25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

77. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að frv. þetta væri ekki hans verk, vil ég leyfa mér að benda á það, sem hv. allshn. hefir sett í upphaf grg. með frv., því að þar standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta: „Frumvarp þetta er, eftir tilmælum dómsmálaráðherra, flutt af allsherjarnefnd“ o. s. frv. Það er kunnugt, að upptök þessa máls voru þau, að síðasta Alþ. fól ríkisstj. að undirbúa frv. um þetta efni, en lagði engar hömlur á það, hvernig það yrði gert, t. d. tók ekkert fram um framkvæmdaatriði frv. Það, að hæstv. dómsmrh. vann ekki sjálfur að samningu frv., skapar honum þó enga aðstöðu til að neita faðerni þess. Ef hann hefði ekki tekið það að sér sem sitt frv., þá hefði hv. allshn. ekki getað flutt það. Því að ef hæstv. dómsmrh. hefði verið óánægður með frv., þá hefði hann getað látið allshn. breyta því. Þetta er það, sem alltaf hefir gilt á okkar þingi.