08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég býst við, að hv. samgmn. ætlist til þess, að ég sé henni þakklátur fyrir það, hvernig hún hefir tekið í brtt. þær, sem ég stend að. En ég get alls ekki verið það, þar sem henni hefir allmjög farið aftur síðan í fyrra. Þá gekk hún þó inn á, að báðar leiðirnar skyldu vera opnar um Dalatanga, en sakir þess, að hún var ókunnug þar eystra. vildi hún ekki ákveða sig fyrr en fyrir lægju betri upplýsingar. Þetta var skynsamlegt eins og þá stóð á. En nú liggja upplýsingar frá mér fyrir um þetta. En þá tekst svo illa til hjá hv. n., að hún lætur fara frá sér fullyrðingu um það, að með því að taka þessa leið frá Brekku að Dalatanga, þá myndi skapað fullkomið öryggisleysi um sendingu veðurfregna frá Dalatangavita. Ég skil ekkert í, hvernig hv. n. getur látið slík ummæli sem þessi frá sér fara. Það má kannske deila um það, hvor leiðin sé betri, en slík fullyrðing sem þessi hefir við lítil eða engin rök að styðjast, því ég veit ekki betur en að veðurfregnir verði víða að fara í gegnum eina og fleiri talsímastöðvar, og hefir ekki heyrzt að slíkt skapi algert öryggisleysi þeirra. Í þessu sambandi má gjarnan benda á það, að á Ísafirði var veðurathugunarstöð, en var flutt til Bolungavíkur. Þó ég sé ekki kunnugur staðháttum þar, þá veit ég samt, að símaleiðin á milli þessara staða er ekki með öllu örugg vegna snjóflóða o. fl. Eigi að síður álít ég, að þetta hafi verið skynsamlegt, því að það mun frá veðurfræðilegu sjónarmiði meira á veðurfregnum að græða frá Bolungavík en Ísafirði, og betra að taka þær þar.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja hv. samgmn., hvort hún í raun og veru haldi, að sambandið gegnum Seyðisfjörð verði öruggara við Dalatanga heldur en frá Brekku. Ég fyrir mitt leyti þori að fullyrða, að sambandið gegnum Seyðisfjörð er undirorpið miklu meiri hættu. Það er hugsað gegnum bæjarsímann á Seyðisfirði, og á þeirri línu eru margir notendur. Auk þess vita allir, sem til þekkja, að það eru ekkert ótíðari bilanir á honum en á landssímanum að Brekku. Þetta er þó einhver allra veigaminnsta ástæðan. Hitt er stærra atriði, hversu miklu það er kostnaðarsamara, að leggja línu frá Seyðisfirði að Dalatanga, heldur en frá Brekku. Þar sem það er nú fullvíst, að það er á engan hátt tryggara að hafa sambandið gegnum bæjarsímann á Seyðisfirði heldur en eftir landssímalínu, þá met ég að engu þá mótbáru, að veðurfregnir séu óábyggilegri, ef þær fara gegnum talsímastöðvar. Hvað myndum við Norðfirðingar t. d. mega segja, þar sem við förum með öll okkar samtöl í gegnum Fjörð í Mjóafirði, sem er 3. fl. talsímastöð. Það heyrast engar kvartanir um truflanir vegna þess. Það er því alveg víst, að það truflar ekkert skeytasendingar, þó að fara þurfi í gegnum tvær talstöðvar. Hv. n. mun því áreiðanlega hafa byggt álit sitt á umsögn veðurstofunnar, en ekki á upplýsingum kunnugra manna á þessum efnum. Hitt er rétt hjá hv. frsm., og ég skal viðurkenna það, að eins og frv. er orðað, mætti jafnvel álíta, að það ættu að koma 3 nýjar stöðvar á þessa línu. Það mun alveg rétt, að slíkt er ekki venja, að landssímalínur liggi inn á hverjum bæ, og er það ekki ætlun mín í frv. Ég hefði því vel getað fallizt á, ef skilja má upptalninguna á þennan veg, að sleppa henni, og einungis að taka það fram, að línan lægi um Rima, Hof, Eldleysu að Dalatanga.

