18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

58. mál, Kreppulánasjóður

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég á, ásamt öðrum hv. þm., brtt. á þrem þskj. Vil ég fyrst minnast á brtt. á þskj. 502. Er sú fyrsta við 7. gr. frv. Í 7. gr. er gert ráð fyrir því, að andvirði áhalda, sem notuð hafa verið við bruggun áfengis, skuli renna í Menningarsjóð. Mér finnst ekki ástæða til að breyta þessu frá því, sem nú er, en nú er það svo, að þetta fé rennur í ríkissjóð. Bæði er það, að hér mun jafnaðarlega ekki vera um mikið verðmæti að ræða, og svo hitt, að naumast verður það talið viðkunnanlegt að byggja starfsemi Menningarsjóðs á þannig fengnu fé. Vil ég því hafa um þetta sömu ákvæði og þau, er nú gilda.

2. brtt. á sama þskj. er við 9. gr. frv. Brtt. er í samræmi við það, sem ég hefi haldið fram við umr. um þetta mál. Ég álít, að nýir áfengisútsölustaðir eigi að lúta sömu l. og þeim, er nú gilda um útsölustaði Spánarvina. Að því leyti sem útsölur þær, er nú eru til, eiga að bæta við sig sterkum drykkjum, á það að vera háð vilja þeirra, er á þessum stöðum búa. Hvort sem um það er að ræða að stofna nýju útsölu eða bæta við sölu sterkra drykkja á útsölustöðum, sem fyrir eru, þá á það að vera háð því skilyrði, að 3/5 hlutar kosningabærra manna í hlutaðeigandi lögsagnarumdæmi samþ. það. Ég hefi þannig gert ráð fyrir því, að svið það, sem atkvgr. nær til, sé fært út. Frv. gerir ráð fyrir, að hún tæki aðeins til þess hrepps eða kaupstaðar, sem útsalan er í. En þar sem gera má ráð fyrir, að áfengisútsalan nái út yfir þetta þrönga svið, er réttara að miða þetta a. m. k. við lögsagnarumdæmi.

Þá er 3. brtt. á sama þskj. Hún er við 16. gr. frv. Í frv. er gert ráð fyrir, að menn með lögregluvaldi megi rannsaka bifreiðar og önnur flutningatæki, hvort þar leynist ólöglegt áfengi. Ég hefi viljað bæta því við, að þeir megi líka gera húsrannsókn, ef grunur leikur á, að einhversstaðar sé framið brot á áfengislöggjöfinni. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr., að það gæti orðið mikill þáttur í því að sporna við heimabruggun og öðru ólöglegu athæfi, ef jafnan væri hægt að vinda bráðan bug að slíkri húsrannsókn, þegar þörf væri talin á. Í mörgum tilfellum hafa brotlegir menn getað skotið sér undan, af því að dráttur hefir orðið á rannsókn, þar sem þurft hefir leyfi bæjarfógeta eða sýslumanns, en þeir aðilar eru oft fjarlægir og illt að ná til þeirra nema með löngum fyrirvara. Oftast eru það hreppstjórar eða löggæzlumenn, sem húsrannsóknina framkvæma, og er það þá einungis formsatriði að fá leyfi bæjarfógeta eða sýslumanns. Hér í Rvík er það svo, að lögregluþjónar gera þegar húsrannsókn, ef þeir hafa grun um, að hennar þurfi við. Brtt. felur í sér, að það sama gildi úti um land og í Rvík. Og utan kaupstaðanna er mest þörf á þessu ákvæði, af því að þar er erfiðast að ná til sýslumanns. Vænti ég, að hv. d. ljái því lið, að framkvæmd laganna verði að þessu leyti gerð greiðari en ella myndi.

Þá er brtt. á sama þskj. við 18. gr. frv. 18. gr. kveður svo á, að hver, sem vegna ölvunar veldur óspektum eða hneyksli á almannafæri, opinberum samkomum eða skipum hér við land, skuli sæta ábyrgð samkr. l. þessum. Ég vil bæta því við, að hann skuli sæta sömu ábyrgð, ef þetta athæfi fer fram í bifreiðum eða öðrum farartækjum. Má vera, að slíka hefði mátt heimfæra undir óspektir eða hneyksli á almannafæri, en það ætti samt ekki að skaða, þótt þetta væri tekið fram þarna.

