08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Ingvar Pálmason:

Ég get ekki látið hjá líða að svara hv. frsm. n. nokkrum orðum, mest vegna þess, að ég kann heldur illa þessum fullyrðingum hans og n. Hv. frsm. sagði í sinni seinni ræðu, að það væri óhrekjanlegt, að sambandið við Dalatanga yrði öruggara gegnum Seyðisfjörð heldur en gegnum Brekku. Ég tel, að þetta sé ofmælt, og byggi það á því, að fyrsta skilyrðið fyrir því, að símasambandið sé öruggt, er það, að síminn sé þó til. Ég hefði gaman af því, ef hv. frsm. gæti fært rök fyrir því, að símalínunni sé meiri hætta búin af völdum náttúrunnar á leiðinni frá Brekku að Dalatanga heldur en frá Seyðisfirði að Dalatanga. Ég er sjálfur ekki í neinum vafa um það, að hver og einn, sem heftir farið um strendur Seyðisfjarðar, hlýtur að sannfærast um, að þar er meiri snjóflóðahætta heldur en á leiðinni frá Brekku að Dalatanga.

Það atriði, sem hv. frsm. leggur aðaláherzluna á, og veðurstofan virðist líka gera, er hættan á því, að stöðvarnar á leiðinni loki hinar stöðvarnar út. Ég tel þetta ekkert aðalatriði, því að þó að ekki sé hægt að segja, að slíkt komi ekki fyrir, þá mundu ekki verða nein brögð af því, eftir að viðkomandi stöðvar hefðu verið aðvaraðar um það, að slíkt mætti ekki koma fyrir. Það, sem fyrir mér vakir hvað öryggi snertir, er, að línan verði lögð þar, sem minnst hætta er á, að hún verði eyðilögð af völdum náttúrunnar, og ég álít, að það sé þetta, sem beri að líta á, en ekki það, hvort hún kunni að liggja um 2 til 3 stöðvar. Reynslan er sú, að víða liggja línurnar gegnum margar talstöðvar, og ég veit ekki til þess, að það komi að sök, nema þá mjög sjaldan, en hitt er aftur á móti alvanalegt, að stöðvarnar vanti vegna símabilana, og t. d. núna í veturnóttaveðrinu, sem menn muna eftir, voru 3 stöðvar útilokaðar vegna bilana á símanum, og ég tel tvímælalaust, að hvað þetta snertir, þá sé öruggara að leggja línuna frá Brekku að Dalatanga. Ég vil bæta því við, að ég hefi oftar en einu sinni átt tal við verkstjóra landssímans á Austurlandi, Brynjólf Eiríksson, um þetta, og mér er óhætt að fullyrða, að hann telur réttara að leggja línuna frá Brekku að Dalatanga heldur en frá Seyðisfirði að Dalatanga. Ég vil endurtaka það, að ég álít, að hættan á því, að stöðvarnar séu lokaðar út, sé hverfandi lítil. Það eru á Austurlandi fjöldamargar stöðvar, sem svona hagar til um, en aldrei hefir slíkt komið að sök þar. Ég get nefnt t. d. Hafnarnes, en þaðan liggur síminn í fjórar áttir. Þar er ekki opið nema 2 tíma á dag, en þrátt fyrir það hefir þetta ekki komið fyrir þar, og ekki heldur á Skorrastað, þar sem Suðurlandslínan liggur um. Hættan á því, að talstöðvar séu lokaðar út, er því sýnilega mjög lítil, og alls ekki hægt að leggja megináherzlu á það atriði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða um það aftur, sem ég minntist á áðan í sambandi við aths. hv. 4. landsk. við fyrirsögn frv. Ég mun ekki gera það að neinu kappsmáli, og n. athugar þetta sjálfsagt og lætur í ljós sitt álit um þetta. Ég hefi ekki sannfærzt um það ennþá, að fyrirsögnin sé ekki rétt, vegna þess að ég lít svo á, að l. frá 1913 séu þau l., sem gilda um þetta nú, með þeim viðaukum og breyt., sem þau hafa fengið síðan. Ég held, að tilvitnunin sé rétt, enda sér maður það, að ef þessi l. eru færð öll í eina heild, þá er tilvitnunin rétt, og t. d., þegar vitnað er í 4. gr. l., þá er ekki vitnað í hana eins og hún var 1913, heldur auðvitað eins og hún er nú orðin.