganga að skuldum útgerðarmanna frekar venju í byrjun í hönd farandi vertíðar. Sjálfstfl. tók þeim eðlilegu afleiðingum af þessari umsögn og þá málefnalegu aðstöðu að segja:

„Úr því að skuldaskilin geta ekki komið til framkvæmda fyrr en eftir þessa vertíð, og úr því að flokkurinn hefir unnið það á, að stjórnarliðið, sem var tregt til fylgis við þetta mál, hefir nú heitið fylgi sínu, og úr því að bægt er frá þeirri hættu, sem vofði yfir útvegsmönnum og séð varð, að leiða mundi til margra gjaldþrota, vill Sjálfstfl. líta frekar á málefnið heldur en hina „agitatorisku“ hlið og sætta sig við biðina“. Þess vegna eru þessi orð hæstv. fjmrh. ekki algild, og þau eiga ekki við aðstöðu Sjálfstfl. til þessara mála.

Þjóðbankinn hefir í tveimur höfuðmálum þingsins gefið umsagnir, þ. e. a. s. um frv. um fiskmálan., þá umsögn, að hann teldi það frv. skaðlegt, og jafnvel stórhættulegt. Sú umsögn hefði haft mikla þýðingu fyrir afstöðu Sjálfstfi., ef hann hefði ekki verið búinn að marka afstöðu sína, sem var í samræmi við þessa umsögn. Hitt málið var skuldaskilasjóðurinn, og umsögnina um það tók Sjálfstfl. einnig til greina. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, enda þótt það snerti ekki þetta mál beinlínis.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ef nokkurntíma er ástæða til að taka tillit til umsagna, þá er það nú, þegar bankinn fer aðeins fram á nokkurra mánaða frest til þess að athuga málið.