5. brtt. er um það, að bætt verði nýjum kafla á eftir 24. gr. og að þar komi tvær nýjar greinar, sem verða 25. og 26. gr. Eins og menn muna, var við 2. umr. borin fram brtt. um sérstakan ráðamann ríkisstj. í áfengismálum. Fyrrihluti þeirrar till. var felldur, en síðari hlutinn, sem var um áfengisvarnir í kaupstöðum, var tekinn aftur. Nú hefi ég bent á þá tilhögun, að stórtemplar sé ráðunautur ráðh. í áfengismálum. Ég benti á það við 2. umr. þessa máls, hversu mikilsvert það væri í baráttunni við ofdrykkjuna, að starfsemi bindindismanna væri nátengd þeim mönnum, sem eiga að framkvæma löggjöfina um varnir til þess að hamla móti drykkjuskaparóreglu. En þetta verður ekki betur tengt saman en á þann hátt, að kveða svo á, að stórtemplar sé ráðunautur ríkisstj. í áfengismálum. Með því ætti að vera tryggt, að stj. hefði sér við hlið mann, sem sérstakan áhuga hefði 2 þessum málum, en á því veltur allt um gagnsemi þessa starfs. En það verður að ganga út frá því sem gefnu, að til þess að vera aðalforingi í bindindismálum sé ekki valinn annar maður en sá, sem sýnt hefir yfirburði í þeim efnum og getur verið öruggur ráðunautur stj. Ég vænti þess, að þeir menn, sem á annað borð geta fallizt á það, að stj. fái slíkan ráðunaut í áfengismálum, séu sammála um það, að bezt sé að skipa í það starf þann mann, sem falið er það virðingastarf að vera stórtemplar á hverjum tíma. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir því, að stórtemplar skipi formenn nefnda þeirra, sem eiga að starfa í kaupstöðum og hreppum landsins, ef brtt. verður samþ. Það þarf líka að tengja þá starfsemi við samstarf bindindismanna og ráðh. Ég sé, að hv. 2. þm. Reykv. hefir flutt þá brtt., að ráðh. skipi formenn nefndanna. En ég skildi hann svo, að það væri varatill., ef mín till. yrði felld. Mér skildist svo sem hann ætlaði að greiða atkv. með minni till. viðvíkjandi stórtemplar, og hefði aðeins borið sína fram til vara, ef mín yrði felld. Það er gert ráð fyrir því í brtt., að verksvið nefndanna sé ákveðið með reglugerð, sem ráðh. gefur út, og á stórtemplar að hafa umsjón með framkvæmd þeirrar reglugerðar.

Ég ætla að minnast lítillega á brtt. á þskj. 503, en hún er stíluð við brtt. á þskj. 472, frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., og er hún við c-liðinn í brtt. þeirra. En í c-liðnum er gert ráð fyrir, að sölulaun áfengis í útsölum og veitingastað megi aldrei fara fram úr ákveðnu hundraðsgjaldi, mismunandi fyrir útsölur og veitingastað. Það er heppilegra að taka það þannig upp í l., að ákveðið sé, að þetta hundraðsgjald fari ekki fram úr ákveðinni upphæð. Ég legg til, að það verði aldrei meira en 10% af útsöluverði. Ég ætla, að með þessu sé séð fyrir sæmilegri greiðslu til þeirra, sem taka að sér útsölu, hvort sem það er í útsölum eða veitingastöðum. Það er kunnugt, að hið eina veitingahús hér í bænum, sem hefir vínsölu, fær 33% í sölulaun, og er það óhæfilega mikil borgun og er ástæðulaust að skerða svo tekjur ríkissjóðs, auk þess, sem það herðir á hvöt útsölumanna til þess að gera umsetninguna sem mesta. Ég hefi því lagt til, að það ákvæði væri tekið upp í l., að sölulaun væru ekki nema 10% af útsöluverði, og að c-liðurinn sé orðaður eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni.

