22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

77. mál, áfengislög

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs í gær, og verð ég því að taka upp þráðinn þar, sem umr. var slitið í gær. Hv. þdm. hafa nú talað um brtt., sem fram eru komnar, og gert grein fyrir þeim. Ég skal leyfa mér að segja álit mitt á örfáum atriðum, og stend ég jafnframt upp til þess að gera grein fyrir brtt., sem ég flyt ásamt öðrum hv. þdm. á þskj. 473. Eins og ég gat um við atkvgr. við 2. umr., er þetta atriði, eins og það var samþ. við 2. umr., að mínum dómi varhugavert nýmæli. Það eru að sönnu sérstök atriði, sem læknar fjalla um og skera úr með blóðrannsókn, en greinin má ekki vera svo orðuð eins og brtt. sú, sem lá fyrir við 2. umr. og var samþ. sem 23. gr. laganna. Þar segir:

„Leiki vafi á um, hvort sakborningur samkv. þessum kafla sé undir áhrifum áfengis, skal úr því skorið með blóðrannsókn, er læknir framkvæmir“.

Þetta ákvæði getur vitanlega ekki staðizt óbreytt, m. a. vegna þess, að læknar almennt hafa ekki tök á að láta blóðrannsókn fara fram, af þeirri einföldu ástæðu, að til þess þarf sérstakan útbúnað, sem aðeins er til á einum stað hér á landi, í rannsóknarstofu háskólans. Má því furðu vekja, að till. kom til atkv., af því svo er ástatt, sem ég gat um. Svo er það til komið, að flokksbróðir þessara hv. þm., landlæknirinn, bar á sínum tíma fram brtt. við áfengisl. í þessu efni, og í grg. fyrir till. játar hann, að þetta sé ekki hægt að framkvæma, þó hann vonaði, að ekki liði á löngu þar til það yrði hægt. Hann talaði líka um það, landlæknirinn, sem þá átti sæti hér á þingi, að úr því mætti skera með rannsókn, sem kunnáttumenn væru látnir gera. Ég held, að úr þessu sé skorið með minni till., að við bætist: „eða annar kunnáttumaður“. Nú hefir komið fram brtt. frá fyrri flm., um að niður falli þessi orð í till. minni. Það get ég ekki fallizt á, að efnafræðingur megi ekki framkvæma þessa rannsókn, enda hefir hæstv. forsrh. tekið fram, að sú sé hans skoðun, og endurtekur það, að hún sé ekki framkvæmd annarsstaðar en á rannsóknarstofu háskólans. Nú er það undanskilið með orðunum „ef tök eru á“. Þá er það heimilt annarsstaðar, svo er um hnútana búið. Ég vil því eindregið mælast til þess, að brtt. á þskj. 473 verði samþ. í heilu lagi, enda hafa dómbærir menn í þessu efni — eins og hæstv. forsrh. — fallizt á, að hún væri réttmæt.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að því, scm umr. í gær gáfu tilefni til út af brtt. þeirra hv. 11. landsk. og hv. 8. landsk. á þskj. 521. Án þess að ég að öðru leyti ætli að leggja dóm á þessa till., þá vil ég geta þess, að erfitt mun að finna, hvar takmörkin má setja um álagningu vínanna, hvað hún megi vera hæst og lægst. Aðaltilgangurinn er að hafa álagninguna ekki of harkalega, og ekki sé hverjum sem er leyft að leggja á þessa vöru, með því að það getur valdið miklu að leggja ekki á hana úr hófi fram, eins og nú er ástatt.

