22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

77. mál, áfengislög

Gunnar Thoroddsen:

Hæstv. fjmrh. tók til máls í gær og andmælti till. okkar hv. 8. landsk. Hann lét svo um mælt, hvort við flm. hefðum athugað, hver álagningin yrði í einstökum tilfellum eftir till. okkar. Ég skal fyrst geta þess, að í till. okkar er gert ráð fyrir 25–100%. svo segja má, að gefnar séu rúmar hendur um álagninguna. Ég skal upplýsa, hvaða verð mundi verða á ýmsum víntegundum með þessari álagningu, og miða ég þá innkaupsverð vínanna við það verð, sem gefið er upp í nýútkomnum verzlunarskýrslum fyrir árið 1932.

Fyrst er þá vínandi, sem samkv. nefndum skýrslum kostaði 0,75 kr. pr. lítra, tollur er kr. 6,25, samtals kr. 7,00, og með 100% álagningu kr. 14,00. Nú selur áfengisverzl. ríkisins lítrann á kr. 9,60. Ég skal ennfremur upplýsa, að kognak kostar — samkv. sömu skýrslum — kr. 3,25 lítrinn, tollurinn er kr. 5,00. Eftir okkar till. mætti því selja lítrann á kr. 16,44, en er seldur nú á 8–10 kr. flaskan. Whisky kostar ca. kr. 3,50 l. í innkaupi, tollur er 5,00 kr.; eftir brtt. okkar mætti selja flöskuna á kr. 17,00. Ef við snúum okkur að Spánarvínunum eða léttu vínunum, þá kostar t. d. sherry í innkaupi kr. 2,40 l., tollur er kr. 2,50, og mætti því selja það á kr. 9,80, en söluverð er nú 7–8 kr. Hvítvín kostar kr. 3,37 lítrinn, en tollur er 1,25, og mætti skv. till. okkar selja það á 9,24 kr., en er nú selt í áfengisverzluninni á 5–6 kr. Ég bendi á þetta til að sýna verðlagið, sem nú er, og það verðlag, sem mætti verða samkv. okkar till. Það virðist ekki vera hlægilega lágt, eins og hæstv. ráðh. sagði, nema hann vilji halda því fram, að það sé hlægilega lág álagning að selja á 14–15 kr. lítrann af vínanda, sem kostar kr. 0,75 í innkaupi.

Ég tel þetta nægilegt til að sýna, hvort álagning sú eða verð, sem ákveða má á vinunum samkv. okkar till., sé hlægilega lágt.

Þá talaði hæstv. ráðh. af vandlætingu um, að við legðum fram till. án þess að gera okkur grein fyrir, til hvers þær mundu leiða fyrir ríkissjóð. Það situr nú sízt á hæstv. ráðh. að tala um það, sem sjálfur hefir lagt fram fjölda frv. til tekjuauka án þess að hafa getað gert nokkra grein fyrir, hverju þær tekjur mundu nema.

Jafnframt taldi hann óeðlilegt að setja hámarksálagningu á þessa vöru. Ég skil ekki, hvað er óeðlilegt við það. Til samanburðar má geta þess, að nú er ákveðin hámarksálagning t. d. á tóbak. 75%, og úr því að sett er hámarksverð á munaðarvöru eins og tóbak, þá held ég, að ekki sé úr vegi að setja svipuð ákvæði um áfengið.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að það hefði engin áhrif á smyglun og bruggun að selja vínin við vægu verði. Ég þarf ekki að svara þessu, því að hv. þm. V.-Sk. hefir þegar gert það. Það er flestum ljóst, að því hærra verð, sem er á vínunum, því meiri tilhneigingu hafa menn til þess að brugga áfengi og smygla því inn í landið.

Þá vék hæstv. ráðh. að þeim rökum mínum, að það væri jafnvel brotið í bága við stjskr. að hafa enga hámarksálagningu í lögunum um vín. Í 35. gr. stjskr. stendur, að engan skatt megi leggja á, nema með lögum. Þar sem talað er um skatt, er átt við opinber gjöld, og þá einnig tolla. Ég hefi haldið því fram, að álagning ríkisins með einkasölu vörutegunda væri í rauninni sama og tollur. Þessi álagning á fyrst og fremst að renna í sama sjóð og tollgreiðslan, og er auk þess miðuð, eins og hún, við þá vörutegund, sem um er að ræða. Þegar ríkið einokar einhverja vöru, liggur því nærri að telja, að skylt sé að ákveða í lögum, hve álagningin megi vera há, eins og gert er um skatta og tolla. Með þessu ákvæði stjskr., að ekki megi leggja skatt á menn nema með lögum, er verið að tryggja Alþ. þetta vald, sem ríkisstj. getur ekki hrifsað úr höndum þess. Þess vegna er nauðsynlegt að ákveða hámark fyrir álagninguna.

Með því að setja upp ríkiseinokun á mörgum vörutegundum, án þess að álagningin sé ákveðin, er hægt að fara í kringum þetta ákvæði stjskr. Þá getur stj. hagað álagningunni eftir eigin vild og tekið þessa skatta af mönnum án þess að spyrja þingið.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé allt öðru máli að gegna um álagning vörutegundar og um skatta, því að enginn sé skyldugur til þess að kaupa þessa vöru. En það er alveg sama að segja um álagninguna og tollinn. Það er heldur enginn skyldugur til þess að kaupa tollaðar vörur.

Ég hefi nú svarað rökum hæstv. fjmrh. gegn þessari till. Deilan út af þessari till. stendur um tvennt. Annarsvegar um það, hvort eigi að ákveða verðlag á vínið, þegar bannið verður afnumið, svo hátt, að smyglun haldi áfram. Ég tel tvímælalaust rétt að ákveða verðlagið með tilliti til útrýmingar á smyglun.

Hitt atriðið er það, hvort hv. Alþ. ætlar að afsala sér réttinum til þess að ákveða skattaálagninguna.