08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Þorsteinn Briem:

Það voru nokkrar aths. í till. n. viðvíkjandi brtt. á þskj. 149. — Hv. þm. Dal. hefir lýst þar rétt allri aðstöðu, og hefi ég þar engu við að bæta, nema því, að sveitir þessar, sem hér eiga hlut að máli, eru afskiptar um vegu og samgöngubætur, og virðist því öll sanngirni mæla með því, að þær fengju þessa hjálp af því opinbera til þess að bæta að dálitlu leyti úr því, sem þær hafa verið afskiptar á öðrum sviðum. Á þessum stöðum báðum er löng og erfið leið til læknis, og er það því mikils virði, að þarna komi sími.

Viðvíkjandi því, sem n. ber landssímastjóra fyrir, að þarna geti ekki verið nema um eina stöð að ræða og komi þess vegna ekki að notum nema einum bæ hver lína, þá trúi ég varla, að landssímastjóri hafi komizt svo að orði. Og viðvíkjandi því, að ekki gæti komið til greina að hafa þarna stöð nema á einum bæ á þessum línuspotta, þá hygg ég það nokkuð ofmælt, miðað við það, sem þegar hefir komizt á í öðrum héruðum. Ég get t. d. nefnt Borgarfjörðinn, þar sem miklu skemmra er milli margra stöðva heldur en mun vera þarna, þó stöð væri á fleirum bæjum en einum. Ég nefni Borgarfjörðinn af því, að ég er þar kunnugastur, en það má nefna fleiri dæmi, t. d. Strandasýslu og nokkurn hluta Húnavatnssýslu o. fl.

Hér er um að ræða öllu meiri vegalengdir og torsóttari en frá Hallbjarnareyri til næstu símastöðvar, og er þar þó gert ráð fyrir nýjum síma, sbr. þskj. 266. Ég hygg, að þörf sé á þeirri línu, en þó ekki síður nauðsyn á þessum tveim línum, þar sem bæði er um meiri vegalengdir að ræða og torfærur.

Landssímastjóri er sagður líta svo á, að á þessum stöðum eiga að vera einkalínur. Það er náttúrlega ekki loku fyrir það skotið, að þó lögð verði landssímalína eftir þessum sveitum, þá geti það síðar orðið stofn að einkalínum. Ég skal ekki bera neitt á móti því, sem hv. frsm. var að mæla með einkalínum, hvað þær hefðu marga kosti til að bera fram yfir landssímalínurnar. En það er bara sá gallinn á þeirri gjöf, að hún getur ekki komið fátækum sveitum að notum eins og nú standa sakir; til þess eru einkalínurnar of dýrar.

Það stendur svo á, að hvorugur hv. flm.brtt. á þskj. 126 er hér viðstaddur í d. og af því ég er kunnugur á þeim stöðum, sem brtt. ræðir um, vildi ég aðeins lítillega minnast á hana. Mér skildist á hv. frsm. n., að hann teldi ekki þörf á, að þarna væri nema ein stöð. En þar sem þessi hreppur, Öngulsstaðahreppur, mun vera um 20—30 km. langur, þá hygg ég, að ekki sé um neina óhófstill. að ræða, þó farið sé fram á, að þarna séu 2 stöðvar. Eftir þeim kunnugleika, sem ég hefi þarna frá fornum tíma, þá hygg ég, að sú brtt. sé á allri sanngirni byggð.