22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

77. mál, áfengislög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Út af deilu hv. 11. landsk. og hæstv. fjmrh. um brennivínið verð ég að segja það, að ef brennivínið á aðeins að vera sprittblanda ein, þá er ég hræddur um, að landsmenn verði fyrir nokkrum vonbrigðum, a. m. k. þeir, sem gert hafa sér von um að fá þá vöru eins og hún er framleidd í verksmiðjum. En eigi að búa þessa vöru til hér, svo að hún geti jafnazt á við þá vöru, sem venjulega er átt við þegar talað er um þessa vöru, þá fyndist mér ekkert undarlegt, þó að verðið komist upp úr 6 kr. á flösku.

Annars var það ekki þetta, sem gaf mér tilefni til að standa upp, heldur voru það ummæli hv. þm. Vestm. í gær um brtt. mína á þskj. 468, um að fella niður síðari málsgr. 2. gr. frv. Hann fann ástæðu til þess, hv. þm., að brýna það fyrir dm., að undanþága sú, sem veitt er erlendum sendiræðismönnum um að flytja inn áfenga drykki, væri aldrei misnotuð af þeim. Út af þessum ummælum vil ég taka það fram, að mér kemur ekki neitt slíkt til hugar, og það var ekki sú ástæða, sem kom mér til að flytja brtt. þessa, jafnvel þó að það hafi komið fyrir, að þessi aðstaða hinna erlendu þjóðfulltrúa hafi verið misnotuð, enda þótt það hafi ekki verið gert af þeim sjálfum.

Mér virtist alleinkennilegur sá skoðanamismunur, sem kom fram á milli hv. þm. V.-Ísf. og hæstv. forsrh. Hv. þm. V.-Ísf. sló því föstu, að sendimenn erlendra ríkja hefðu rétt til þess að flytja inn tollskyldar vörur án þess að greiða toll af þeim. Í þessari deilu þeirra virtist mér hæstv. ráðh. hafa á réttu að standa, og þær upplýsingar, sem ég hefi aflað mér um þetta síðan, styrkja þá skoðun mína. Það, sem því hér er um að ræða, er það, hvort eigi að veita hinum erlendu sendimönnum þessi fríðindi með þessum lögum. Ég sé enga ástæðu til þess, að það sé gert. En sé það aftur á móti rétt, sem hv. þm. V.-Ísf. heldur fram, að þeir hafi þennan rétt samkv. alþjóðalögum, þá gerir ekkert til, þó að þetta ákvæði sé fellt úr frv., þeir halda sínum rétti í þessum efnum eftir sem áður. Ég vænti því, að hv. dm. geti fallizt á, að rétt sé að samþ. þessa brtt.