27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

77. mál, áfengislög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hafði frá öndverðu ákveðið að láta þetta mál ekki koma svo til 1. umr. í þessari hv. deild, að ég ekki lýsti skoðun minni á því.

Ég get ekki komizt hjá því að víkja nokkrum orðum að hæstv. dómsmrh. til að byrja með, sem mér skilst, að sé sá ráðh., sem tekið hefir á sínar herðar þá ábyrgð að leggja þetta frv. fyrir þingið, en sem ég veit ekki, hvort honum er ljúft að gera eða ekki. Ef marka má ummæli hans í útvarpinu um daginn, hljómaði það í mínum eyrum sem rök gegn því að málið kæmist fram. Öll hans ræða var rökstuðningur fyrir skaðsemi áfengra drykkja. Ég verð því að draga þá ályktun, að hann sé heldur á móti málinu, þótt hann gerist talsmaður þess hér á Alþingi. Ella er framkoma hans í málinu utan þings hreinn skollaleikur, sem ég á erfitt með að skilja, hvað hann meinar með. En ég vildi því fá hjá honum upplýsingar um, hvað það er, sem kemur honum til að leggja málið fyrir þetta þing, og að mér skilst fylgja því svo fast eftir, að það nái lögfestu á þessu þingi. Ég verð að segja, að eftir þeim kynnum, sem ég hefi haft af hæstv. dómsmrh. og stefna hans sem lögreglustjóra hér í bænum í áfengismálum yfirleitt, þá hefir hann markað hana í líka átt og okkar Alþýðuflokksmanna, með því að fylgja fram gildandi ákvæðum áfengislaganna, sem miða að því einu, að draga úr áfengisbölinu, sem er skaðsamlegt öllum, er þess neyta, og ekki sízt láglaunastéttunum, er allra sízt mega við því að verja fé sínu í áfengi. Sé hann nú sem ráðh. kominn á aðra skoðun, þá er það orðin mér hrein ráðgáta og um leið sorgleg vonbrigði í jafnþýðingarmiklu máli sem þessu, því mér skilst, að með þessu frv. sé hann að taka með annari hendinni það, sem hann hefir ætlað að gefa með hinni. Verði lögleyfður innflutningur sterkra drykkja, þá er um leið dregið úr þeim umbótum, sem verið er að reyna að koma á fyrir hinar vinnandi stéttir í landinu. Á ég þar við þá baráttu, sem hafin hefir verið fyrir hærra kaupi, betri húsakynnum, tryggingum, sjúkra-, slysa-, elli- og atvinnuleysis. Það fjármagn, er fólkið öðlast fyrir tilverknað slíkrar löggjafar eða á annan hátt, sem það næst, á svo að taka aftur inn í ríkissjóðinn með sölu áfengra drykkja. Ég skil ekki slíkan hugsunarhátt hjá þeim mönnum, sem þykjast vilja vel í þjóðfélagsmálum; mér finnst þetta rekast hrapallega á. Undirbúningur þessa máls virðist hafa verið þannig, að kastað hafi verið til hans höndunum. Mér er sagt, og mun rétt vera, að ráðherrann hafi fengið glöggan lögfræðing til þess að semja þetta frv. En honum hefir nú ekki tekizt betur en það, að eftir meðferð málsins í Nd. stendur varla steinn yfir steini af hinu upprunalega frv. Það vantaði sem sé allt, sem til öryggis gæti talizt um meðferð og sölu áfengis, sem hver sæmilega hugsandi þm. tali sjálfsagt, að stæði í frv. Enda var ekki við góðu að búast, því að mér er vel kunnugt um, að þeir menn, sem vilja draga úr áfengisbölinu eins og hægt er, fengu þarna ekki nærri að koma við samningu frv. Ég á hér við fulltrúa góðtemplara í framkvæmdarnefnd stórstúku Íslands. Þessu þýðir ekkert að mótmæla, því ég hefi sannanir í höndum fyrir þessu frá þeim manni, sem ákveðinn var sem fulltrúi stórstúkunnar, og hann fullyrðir, að hann hafi ekki fengið nærri að koma samningu þessa frv. Það lítur því svo út, sem hv. ráðh. hafi af ásettu ráði gengið framhjá þeim þúsundum karla og kvenna í landinu við undirbúning málsins, sem andstæðir eru víninnflutningi til landsins.

