13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

77. mál, áfengislög

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég hafði búizt við því, að hv. þm. Barð., sem er frsm. allshn., myndi taka til máls. En þar sem hann er ekki í d., þá ætla ég að tala dálítið um þær brtt. við frv., sem fluttar hafa verið. Það eru brtt. hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., sem ég ætla að minnast nokkuð á. Það er þá 1. brtt., sem er um það, að fella burt 2. gr. frv., en hún er um það, að ef sett eru l. um tilbúning áfengs öls, þá séu þau undanþegin ákvæðum þessara l. Ég sé enga ástæðu til að fella þetta burt. Þeir, sem eru hræddir við framleiðslu sterks öls, hafa ekkert að óttast, þó gr. standi. Hún tekur einmitt fram, að til þessa þurfi sérstök lagaákvæði, og þá leiðir það af sjálfu sér, að þau lagaákvæði eru undanþegin ákvæðum þessara l. Það er því eðlilegt, að gr. standi óbreytt, og á þá 2. brtt. einnig að falla.

3. brtt. er um verðlag á vínunum. Þeir vilja, að í stað orðanna „og gæðum“ komi: og innkaupsverði. — Ég sé ekki, að neitt sé á móti því að ákveða verð á þessari vöru eins og annari eftir gæðum, og þá auðvitað líka eftir innkaupsverði. En hér finnst mér, að vanti í frv. ákvæði um hámarksálagningu. En það má e. t. v. koma því inn í frv. við 3. umr., hvað mikil álagning má vera á vínunum.

Í sambandi við 10. gr. er brtt. um það, að útiloka að settir séu á stofn útsölustaðir áfengra drykkja annarsstaðar en þar, sem þeir nú eru, og fella þá burt 2. og 3. málsgr. Mér finnst eðlilegt, að landsmenn hafi sjálfir ákvörðunarrétt um þetta. Þeir, sem hafa greitt atkv. um það, hvort afnema ætti bannlögin eða ekki, hafa látið skoðun sína í ljós á báðum stöðunum. Þessi l. eru í raun og veru áframhald af þeirri atkvgr., og því fullt samræmi í því að leyfa kaupstöðum eða sveitarfélögum að ákveða sjálf, hvort þau vilji leyfa, að útsölustaðir séu settir á stofn. Eftir frv. þarf ríflegan meiri hl., eða 3/5, til þess að leyfa útsölustaði. Ég sé ekki, hvers vegna á að banna útsölustaði sumstaðar, en leyfa þá annarsstaðar. Margir hafa komið með þau rök, að frjáls sala áfengra drykkja myndi útrýma heimabrugginu. En ég sé ekki, að það geti komið til greina, ef sala er eingöngu leyfð í örfáum kaupstöðum. Hinir landshlutarnir eru þá útilokaðir frá því að afla sér þessara drykkja, nema flytja þá langt að. Ég get ekki skilið, að þeir, sem búa utan útsölustaða, hafi ekki einhver ráð að ná í það, ef þeir hafa hug á því að afla sér þessara drykkja. En þetta gæti valdið því, að menn keyptu hættulega drykki og að heimabruggið legðist ekki niður. Mér finnst það eðlilegt, að sveitarfélög og kaupstaðir ráði þessu. Ég sé ekki neitt til fyrirstöðu því, að brtt. við 11. gr.samþ.

