21.11.1934
Neðri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það liggur hér fyrir mikill sægur af brtt., og mun ég aðeins minnast á sumar þeirra, því sumar skipta ekki miklu máli frá mínu sjónarmiði séð. — Fyrst er þá brtt. á þskj. 503, þar sem ákveðið er, að útsölulaun áfengis í útsölustöðum og veitingastöðum megi aldrei vera meiri en 10%. Ég álít óheppilegt að binda þetta sérstaklega með lögum, og legg því til, að brtt. verði felld.

Um brtt. á þskj. 502 sé ég ekki ástæðu til að segja mikið annað en það, sem kemur fram í 3. tölul., að heimiluð skuli húsrannsókn ásamt rannsókn á flutningatækjum. Ég mælti móti því við 1. umr., að slík húsrannsókn væri heimiluð, og færði fram ástæður fyrir því, sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka, en afstaða mín er óbreytt. Viðvíkjandi því atriði brtt., sem er undir 5. lið a, er það að segja, að mér finnst óheppilegt, að stórtemplar sé sjálfkjörinn ráðunautur stj. í áfengismálum með verksviði, sem honum er veitt samkv. b-lið sömu brtt. Ég álít, að heppilegra væri þá, að kjörinn væri sérstakur fulltrúi til þess að aðstoða ráðh. í þessum málum. Annars er ég þessu mótfallinn, því ég álít í flestum tilfellum til hins verra að flytja það vald, sem er í höndum ráðh. eða ríkisstj., í hendur annara manna, sem ekki standa Alþingi ábyrgð gerða sinna.

Brtt. á þskj. 489, þar sem gert er ráð fyrir, að orðin „eða annar kunnáttumaður“ falli burt, er ég mótfallinn. Það getur komið fyrir, að það sé ástæða til að fela öðrum en lækni þessa rannsókn, t. d. efnafræðingi á rannsóknarstofu ríkisins, því hún er aðallega efnafræðilegs eðlis. Hún fer fram á þann hátt, að rannsakað er, hvað mikið áfengismagn er í blóðinu, og það getur efnafræðingur jafnt og læknir.

Um brtt. á þskj. 473 er það að segja, að ég get fremur verið henni samþ. heldur en gr. eins og hún er orðuð í frv., því samkv. gr. óbreyttri er sú skylda lögð tvímælalaust á lögreglustjóra og rannsóknardómara að láta fara fram blóðrannsókn, þegar vafi leikur á, hvort sakborningur er undir áhrifum víns, en það getur verið undir sumum kringumstæðum slæm aðstaða til þess fyrir sýslumenn úti um land að láta slíka rannsókn fara fram. Helzt hefði ég kosið að hafa þetta skyldu, en bæta inn í gr. orðunum: „ef við verður komið“. En sennilega verður ekki við komið að bera fram slíka brtt., úr því sem komið er.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 472 get ég sagt það, að ég get fallizt á þær allar, því ég tel þær frekar til bóta.

Brtt. á þskj. 444 er ég aftur algerlega mótfallinn. Ég er því mótfallinn, að leyft sé í þessum lögum að flytja inn öl, þó ekki sé með nema 2¼ áfengismagn. Við höfum nóg með okkar peninga að gera á þessum tímum, og þessi innflutningur mundi sennilegu verða helzt frá því landi, sem við flytjum miklu meira inn frá heldur en við seljum þangað. Það öl, sem menn eru vanastir hér af erlendu öli, er eins og menn vita danskt öl.

Þá er brtt. á þskj. 443. Hún er í raun og veru fremur leiðrétting heldur en efnisbreyting og virðist algerlega sjálfsögð. Með því að vísa til síðustu málsgr. yrði refsingin allt of ströng.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég drepa á ákvæði 6. gr. frv. Þar er, eins og hv. þm. sjá, tekið þannig til orða, að bannað sé að brugga á Íslandi eða búa til áfenga drykki eða áfengisvökva og gera drykkhæft það áfengi, sem er eða gert hefir verið óhæft til drykkjar. Í sambandi við þetta vil ég taka fram, að það gæti þótt heppilegt að flytja áfengið þannig inn, að keyptur væri spíritus. Kæmi þá til þess, að það þyrfti að blanda hann með vatni og gera hann á þann veg drykkjarhæfan. Er mjög líklegt, að þetta þætti hagkvæmara með tilliti til farmgjalda. Vil ég því sérstaklega taka það fram, að ég legg þá meiningu í ákvæði 6. gr., og vil búast við, að þeim skilningi verði ekki mótmælt, að þetta verði fyllilega heimilt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. viðhorf mitt gagnvart áfengislöggjöfinni er þannig, að ég tel ekki verulegu máli skipta um mikið af þessum brtt., hvort þær verða samþ. eða ekki. Mitt viðhorf til þessara mála er markað af því, að ég tel það fyrst og fremst höfuðatriðið, að eitthvað verði gert af hálfu hins opinbera til þess að koma mönnum í skilning um, einkum unga fólkinu, að menn eigi yfirleitt ekki að drekka áfengi. Mín skoðun, sem byggist á reynslu undanfarandi ára í þessum efnum, er sú, að ákvæði eins og þau, hvort loka skuli sölustöðum kl. 9 eða kl. 11 á kvöldin, hvort opið megi vera á laugardögum eða ekki og hvort selja skuli Spánarvín í kaupstöðum úti um land eða Spánarvín og sterkari drykki, skipti ekki miklu máli, heldur verði að gera ráðstafanir til þess að fá fólkið til að hætta að drekka af frjálsum vilja.