17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

130. mál, vátryggingar opinna vélbáta

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er orðið að deilumáli milli þd. Það var upphaflega borið fram í Nd., en þegar það kom hingað til Ed., fékk sjútvn. það til meðferðar og gerði á því nokkrar breyt., aðallega þær, að hún bætti inn í frv. yfirþiljuðum vélbátum af svipaðri stærð og opnum vélbátum. Önnur breyt., sem n. gerði á frv., var sú, að fella úr því 2. gr. — Nú hefir Nd. ekki getað fallizt á þessar breyt. Ed. og tekið þær út með öllu, að undantekinni einni lítilsháttar lagfæringu á 5. gr. Sjútvn. er það ljóst, að miklir ágallar eru á frv., og þá sérstaklega, að það skuli aðeins ná til opinna vélbáta, en yfirþiljaðir vélbátar komast ekki undir lögin. Og það er jafnvel spursmál um, hvort þeir geta komizt að í það ábyrgðarfélag, sem ráðgert er að stofna eftir þessu frv. Þegar opnir vélbátar upp í 8 smálestir að stærð eru teknir í trygginguna, þá virðist það dálítið einkennilegt, að ekki skuli mega gilda hið sama um yfirþiljaða vélbáta. Ég tel nauðsynlegt, að stofna verði samtrygging vélbáta, eða ábyrgðarfélag, sem allir þessir vélbátar heyri undir og séu tryggðir i. Þessir vélbátar munu flestir vera ótryggðir, bæði opnir og þiljaðir. Það hefir verið gerð tilraun til að tryggja þá, en mér er sagt, að hún hafi ekki gefizt vel og að það hafi orðið að færa vátryggingargjaldið upp í 10% af verði bátanna. Nú munu vera yfir 400 vélbátar af þessari stærð í landinu, og af þeim eru allmargir ótryggðir.

Þó að sjútvn. sé mjög óánægð með frv. í því formi, sem það nú er, þá sér hún sér ekki fært að breyta því aftur, af því hún telur hættu á, að það nái þá ekki fram að ganga á þessu þingi, og af tvennu illu vill hún þó heldur, að það nái lögfestingu, þó það sé mjög gallað.

Ég vil líka geta þess, að sjútvn. er fullviss um. að ákvæði 2. gr. frv. um tryggingargjaldið o. fl. er ákaflega vafasamt að hafa bundið í lögum. Eins og ég benti áður á hér í þd., þegar þetta frv. var hér til meðferðar, þá eru þessi ákvæði sjálfsögð reglugerðarákvæði. Það er mjög varasamt og óhyggilegt að hafa þetta í lögunum. Því ef tryggingargjaldið er ákveðið of lágt, þá leiðir auðvitað til þess, að tryggingarfélagið getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Því að það er hvergi gert ráð fyrir því í lögum, að hlaupið verði undir bagga með þessum félagsskap, ef hann ber upp á sker. En sem sagt, Nd. virðist ekki hafa séð annað fært en að hafa þessi ákvæði í lögunum; og sjútvn. þessarar d. verður að neyðast til að fallast á það.

Snemma á þessu þingi flutti ég í Sþ. þáltill. um að skora á stj. að láta endurskoða lögin um samábyrgðina o. fl. Sú þáltill. hefir ekki enn verið tekin fyrir til umr. í þinginu; en ég vil þrátt fyrir það beina því til hæstv. ríkisstj., þó að till. verði ekki rædd eða samþ., þá láti hún rannsaka þetta samt sem áður og gera till. um það og leggja fyrir næsta þing árangurinn af þeirri rannsókn. Ekki sízt vegna þess, að sjútvn. þessarar d. er það ljóst, að þetta frv. er meingallað. Ég vil mælast til þess, að stj. láti rannsaka þetta, hvort sem þáltill. verður samþ. eða ekki. Ég vildi láta þessa aths. fylgja áður en þetta frv. er afgr. frá þinginu.