10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Forseti (JörB):

Það eiga margir hv. þdm. hér hlut að máli, og vil ég mjög taka undir orð hv. frsm., að hv. þdm., sem hér eiga brtt., taki þær aftur til 3. umr. að því leyti sem n. hefir ekki tekið þær til greina, og menn stíli þá síðar meir brtt. við frv. eins og það kemur frá 2. umr., því að sumstaðar eru sumir töluliðirnir teknir, en aftur á móti nokkur hluti af öðrum og einstaka atriði ekki til greina tekið. Þetta mundi flýta fyrir afgreiðslu málsins. Eins og till. liggja nú fyrir, og ef öllum verður haldið fram, þá er engin leið, að svo verði frá þeim gengið við atkvgr., að ekki þurfi a. m. k. meiri og minni uppskriftir í skrifstofunni á eftir. (PO: Hvernig er með till., geta þær þá komið til greina við 3. umr. eins og þær eru?). þær geta ekki komið til greina, heldur þarf að flytja nýjar brtt. við 3. umr. og gera það svo snemma, að samgmn. hafi tíma til að athuga þær. (PO: Það er skrítið). Það er til þess að verði betra samræmi í þessu.