07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

58. mál, Kreppulánasjóður

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ein aðalástæða hv. 2. þm. Rang. til meðmæla með frv. var sú, að kreppuhjálpin væri eyðilögð, svo að hún kæmi að engu gagni, ef ekki væri bætt úr þeim miklu ábyrgðarflækjum, sem enn væru til. Mér skildist á ræðu hv. þm., að meðan þetta væri ekki gert upp, yrðu þeir, sem fengið hefðu kreppuhjálp, að leggja á sig mikið af skuldum ábyrgðarmannanna, sem drægju þá niður í sama fenið aftur.

Nú er ekki ætlazt til, að greiddur verði nema nokkur hluti þessara ábyrgða, sem eru yfir 1 millj. kr., því að eftir frv. á að verja 100 þús. kr. til þessara hluta, en eftir brtt. 250 þús. Myndu þá nokkrir verða að halda áfram að greiða þeim lánstofnunum, sem ekki væri fullnægt með þessum ¼ hluta. Það má að vísu segja, að þetta létti nokkuð á mönnum, en ég er ekki viss um, að það yrði eins mikið og hv. þm. vill halda fram. En aðalástæðuna gegn því að samþ. þetta tel ég þó þá, að þarna á að verja miklu fé til hluta, sem ekki eru til beinna hagsmuna fyrir bændur. Ennþá er ekki farið að verja neinu til að bæta úr þeim miklu erfiðleikum, sem sjávarútvegurinn á nú í, þó að um það liggi fyrir ýmsar till. En mér finnst, að jafnar væri skipt milli þessara aðila, ef nokkru fé væri varið til hjálpar sjávarútveginum, í stað þess að veita stórfúlgur til greiðslu á dauðum ábyrgðarskuldum. Mun ég því greiða atkv. á móti hækkun þessari. Ég sé, að meira eða minna af þessu hlýtur að lenda á ríkissjóði. Það má reyndar segja, að 250 þús. sé ekki mikill hluti þeirra 11 millj., sem ríkissjóður ábyrgist. En mér finnst þó ekki rétt af löggjöfinni að fara að gera upp þessar dauðu skuldir landbúnaðarins, áður en sjávarútveginum er nokkur hjálp veitt. Sjávarútvegurinn á rétt á slíkri hjálp, og hans kröfur verða því háværari, því lengra sem gengið hefir verið í því að styrkja bændur.