10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég get ekki tekið undir það, sem fram hefir komið hjá tveim hv. ræðumönnum, sem síðast töluðu. Hv. þm. V.-Húnv. getur, skilst mér, mjög vel gefið slíka yfirlýsingu sem þessa, þar sem hann bar ekki fram sína brtt. fyrr en eftir að n. var búin að ganga frá þessu máli, og þess vegna er hans brtt. útilokuð frá því að koma til atkvgr. við þessa umr. Öðru máli er að gegna um okkur, sem bárum fram brtt. í tæka tíð, til þess að þær gætu komið hér til atkv., og höfum nú verið allt of hart og grátt leiknir af n., t. d. eins og ég, sem aðeins hefi fengið tekna upp eina brtt., hina minnstu af þeim, sem ég bar fram. Hinum leggur n. á móti.

Mér finnst hér verið að taka upp nýja aðferð um afgreiðslu mála, þar sem draga á fjölda af brtt. frá því að geta komið til atkvgr. við þessa umr. Þessi aðferð man ég ekki eftir að nokkurn tíma hafi verið viðhöfð hér á þingi í meðferð símamála. Það hefir, að ég held, verið undantekningarlaus venja, að þær brtt., sem komið hafa í tæka tíð fram við umr., hafa verið látnar koma til atkv. Það getur vel verið, að samgmn. sé svo liðsterk í þessu máli, að þær till. okkar, sem ekki hafa fundið náð fyrir augum hennar, séu dauðadæmdar við þessa umr., og þess vegna komi það í raun og veru út á eitt, hvort brtt. okkar verða bornar nú upp undir atkv. eða ekki. Ég veit ekkert um það, hvort svo muni vera, en algengt er, að þótt n. hafi tekið afstöðu til einhvers máls, þá þarf það ekki endilega að vera sú endanlega afstaða, sem fæst við atkvgr., nefnilega að atkvgr. fari alveg eftir vilja meiri hl. n. við næstu atkvgr. eftir að n. hefir skilað áliti. Ég þarf þess vegna að fá frekari skýringu á því, hvernig á því stendur, að hér á að fara að breyta út af fastri venju í gangi mála nú við þessa umr.

Ég heyri, að hæstv. forseti segir, að ég tali af misskilningi í þessu efni, sem hann ætli að leiðrétta. En undanfarið hefir mér virzt, að þær brtt., sem ekki eru teknar aftur, hafi verið látnar ganga undir atkv. Það virðist því meiningin, að hv. frsm. samgmn. ætli algerlega að spara sér að gera nú grein fyrir því, af hverju það er, að n. leggur til, að nokkrar af þessum brtt. verði samþ., og í hverju það liggur, að n. leggur á móti öðrum till. Hv. frsm. kom ekki inn á þetta atriði nú í sinni framsöguræðu.