14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Þorsteinn Briem:

Ég vil leyfa mér að mótmæla brtt. hv. samgmn. á þskj. 439. Brtt. okkar hv. þm. Dal., um að línan verði lögð að Vífilsdal hinum neðri, var samþ. hér við 2. umr., og ég vænti því, að þeir hv. þdm., sem greiddu atkv. með henni þá, greiði nú atkv. á móti brtt. hv. samgmn. á þskj. 439. Þeir menn, sem búa inni til dala, afskekktir og langt frá samgönguleiðum, eiga oft erfitt, en ekki sízt þegar vitja þarf læknis. Slík þægindi sem þau, að fá síma heim til sín, eða svo nærri, að auðvelt sé að ná til síma, geta í mörgum tilfellum verið slíkum sveitum lífsnauðsyn. Ég vil því fastlega mega vænta þess, að hv. deild samþ. ekki neina till. í þá átt, að þessir afskekktu dalabúar sem hér eiga hlut að máli, verði afskiptir.

Ég vil árétta það, sem hv. þm. Dal. tók fram áðan, að símalínurnar í Saurbænum mætti ekki styttri vera en að Staðarhóli. Við 2. umr. gengum við inn á að taka aftur brtt. okkar um að lína þessi næði að Hvammsdal, í trausti þess, að n. mælti með nokkurri úrlausn. Sú von hefir algerlega brugðizt. Í tilefni af ummælum hv. frsm. samgnm. Vil ég taka það fram, að það þýðir ekkert að vera að vísa fátækum sveitarfélögum á einkasíma; þau hafa engin tök á að rísa undir þeim kostnaði, sem honum fylgir.