22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

77. mál, áfengislög

Finnur Jónsson:

Ég hefi ekki tekið þátt í þessum umr. En mér finnst, að það hafi lítið komið fram um það í umr., hvort þjóðaratkvæðagreiðslan, sem fór fram um bannlögin á síðastl. ári, hafi gefið fullkomið tilefni til þess, að þetta frv. er fram komið á Alþingi; en það er aðalatriðið í forsögu þessa máls, sem ástæða er til að rökræða. Annars lítur út fyrir, að bannmenn séu yfirleitt búnir að gefa upp sín stefnumið í þessum áfengismálum, en að andbanningar hafi framfylgt sinni stefnu til fullkomins sigurs, og að hér á landi eigi eftirleiðis að vera allskonar vín á boðstólum eftir þeirra óskum. Ég lít svo á, að þjóðaratkvgr. hafi ekki gefið tilefni til slíkrar lagasetningar, sem hér er í uppsiglingu á Alþingi, þar sem 14 af 27 kjördæmum landsins sögðu nei við afnámi bannlaganna, og í fimm af þessum 13 kjördæmum, sem greiddu atkv. á móti bannlögunum, var aðeins 103 atkv. meiri hl. samtals. Það eru því ekki nema 8 kjördæmi á landinu, sem hafa verulegan meiri hl. með afnámi bannlaganna. Og fer því fjarri, að þessi atkvgr. sýni rétta mynd af vilja þjóðarinnar í þessu máli. Þeir hv. þm., sem sérstaklega halda fram rétti kjördæmanna, ættu að athuga þennan samanburð.

Nú má ef til vili segja, að nokkuð sé gengið á móti hinum einstöku héruðum í þessu efni, þar sem gert er ráð fyrir, að íbúar einstakra héraða og bæjarfélaga greiði atkv. um það, hvort stofnað verði þar til útsölu á áfengi, og að þau geti þannig ráðið því sjálf. En frá þessu er allveruleg undantekning í frv., þar sem lögákveðið er, að áfengissala verði í öllum kaupstöðum landsins, nema Neskaupstað í Norðfirði. Hinum kaupstöðunum er öllum gert að skyldu að taka við sterku drykkjunum, á móti vilja meiri hl. í flestum þeirra, ofan á Spánarvínin, sem þeir mótmæltu líka á sínum tíma. Nú er hér brtt. á þskj. 502, frá hv. þm. Borgf., þar sem lagt er til, að kjósendum í þeim kaupstöðum, sem nú hafa áfengisútsölur, skuli veittur sjálfsákvörðunarréttur, eins og öðrum sveitarfélögum, til þess með atkvgr. að samþ. eða hafna því, að þar verði bætt við útsölu á sterkum vínum. Ég vil mæla með því, að þessi till. verði samþ., enda sé ég ekki, að hv. þd. geti sóma síns vegna neitað kaupstöðunum um þennan ákvörðunarrétt, sem aðeins sveitarfélögum og kauptúnum er veittur í frv., að viðbættum einum kaupstað, Neskaupstað í Norðfirði. Ég fæ ekki séð, að þó Spánarvinunum væri áður þröngvað upp á kaupstaðina, þá þurfi endilega að þröngva sterku drykkjunum líka upp á þá, að þeim sárnauðugum. Hvaða réttlæti er í því?

Hæstv. forsrh. talaði mikið um þennan sjálfsákvörðunarrétt héraðanna við fyrstu umr. málsins, og lofaði mjög þann kost á þessu frv.; ég vænti því, að hann beiti áhrifum sínum til þess, að kaupstöðunum verði veittur þessi réttur í lögunum, áður en málið fer út úr þessari þd.