22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal vera fáorður og ekki lengja umr. mikið úr þessu. Ég vil aðeins út af því, sem hv. þm. Borgf. hefir haldið fram, að með þessum lögum mætti heimila löggæzlumönnum að framkvæma húsrannsókn án dómsúrskurðar, segja nokkur orð. Ég hefi tvisvar áður hér í þessari hv. þd. fært fram svo sterk rök fyrir mínu áliti, og gegn þessu atriði í brtt. hv. þm. Borgf., að ég býst ekki við, að þörf sé á að endurtaka þau fyrir þeim, sem á annað borð vilja taka nokkuð til greina rök í þessu máli. Ég vil þó aðeins benda á það, að hv. þm. Borgf. hefir nú orðað um fyrri brtt. sína við 16. gr., og með því hefir hann viðurkennt, að það hafi verið gersamlega óhæfilegt að selja hana inn í þessi lög. Að ætlast til þess, að löggjafarvaldið fái hinum og öðrum löggæzlumönnum óskorað vald til þess að framkvæma húsrannsókn á heimilum, jafnvel án þess að nokkur grunur hvíli á þeim, það er svo mikil óhæfa, að slík till. ætti alls ekki að ræðast, hvað þá koma til atkv. á Alþingi. (PO: Það er nú búið að bæta úr því og breyta till.). En lögin verða ekki bætt með því, ef þessari breyt. verður smeygt inn í þau. Ég vil bara spyrja hv. þingheim, hvernig hann hugsar sér að beita þessari húsrannsóknarheimild, ef það á að innleiða hana yfirleitt í almenna löggjöf? Áfengislögin eru tollalög, samkv. þeim á að greiða tolla í ríkissjóð af því áfengi, sem leyfður er innflutningur á. Ef þessi áfengislög verða brotin, þá verður það að teljast tolllagabrot. Hvers vegna á að geta löggæzlumönnum vald til þess að framkvæma húsrannsókn án dómsúrskurðar, aðeins samkv. þessum lögum, en ekki þó að framin séu brot á öðrum tolllögum, og meira að segja, þegar löggjafarvaldið hefir ekki treyst sér til að veita lagaheimild um húsrannsókn án dómsúrskurðar, þó að um stórglæpi sé að ræða. Hvers vegna á að setja slíka heimild í þessi lög, en engin önnur, og brjóta þannig þá reglu, sem fylgt hefir verið til þessa samkv. 61. gr. stjskr.?

Ég sagði ekki í minni fyrri ræðu, að það væri brot á stjskr. að fleyga þetta ákvæði inn í frv., heldur sagði ég, að það hyggi nærri þeirri lýðræðisreglu, sem tryggð væri með 61. gr. stjskr. En sú gr. er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilið er friðheilagt. Ekki má gera húsleit, né kyrrsetja bréf og önnur skjöl og rannsaka þau, nema eftir, dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild“. Það veit hver maður, sem þekkir uppruna þessa stjskr.ákvæðis, að með þessum orðum: „eða eftir sérstakri lagaheimild“, er ekki átt við almenna lagaheimild, heldur lög, sem taka yfirleitt ekki til heimila. Því að til hvers væri að ákveða heimilunum þennan rétt í stjskr., ef það mætti svo taka hann aftur með einföldum, almennum lögum, eins og hv. þm. Borgf. hyggst að gera með þessari brtt.? Það er a. m. k. mjög hæpin lagaskýring, að telja slíkt leyfilegt. Ég hygg, að það hafi ekki verið of djúpt tekið í árinni hjá mér, þegar ég sagði, að með þessari brtt. væri höggið mjög nærri ákvæði stjskr.; ég vil nú kveða fastar að orði og halda því fram, að hún sé brot á anda stjskr., sem kveður svo á, að heimilið sé friðheilagt.

Ég býst ekki við, að þeir verði margir í þessari hv. þd., sem greiða atkv. með því, að heimiluð verði skilyrðislaus húsrannsókn fyrir brot á tolllögum, þegar löggjafinn hefir hingað til ekki treyst sér til að heimila það, þó að um stórglæpi hafi verið að ræða. — Hitt væri eðlilegra, annaðhvort að nema þetta ákvæði úr stjskr., eða að heimila slíka húsrannsókn almenn: með sérstökum lögum, því alltaf má búazt við, að óeðlilega ströng refsiákvæði geri lögin óvinsæl og spilli stórum fyrir framkvæmd þeirra.

Í stórfelldasta glæpamáli, er ég hefi sem lögreglustjóri haft með höndum til rannsóknar, beið ég í sólarhring eftir að sterkar líkur voru komnar fram í málinu og vakti heila nótt með allri lögreglunni til þess að fá fullkomnari sönnunargögn í hendur, gegn þeim manni, sem grunur hafði fallið á, áður en ég lét snerta við honum. Og þó hafði maðurinn framið þann stærsta glæp, sem komið hefir fyrir í þessum bæ. En ef þessi maður hefði nú ekki reynzt brotlegur, átti lögreglan þá að láta fara fram rannsókn í hverju húsi í bænum?

Hvaða vit er svo í því, að ætla að innleiða þetta ákvæði um húsrannsókn í tollalög? Ég sé ekkert réttlæti og enga skynsemi í því. Þessu ákvæði 61. gr. stjskr. um friðhelgi heimilisins hefir aldrei verið raskað, nema að litlu leyti í sambandi við framkvæmd áfengisbannslaganna eins og þau voru, en að gera till. um að raska því að fullu eftir að búið er að breyta þeim lögum í tollalög að mestu, það er fyrst og fremst alveg þarflaust, og nær raunar engri átt, fyrst löggjafarvaldið hefir ekki treyst sér til að gera það áður, þegar meira hefir legið við. — Nú má enginn lögreglustjóri gera húsrannsókn nema eftir dómsúrskurði.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði lagt óvenjulega mikið á mig til að sporna við því, að þessu ákvæði, sem felst í brtt. hans, yrði komið inn í áfengislögin. Það er satt. Ég hefi sagt alveg eins og mér finnst. Það skiptir miklu máli, að þessu ákvæði verði ekki smeygt inn í almenn einföld lög. Ég mundi telja það til stórlýta, og þess vegna legg ég það á mig að hrinda því með rökum. Tel ég mig nú hafa gert því full skil.

Það voru einnig nokkur smáatriði í ræðu hv. þm., sem ég hafði hugsað mér að gera aths. við, um sjálfkjör stórtemplars til þess að vera ráðunautur í áfengismálum o. fl., en ég hefi andmælt þeim áður og fært fullkomin rök fyrir mínu máli, sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka.