25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

77. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég get orðið við þeim tilmælum hæstv. forsrh., að fara ekki langt út í ræðu hans. Og það því fremur, sem hann tók ekki ólíklega í það, að styðja þær breytingar, sem hljóta óhjákvæmilega að vera bornar fram í sambandi við frv. Mér virtist hann nú vera fullur viðurkenningar á því, að þetta frv. skorti mjög á nauðsynlegan undirbúning. En hæstv. ráðh. ætlar að varpa öllum áhyggjum um rannsókn þessa máls upp á allshn. Ég verð nú að segja það, að ég er ekki jafntrúaður á það, að þar þurfi ekki fleiri nærri að koma. Sú skoðun mín styðst við þau skil, sem hv. allshn. hefir gert málinu við þessa umr.

Það getur vel verið, að það hafi verið nokkuð ofmælt hjá mér í ummælum mínum um hæstv. ríkisstj. Það er kunnugt um einn ráðh., að hann er andvígur ýmsu því, sem er í frv., og það er líklega ástæðan fyrir því, að þetta er ekki borið fram sem stjórnarfrv. En mér er ekki eins kunnugt um afstöðu hæstv. fjmrh. Ég verð því í ádeilum mínum að undanþiggja aðra en hæstv. dómsmrh., enda virtist mér svo, sem hann vildi taka allt á sitt bak. Hæstv. ráðh. vildi bendla einn mann frá stórstúku Íslands við þetta frv. Ég skal síðar sýna fram á, að hann getur ekki kennt honum um neitt, sem áfátt er í flutningi máls þessa. Hæstv. ráðh. var að tala um, að það væri ekki rétt, að allshn. flytti þetta frv. að tilhlutun ríkisstj., heldur aðeins að tilhlutun dómsmrh. Og það er víst af því, að hann hefir ekki fengið meðráðh. sína til að vera með í því að flytja þetta mál sem stjórnarfrv.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ofmælt hjá mér, að allshn. væri ósamþykk frv. Ég byggði þessa skoðun mína á því, að frsm. n. sagði, að n. hefði óbundið atkv. um brtt., og það stafar ekki af öðru en því, að þeir eru óánægðir með frv. Ég veit, að ýmsir munu bera fram brtt. Það skiptir auðvitað ekki svo miklu máli, hvernig hver einstakur nm. lítur á frv., heldur hvaða tökum Alþ. yfirleitt tekur á málinu. Hæstv. forsrh. talaði almennt um afnám bannsins. Það er ástæðulaust nú, þar sem málið er komið á það stig, að bannið er afnumið. Það var þarflaust að tala um klofning innan reglunnar um afstöðuna til afnáms bannsins. Ég gaf ekkert tilefni til þess í minni ræðu. Það verður að taka á málinu eins og það nú liggur fyrir. En stórstúka Íslands er óskipt í því máli. Hæstv. forsrh. vildi bera í bætifláka fyrir sig, vegna óheppilegrar frumkomu gegnvart stórstúku Íslands við undirbúning málsins. En þar getur hann ekki þvegið hendur sínar. Það eina, sem hann bauð stórstúku Íslands upp á — en hún var auðvitað sjálfsagður aðili við undirbúning löggjafar um þetta efni — var, að hún mætti láta einn mann fylgjast með starfi þeirra manna, sem búið var að fela undirbúning þessarar löggjafar. Það má lýsa þessu réttilega með því að segja, að honum hafi verið boðið upp á að lesa úr penna hinna nm. Enda var sá maður, sem stórstúkan útnefndi til þessa starfs, ekki látinn vita af einum einasta fundi, sem haldinn var um þetta mál. Hæstv. forsrh. þykist hafa gert yfirbót með því að leyfa stórstúkunni að láta fylgirit frá henni fylgja frv., þegar búið var að ganga frá því og láta prenta það. En stórstúka Íslands er ekki upp á það komin að láta prenta fylgirit. Það eru nógar leiðir aðrar opnar fyrir hana til þess að koma till. sínum á framfæri. Þrátt fyrir þennan kattarþvott er ljóst, að hann hefir skágengið stórstúku Íslands í þessu máli. Og við það líður frv. Ef tekinn hefði verið fulltrúi frá stórstúkunni, þá hefði áhrifa hans eflaust gætt í till. n., og þá einungis til góðs.

Það tókst ekki betur hjá hæstv. forsrh. að verja 2. gr. frv., um tilbúning áfengs öls. Hann talaði um, að þetta væri ákvæði í frv., sem á sínum tíma gæti gilt, en ef slíkur tilbúningur áfengs öls yrði leyfður, þá þyrfti að setja sérlög um það. En mér er spurn: Hvað á þetta þá að gera í frv.? Ég les ekki annað út úr þessu en það, að ákvæði 7. gr. um algert bann gegn tilbúningi áfengis eigi ekki að gilda lengi, ef sá vilji, sem markar stefnu hæstv. forsrh. í þessu máli, á að ráða. En þetta ákvæði um tilbúning áfengs öls á ekki heima í frv. Þetta mætti e. t. v. nota til þess að ganga á snið við 7. gr., um bann gegn tilbúningi áfengis í landinu.