Ég er þess alveg fullviss, að það er misráðið að taka þvert fyrir þessa till. mína, því að það er öldungis víst, að sambandið við Dalatanga verður miklu öruggara gegnum Brekku heldur en um bæjarsímann á Seyðisfirði. Þá ber og þess að gæta, að símalínan að Dalatanga er ekki einungis hugsuð vegna veðurfregna, heldur og líka vegna vitans, því ef eitthvað bilar í honum er erfitt að ná í síma til þess að gera aðvart, og m. a. s. var það ekki fyrr en eftir það, að farið var að tala um að leggja línu að Dalatanga vegna vitans, að veðurstofan vildi fá veðurathugunarstöð þar. Hvað vitavörðinn snertir, þá er hagkvæmara fyrir hann að hafa sambandið við Brekku frekar en Seyðisfjörð, því að hann hefir öll sín viðskipti við Mjóafjörð og hjálpar, ef hann þarf einhvers með, er frekar að vænta þaðan en frá Seyðisfirði.

Hitt get ég gengið inn á, að vegalengdin frá Brekku sé meiri, en þá ber þess að gæta, að með því að fara þá leið, myndu 3—4 bæir komast í símasamband og auka tekjur af línunni.

Samkv. því, sem ég nú hefi tekið fram, get ég ekki sagt, að hv. samgmn. hafi tekið þessu máli betur en í fyrra. Ég gat sætt mig við það þá, að farið væri eftir úrskurði fagmanns, en að kasta því fram að órannsökuðu máli, að með því að fara þá leið, sem ég hefi haldið fram, að væri hentugri, myndi verða algert öryggisleysi um sendingu veðurfregnanna, er fjarstæða ein.

Að því er snertir línuna frá Neskaupstað að Sandvík, þá gekk landssímastjóri inn á hana í fyrra, og þarf ég því ekki að tala um hana nú.

Þá er línan frú Búðum að Hafranesi. Um það, hvort henni hefir verið illa viðhaldið eða ekki. get ég ekki dæmt. Sömuleiðis er ég ókunnugur því, hvort not hennar hafa minnkað undanfarið. Ég get búizt við, að það séu áraskipti að því eins og ýmsu öðru, hvað menn noti síma. Má því vel vera, að síðan 1930 hafi not þessarar línu við landssímann minnkað eitthvað, því að allmjög hefir verið erfitt um afkomu manna þarna, og er því ekkert ósennilegt, að þeir hafi sparað við sig þessi útgjöld eins og önnur. Annars hefði ég haldið, að lína þessi gæti orðið tekjuauki fyrir landssímann. Auk þessa vil ég gefa þær upplýsingar, að landssíminn liggur þessa leið, og ef hann yfirtæki línuna, þá væri tilvalið að selja sumarbústaði á Hafranesi og fá símasambandi bæði suður og norður. Annars segir brtt. mín ekkert um það, að einkalínu þessari skuli viðhaldið, heldur að hún verði landssímalína.

Ég get svo látið útrætt um þetta, en vænti þess, að hv. dm. taki upplýsingar mínar um línuna út á Dalatanga til greina, a. m. k. ekki síður en umsögn þeirra manna, sem ekkert þekkja til þorna.

Þá vildi ég minnast fáum orðum á atriði, sem kom fram í ræðu hv. 4. landsk. Hann vildi halda því fram, hv. þm., að ég hefði í brtt. mínum vitnað til skakkra laga. Ég held því þvert á móti fram, að ég hafi vitnað til réttra laga, því að það eru ekki til önnur allsherjar ritsíma- og talsímalög en l. frá 1913, en með breyt., sem á þeim hafa verið gerðar. Lög þau, sem hv. þm. vitnar i, eru breyt. á l. frá 1913. Ég skal játa, að ég er ekki svo lögfróður, að ég treysti mér til þess að þrátta um þetta tvímælalaust, en ég vil biðja hv. samgmn. að athuga það vel fyrir 3. umr., hvor okkar hefir hér á réttara að standa. Hafi ég misskilið, er sjálfsagt að leiðrétta það.