Annar tilgangur þessara laga af hálfu ríkisins er að sporna móti þeirri öldu, sem risin er hér á landi og stafar af svonefndu bruggi, sem löggjafinn hefir ekki fengið rönd við reist. Hæstv. fjmrh. andmælti till. minni, væntanlega út frá þeirri stöðu, sem hann nú hefir, og hefir viljað hafa óbundnar hendur um álagningu vínanna, því væntanlega hefir hann aldrei lagzt svo lágt, að þau rök, sem hann færði fram — að ekki væri hægt að útrýma brugginu — séu aðalatriði. Þetta má ekki heyrast úr ráðherrastóli, að ómögulegt sé að útrýma ólögum, og við verðum að trúa því, að það sé útrýmanlegt, og það er hægt. Þess vegna er ekki rétt að komast svo að orði eins og hæstv. ráðh. gerði, að þetta sé ómögulegt. Og ég tel, að eitt höfuðatriðið í útrýmingu bruggsins sé að selja sterku vínin, og þá sérstaklega brennivínið, vægu verði. Ég get sagt það berum orðum, að ég tel alveg víst, að með því takist að útrýma bruggun áfengis, a. m. k. til sölu. Það getur vel verið, að umbótamenn — sérfræðingar á þessu sviði — mótmæli þessu, en kostnaður er þó nokkur við að brugga, og að öðru leyti áhætta of mikil að brjóta löggjöfina. Því að það er skiljanlegt, að menn vilji heldur kaupa eina flösku af leyfilegu brennivíni, ef hún er ekki of dýr, en að kaupa brugg og eiga heilsu- og fjörtjón yfir höfði sér.

Það er almennt viðurkennt — og kemur úr hörðustu átt, ef hæstv. fjmrh. mótmælir því — að brennivínið er drykkur almennings, og er það eina, sem útrýmt getur brugginu og útrýmt því siðferðislega broti og niðurdrepi, sem því fylgir. Það er langt frá, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki sé hægt að keppa við bruggið, þó það sé ekki hægt með þeim hætti, sem viðgengst. Hitt er annað mál, þó menn bruggi til eigin nota, og það er minna mein, þó menn sulli eitthvað ofan í sjálfan sig, eða minna veður gerandi út af því. Höfuðatriði löggjafarinnar og tilgangur er að útrýma brugguðu áfengi af markaðinum. En frá þessu sjónarmiði eru till. réttmætar, þó að gæta verði varúðar um að stilla álagningunni í hóf. En ég skal játa, að það er vandi að gera áfengislögin svo úr garði, að allir geti vel við unað.

Þá eru brtt. á þskj. 472, frá þeim hv. l. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. Ég er ekki á móti þeim, nema c-lið. Ég tel, að a- og b-liðir fari í rétta átt og mun ekki greiða atkv. móti þeim, en c-liðinn tel ég óhæfilegan. Ég tel ekki, að þessi lög eigi að vera löggjöf um bann, heldur um að útrýma banninu í eiginlegum skilningi. Heldur er hér um að ræða að leyfa innflutning sterkra drykkja, og það má ekki blanda inn í þessi lög ýmsum ákvæðum um að sporna við óleyfilegri meðferð áfengis, þó sjálfsagt sé að sporna við því, að allt siðgæði fari út um þúfur.

Mér finnst varhugavert að leyfa lögreglustjórum að loka veitingahúsum fyrirvaralaust í 1 eða 2 daga, þegar þeim finnst ástæða til. Þetta finnst mér of langt gengið, því eins og gefur að skilja, þó ég hafi trú á lögreglustjórum, þá geta þeir misbeitt valdi sínu, og það er ekki rétt að gefa þeim ótakmarkað vald í þessu efni. Það er hætt við, að það þyki misnotað bæði víða og oft. Það þarf ekki annað en persónulegar ástæður komi til greina. Við þurfum að gæta þess, að þeir eru menn, og breyzkir eins og aðrir, og það gæti verið, að þeim fyndist ástæða til að loka einum sal til að gera einhverjum lífið „brogað“ — eins og það er kallað á Rvíkurmáli. Ég vil því ekki leiða þetta í lög og vona, að þetta atriði fái ekki byr í þessari hv. deild, heldur verði þessi stafliður felldur.