Hæstv. forsrh. virtist ekki vera trúaður á íhlutunarrétt héraða um takmörkun útsölustaða. Hann virðist ekki vilja láta bæjarfélögin hafa neitt vald um það, hvort þau jafnframt Spánarvínaútsölu vilja hafa útsölu á sterkari vínum. En það er auðvitað sjálfsagt, að þau ráði í þessu tilfelli. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., að það veltur mikið á því, hvern hug borgarar þjóðfélagsins bera til þessa máls. Og það, að ganga framhjá borgurum þjóðfélagsins í þessu tilfelli, getur orðið til þess að sljóvga tilfinningu þeirra fyrir því að sporna við þeim háska, sem leitt getur af áfengisnautninni.

Um veitingahúsasölu sagði hæstv. forsrh., að væru sömu takmarkanir og um útsölustaði í kaupstöðum og kauptúnum. En það er alls ekki rétt. Ég verð að biðja hæstv. forseta um að leyfa mér að lesa upp 12. gr., um þetta efni. Hún er svona: „Dómsmrh. hefir heimild til þess að leyfa veitingahúsum í kaupstöðum veitingar á vínum þeim, er um ræðir í lögum nr. 3 4. apríl 1923. Hann getur og leyft veitingar annara vína. Skal í veitingaleyfi eða reglugerð ákveða skilyrði fyrir veitingasölunni, þar á meðal um veitingastað og veitingatíma“.

En það eru engin takmörk fyrir því, hvað dómsmrh. getur gengið langt í veitingu slíkra leyfa. Hæstv. forsrh. virtist hneykslaður á því, að ég álíti meiri hættu á ofnautn áfengis eftir að þessi l. kæmust á. Ég byggi þessa skoðun mína á þeim kringumstæðum, sem skapast, þegar bannið er afnumið. Ég ætla ekki að verja ástandið eins og það er núna. Ég veit, að erfiðleikar hafa verið miklir í þeim efnum um langt skeið. En hitt er ég sannfærður um, að það eru mestar líkur til þess, að við höfum aldrei horft framan í meiri vandræði í þeim efnum en þegar bannið er afnumið og sterku vínin fljóta inn í landið. A. m. k. verður það svo fyrst í stað.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri ekki fært að leyfa hreppstjórum eða öðrum lögreglumönnum að gera húsrannsókn án þess að undan væri genginn úrskurður sýslumanns. Ég skal fúslega viðurkenna, að heimilsfriðinn ber að vernda og á að vernda. En ég get ekki séð, að honum sé stefnt í voða frekar, þó ekki sé beðið eftir sýslumannsúrskurði. Sýslumaður framkvæmir sjaldnast sjálfur húsrannsóknina, heldur sá, sem um biður. Ég sé því ekki, að það sé sérstakur munur á, hvenær sá, sem um biður, framkvæmir skoðunina. Ég vil ganga út frá því, að þeim mönnum einum sé falið lögregluvald, sem skilja það, að ekki á að raska heimilisfriðnum, nema sterkur grunur leiki á, að í skjóli hans séu framin lögbrot.

Það er alkunnugt hver munur getur verið á því, að lögreglumaður eða hreppstjóri, sem er á ferð, sæti því heppilegasta tækifæri, sem býðst, eða verði að bíða eftir úrskurði langan tíma eins og gjarnan vill verða í sveitum, þar sem langt er til sýslumanns. Það getur margt gerzt á þeim tíma, og ég ætla, að borizt hafi til eyrna þeirra, sem rannsaka átti hjá, áður en framkvæmt var, t. d. var sagt, að eitt sinn hefði það birzt í útvarpinu. Þar að auki ganga þessar heimildir gegnum ýmsa hættulega milliliði.

Út af þessu, sem sagt var um álagningu á vínin, skal ég ekki segja margt, en ég byggði aðeins á þeim eina grundvelli, sem til var. Ég get vel tekið undir með hæstv. dómsmrh., að þar sé úr vöndu að ráða, að finna í því rétta leið, en það er algerlega ófært að fara þá leið, sem ég gat dregið út úr frv.

Hæstv. dómsmrh. lagði mjög ríkt á það og alveg réttilega í ræðu sinni, að framkvæmd þessa máls og þessarar löggjafar byggðist á fólkinu í landinu, og þar á meðal og ekki hvað sízt á bindindisfélagsskapnum, sem er sprottinn upp af þjóðarnauðsyn hér eins og annarsstaðar, til að verja móti þeim vágesti og þjóðarböli, sem vínnautnin er. Félögin þurfa að finna, að löggjafinn skilur þeirra góða starf. Hæstv. dómsmrh. hafði góð orð um að styðja fjárframlög til bindindisstarfseminnar. En honum virðist hafa hrapallega missýnzt um það, hver er nauðsynlegur stuðningur í þessu efni, þar sem hann hefir skorið niður um helming í fjárl.frv. þann fjárstyrk, sem stórstúkan óskaði eftir. Hún bað um hækkun upp í 30 þús. kr., en styrkurinn er áætlaður hjá stj. 15 þús. kr., eða aðeins 3 þús. kr. hækkun, á sama tíma og leyfa skal innflutning sterkra drykkja. Mér virðist þetta ekki benda til þess, að hæstv. dómsmrh. hafi, a. m. k. ekki þá, haft nægilegan skilning á þörfinni fyrir því að bæta aðstöðu félaganna til að leysa það hlutverk, sem þeim ber í baráttunni við þennan vágest. En ég er honum mjög þakklátur fyrir þessi orð, sem benda til þess, að nú hafi kannske runnið upp fyrir honum betri skilningur á því, að þörfin fyrir aukinn fjárstyrk yxi þegar bannið yrði alveg afnumið, heldur en þessi fjárveitingartill. stj. ber með sér, að hann hafi átt.