Þá á ég brtt. ásamt þrem öðrum hv. dm. á þskj. 404, og er hún um það að gera þá breytingu á 2 gr. frv., þar sem ríkisstj. er heimilað að flytja til landsins áfenga drykki, að það nái ekki til þess að flytja inn áfengt öl með meiri styrkleika en gert er ráð fyrir í brtt. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr. þessa máls, að mest skaðsemi væri fólgin í því að drekka áfengt öl, því að þar í lægi oft rótin til almenns drykkjuskapar, sérstaklega hvað snerti hina yngri menn. Þeir byrja á því að drekka áfengt öl, en það vekur aftur löngun hjá þeim til þess að neyta sterkari drykkja, og getur áfenga ölið þannig leitt menn inn á þá braut að verða ofdrykkjumenn. Það er því sjálfsagt að banna að flytja inn áfengt öl, og sé ég ekki ástæðu til að fara lengra út í það mál, þar sem ég hefi rætt um það áður.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða einstakar brtt. frá öðrum hv. þdm. Ég get þó ekki leitt hjá mér að minnast á brtt. á þskj. 521, frá hv. 11. landsk. og hv. 8. landsk. Brtt. er við 11. gr. og er um það, að skerða ákvæði gr. um veitingaleyfi áfengra drykkja. Eins og gr. er í frv., þá hefir dómsmrh. heimild til þess að veita einu veitingahúsi í Rvík leyfi til vínsölu. Lengra nær ákvæðið ekki. En með þessari brtt. er þetta allmjög fært út og er gert ráð fyrir að veita ráðh. heimild til þess að veita öllum kaupstöðum landsins slíkt leyfi. Ég vil benda á það, að það er ósamræmi í því að veita ráðh. heimild til þess að gefa slíkt leyfi samtímis og bannað er að setja á stofn útsölu, nema það sé leyft með miklum meiri hluta atkv. Samkv. till. frá mér er bannað að setja í stofn útsölu sterkari drykkja þar, sem Spánarvínaútsala hefir verið, nema það sé samþ. með miklum meiri hl. atkv. Ég tel varhugavert að ganga inn á þessa braut án þess að veita kosningabærum mönnum kost á því að greiða atkv. um það. Þetta er í ósamræmi við önnur ákvæði í frv., og ræð ég því frá að ganga inn á þessa braut.

Ég sé, að þeim, sem samdi frv., og einnig okkur, sem höfum verið að gagnrýna það, hefir sézt yfir, að í frv. vantar ákvæði viðvíkjandi heimild þeirri, sem læknar hafa til þess að gefa út lyfseðla. Hér er brtt. á þskj. 545, sem bætir úr þessu, og ætla ég, að það sé ekki að ástæðulausu, þó slíkar skorður séu settar inn í frv. Við höfum hjá sumum læknum fengið miður góða reynslu á meðhöndlun þeirra á áfengi á undanförnum árum, og leiddi misnotkun þeirra á lyfseðlaleyfinu til þess, að það varð að reisa sterkari skorður en gert var upphaflega í bannl. og síðar í áfengisl. — Ég held það sé ekki fleira, sem ég þarf að minnast á.

Hv. þm. Vestm. minntist á nokkur atriði viðvíkjandi brtt. þeim, sem fram hafa komið. Ég ætla aðeins að minnast á eitt atriði, af því að það snertir mínar till. Hann taldi, að það væri ekki heppilegt að leggja það undir áhrifavald kosningabærra manna, hvort leyfa ætti útsölu sterkra drykkja þar, sem nú eru Spánarvínaútsölur. Ég vil benda á, að það er eingöngu vegna þess, að við erum bundnir með samningum við Spánverja, að ekki er hægt að hagga við Spánarvínaútsölunum. Hitt er auðvitað á valdi okkar, hvort við viljum bæta gráu ofan á svart og leyfa útsölu sterkari drykkja. Það er ómögulegt fyrir okkur að þurrka Spánarvínin burt á meðan við erum bundnir með samningum.

Hv. þm. sagði, að heimildin, sem konsúlar hafa haft, hafi ekki komið að sök. En það hefir nú verið svo, að það hefir verið hneykslunarhella frá upphafi, að verða að hafa þennan fleyg í áfengisl. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að hann hefir á ýmsan hátt haft miður góð áhrif á löggjöf okkar um þetta efni. En þessi fleygur hefir verið í l. af því að það hefir ekki verið hægt að komast hjá því að hafa hann. En það er víst viðtekin regla, að konsúlar búi að nokkru leyti við löggjöf þeirrar þjóðar, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Og menn hafa ekki séð sér fært að svipta þá þessum rétti. En það er síður en svo, að þetta hafi ekki orðið til skemmda fyrir löggjöf okkar. Ég mun því fylgja brtt. hv. 3. þm. Reykv. um þetta, þó að það sé ekki hægt að leggja í hana eins róttækan skilning og orðalag hennar gefur tilefni til.