Um brtt. á þskj. 527, frá allshn., skal ég ekki ræða, vegna þess að fram er komin brtt. á þskj. 567, frá hæstv. forsrh., sem nemur hana burt, og við hana mun ég fella mig. Sú till. fjallar um að sameina 21. og 22. gr. frv. og gerir þær skipulegri eða aðgengilegri, svo ég fel, að við megi hlíta. En þessi löggjöf á ekki að vera refsilöggjöf, og það er braut, sem verður að ganga varlega inn á. Það má samþ. þessa till., en undir engum kringumstæðum þá till., sem lá hér fyrir í gær. — Þá skal ég ekki lengja mál mitt meira, og láta afskiptalausar aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, og láta atkvgr. skera úr. Aðeins skal ég geta þess. og taka í sama streng og hæstv. dómsmrh., að 3. liður í brtt. á þskj. 502, frá hv. þm. Borgf., er að mínum dómi óaðgengilegur og allskostar óhæfur. Virðist þar kenna mikils misskilnings á því, sem lagt er til í 6. gr. l. um rannsókn á flutningatækjum. Þess verða menn vel að gæta, eins og ég gat um við fyrri umr. þessa máls, að blanda ekki saman húsrannsókn og rannsókn flutningatækja. Hér er ekki um bannlög að ræða lengur, heldur lög, sem leyfa innflutning alls áfengis. Þar er talað um að geta löggæzlumönnum, lögreglumönnum og hreppstjórum svo mikið vald, að þeir megi fara í hús manna til rannsóknar. Það er rétt að gefa þeim heimild til að rannsaka flutningatæki; til þess er fullkomin ástæða, því með þeim er flutt áfengi á sölustaði, og mér finnst eðlilegt, að þeir hafi vald til þess á vegum úti. En hitt, að löggæzlumaður eða hreppstjóri megi, hvar sem hann er á vegi staddur, ryðjast inn í hús manna, það er að raska heimilisfriðnum meira en leyft er nokkursstaðar annarsstaðar í okkar löggjöf.

Eins og ég sagði áðan, að lögreglustjórar gætu verið misjafnir menn, þá gefur að skilja, að í öllum þeim urmul löggæzlumanna, lögreglu- og hreppstjóra sé misjafn sauður, sem sé ærið varhugavert að hleypa of langt, og finnst mér rétt að láta sömu lög gilda hér um eins og annað. Það hefir verið vitnað í lögregluþjónana hér í Rvík, að þeir framkvæmdu húsrannsóknir; það hefir verið upplýst af hæstv. dómsmrh., eins og vænta mátti, að það er ekki rétt, að þeir geri það upp á eigin býti, heldur aðeins eftir úrskurði lögreglustjóra. Ég ætla, að með brtt. sé átt við, að þessir menn geti hlaupið eftir lauslegum grun eða kviksögum og gert húsrannsókn, er þeim býður svo við að horfa. Þetta má ekki eiga sér stað. Hvað er þá orðið um heimilishelgina, ef hver óbreyttur löggæzlumaður má vaða inn á heimili manna, er honum býður svo við að horfa? Þetta er það, sem hv. 9. landsk. mundi kalla — ef hann hneykslast ekki — skott á löggjöfinni, og ég vildi mælast til þess, að flm. taki þessa till. aftur, þó ég voni, að hún fái ekki byr hér á Alþ., jafnvel ekki eins og það nú er skipað. Það er margt, sem orkar tvímælis. hvort leyfa skal eða ekki leyfa, en það má í engu brjóta sjálft höfuðprincipið í refsilöggjöfinni. Eins og mönnum er kunnugt, hefir áraugurinn af áfengislögunum ekki orðið eins ríkur og menn hafa óskað og ætlazt hefir verið til, því eftir því, sem hert hefir verið á refsiákvæðunum, hafa menn gerzt ósvinnari um að brjóta þau og brotunum hefir fjölgað. En menn mega ekki þar fyrir láta leiðast til að fara inn í þau helgu vé, sem hingað til hafa verið friðhelg. — Loks skal ég geta þess, að ég er því ekki sammála, að stórtemplar sé skyldugur til að vera umboðsmaður eða ráðgjafi ráðh., og það er ekki hægt að skylda hann til þess, en tel að formenn áfengisvarnanefnda geti verið ráðunautar hans, hver á sínum stað. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar, en býst við, að senn liði að því, að menn fái að greiða atkv., því brtt. eru margar.