Viðvíkjandi brtt. við 13. gr. skal ég segja það, að mér finnst óþarft að taka það svona sundurliðað. Í gr. er dómsmrh. veitt heimild til þess að setja reglugerð um sölu vína. Honum er því heimilt að setja þær takmarkanir, sem þurfa þykir. Það getur orðið ágreiningur um, hvernig framkvæma eigi þau atriði, sem felast í brtt., og er því ekki rétt að setja löggjöf um það, heldur að veita dómsmrh. heimild til þess að setja reglugerð um það efni. 8. brtt. er ekki efnisbreyting, heldur einungis viðbót, og sé ég ekki, að það skipti neinu máli. 9. brtt. er við 23. gr. l. og er um það, að aftan við gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Verði slys af völdum ölvaðs flugmanns eða bifreiðarstjóra á öðrum mönnum, skal það jafnan varða missi flug- eða ökuskírteinis fyrir fullt og allt.“ Ég verð að segja það, að við höfum reynslu fyrir því, hvernig þetta ákvæði getur komið niður. Í vissum tilfellum hefir það komið fyrir, að mönnum, sem sviptir hafa verið ökuleyfi æfilangt, hefir verið veitt náðun og þeir fengið réttindi sín aftur. Það er varhugavert að setja gr. eins einstrengingslega og gert er í brtt. Mér finnst eðlilegra að orða þetta eins og er í frvgr. Það á auðvitað að banna það algerlega, að bifreiðarstjórar séu undir áhrifum víns, og svo vil ég að verði hafður stigmunur á brotunum, og að 1. brot varði missi ökuskírteinis um ákveðinn tíma, og að fullu og öllu, ef um miklar sakir er að ræða. Þessi gr. grípur alveg yfir það, að ef slys verður á mönnum vegna ölvunar, þá verður það að teljast svo stórt brot, að sá bifreiðarstjóri, sem valdur er að því, hlýtur að missa ökuréttindi æfilangt. Mér finnst, að tilgangurinn náist betur, ef það er orðað eins og í frvgr. Hinsvegar skal ég játa, að ég veit um tilfelli, þar sem menn hafa verið dæmdir í þungar refsingar, þ. e. missi ökuskírteinis æfilangt — en það er þung refsing fyrir þann, sem ekki kann annað verk — einungis vegna þess, að þeir höfðu neytt dálítils víns, og ef til vill með þeim, sem þeir óku í bíl sínum. Þessir menn voru ekki drukknir, heldur voru þeir undir áhrifum víns einungis að því leyti, að þeir höfðu bragðað vín. Ég get nefnt eitt dæmi um þetta. Maður nokkur hér í Rvík tók tvo menn í bíl sinn, og var með þá frá kl. 9½ um kvöldið og þangað til kl. 5 um morguninn. Hann fór um nóttina inn til annars mannsins og neytti þar eins glass af víni. Hann var tekinn, og það af einstakri tilviljun, vegna þess að bíll hans var á óleyfilegum stað. Þetta var annað brot hjá honum, og missti hann því ökuleyfi æfilangt. Ég varði þetta mál í hæstarétti og er því vel kunnugur. Þessi maður var giftur og átti 4 börn. Ég nefni þetta sem dæmi um það, að l. geta komið hart niður. Mér finnst því ekki ástæða til þess að samþ. brtt. og tel rétt að hafa það eins og er í frv.

Viðvíkjandi 10. brtt., sem er um það, að ef vafi leikur á því, að sakborningur sé undir áhrifum víns, skal úr því skorið með blóðrannsókn, sem læknir framkvæmir. Ég er samþ. þessari brtt., en álít, að hún gangi of skammt. Sá, sem ákærður er, á að eiga undir öllum kringumstæðum rétt á því, að hann sé leiddur til læknis, sem prófar, hvort hann er undir áhrifum víns eða ekki. Það hefir orðið ágreiningur út af þessu og vitnaleiðslur farið fram, þar sem sumir hafa svarið, að maðurinn hafi verið undir áhrifum víns, en aðrir aftur á móti, að hann hafi ekki verið það. En ég veit ekki um neitt tilfelli, þar sem farið hefir verið með manninn til læknis, til þess að láta hann skera úr um þetta. En það er auðvitað beinasta leiðin. Brtt. ganga of skammt. Það á að veita sakborningi skilyrðislausan rétt til þess að krefjast læknisskoðunar.

Um 7. kaflann skal ég ekki ræða. Það er afarviðkvæmt mál, hvernig bezt er að koma fyrir vörnum gegn því, að drykkjuskapur breiðist út, eða fræða menn um hættur þær, sem ofnautn áfengis hefir í för með sér. Ég tel, að margir menn hér í þessari hv. d., sem starfað hafa mikið að bindindismálum, séu færari en ég til þess að koma með viturlegar till. um það efni. En þó að ég sé fylgjandi löggjöf, sem heimilar sölu áfengra drykkja, þá vil ég styðja alla viðleitni í þá átt að varna því, að drykkjuskapur breiðist út.