Þá ætla ég að drepa á, hver er hinn raunverulegi undirbúningur um að frv. er fram komið, og að meiri hl. Alþ. virðist ekki sjá sér annað „samboðið“ en að leyfa innflutning sterkra drykkja, eða allar tegundir áfengis, hverju nafni sem nefnast. Allt frá því að aðflutningsbannið var sett 1908, þá er það vitanlegt, að yfirstéttin í þessu landi hefir heimtað afnám þess. Fyrsti andróðurinn gegn banninu kom frá yfirstéttinni, þ. e. þeim mönnum, sem ráða fármagni landsins, og öðrum, sem nægilegt hafa handa á milli sér og sínum til lífsframfæris, að nokkrum örfáum heiðarlegum undantekningum. Og síðan hafa það verið aðalblöð yfirstéttarinnar, Mbl. og dilkar þess, sem hafa reynt að gera bannlögin tortryggileg og haldið því að þjóðinni, að þau væru skaðleg, jafnvel gengið svo langt að kenna mönnum að brugga áfengi sjálfir. Má því þangað leita að orsökunum fyrir þeirri bruggunarhreyfingu, sem orðin er og marir standa ráðalausir gegn. Þá hafa hin sömu blöð talið það mestu lífsnauðsyn að hafa sem mest áfengi til í landinu, og jafnvel gengið svo langt að ýta undir og verja smygl, að ógleymdri brugguninni, sem ég áðan minntist á, og ég gæti fært fram mörg dæmi þessu til sönnunar. Ég endurtek það, að Morgunbl. og dilkar þess eru feður að brugginu hér á landi, því að í þeim blöðum eru fyrst getnar upplýsingar um, hvernig brugga skuli. Aftur á móti eru blöð Alþfl. og blöð Framsfl. blöð frjálslyndra manna í landinu, sem hafa barizt móti áfenginu inn í landið, hafa varið bannstefnuna í lengstu lög, barizt gegn bruggi og smyglun og óleyfilegri sölu þess innanlands. En íhaldsöflin í landinu virðast nú ætla að sigra í þessu máli. Ég óska þeim mönnum úr andstöðuhópi íhaldsins til hamingju með stuðninginn þeim til handa. (MG: Eru ekki jafnaðarmenn meðflm. frv.?). Ég skal svara hv. þm. því, að það er talin sjálfsögð kurteisisskylda að flytja frv. þau, sem stj. fer fram á við nefndir að flytja. (MG: Hverjir greiddu atkv. móti frv.? Voru það jafnaðarmenn?). Engir þm. eins flokks eru jafnhvítir í Nd. af afskiptum sínum af þessu frv. og Alþýðufl.þm. Fulltrúar flokksins í allshn. Nd. unnu manna mest að því að umbæt, frv. og flestar till. þeirra voru samþ. Hafi þeir greitt atkv. með frv. að lokum, verða þeir sjálfir að svara fyrir það.

Þetta er í stórum dráttum undirbúningur málsins, auk þess sem ég kem síðar að, sem sé atkvgr. um bannlögin. En nú virðist Framsókn, sem áður var andvíg afnámi bannsins, vera runnin frá stefnu sinni í þessu máli og gengin beint í það Ginnungagap að flytja allt áfengi inn án nokkurra takmarkana. Það má segja, að nýir siðir koma með nýjum herrum, en ég tel þó vafasamt, að framsóknarmennirnir — ég meina þar kjósendur flokksins — séu fallnir frá fyrri stefnu sinni í bann- og áfengismálunum. Ég þykist vita, að eina vörn þeirra manna, sem flytja þetta frv., sé þjóða- atkvgr. Hv. 2. þm. S.-M. og hæstv. atvmrh. drápu á, hvað mikið er að marka þitt atkvgr. og þar með hjá hv. forsrh. ein af þeim rökum, sem tala móti þessu frv. hans. Ég vil minna á hverjir það voru, sem unnu af lífi og sál að því, að flest yrðu jáin. (BSt: Unnu ekki templarar?). Því miður unnu þeir ekki eins og þurfti, og var það sökum fjárskorts. Þeir höfðu ekki nægilegt fé til umráð, til að vinna gegn auðmagninu, sem stóð bak við andbanninga. Það sýndi sig, hvar þeirra byr var mestur, sem sé hér í Rvík, þar sem íhaldið og auðmagnið er mest. Hér höfðu þeir 70–80 bíla í gangi til að smala saman fólki, sem búið var að berja inn í þá skoðun, að afnema þyrfti bannið. Templarar höfðu engin tök á slíku. Raunin varð líka sú, að það varð Rvík, sem réð, hún gerði mismuninn. Erlent áfengisauðmagn og hjálparlið þeirra hér heima sigraði. Þess minni ástæða er fyrir þá menn, sem skoða sig sem fulltrúa hinna dreifðu byggða, að hlaupa eftir þessari atkvgr., sem íhaldið og auðmagnið í Reykjavík réð úrslitum á. Ég býst við, að í hverju öðru máli en áfengismálinu hefðu fulltrúar Framsfl. sagt, að ekki væri takandi til greina sú atkvgr., sem kjósendur í sveitum landsins sýndu sig andvíga með miklum meiri hl. Mér þykir dálítið undarlegt, að hæstv. dómsmrh. skuli taka þennan meiri hl. til greina, eins og hann er fenginn, og skoða sig skyldan til að fara eftir honum. Ég mundi hafa gaman af að sjá, í hvaða máli öðru hann mundi gera það. Ég fyrir mitt leyti lít ekki eingöngu á þetta mál sem þjóðhags- og siðferðismál; sem jafnaðarmaður skoða ég áfengismálið sem stórt mál í þróun og þroska verkalýðsins og fjárhagslegri aðstöðu hans. Ég lít svo á, að hvergi sé hættan meiri en í lægst launuðu stéttunum, er versta eiga aðstöðuna og vantar flest af lífsins gæðum. Þeim hættir mest við að leitast við að svæfa sorgir sínar í áfengisnautn og eyða fé og fjörvi frá lífsins nauðsynlegustu þörfum. Ég er ekki einn um þessa skoðun; hún er uppi og viðurkennd um allan hinn menntaða heim, og jafnaðarmenn vinna alstaðar gegn áfengisbölinu með aðferðum, sem hentugastar þykja í hverju landi. Ég skal viðurkenna það, að fæstar þjóðir hafa séð sér fært að útrýma áfengi algerlega. Vegna hvers? Vegna þess, að þar er um stóran atvinnurekstur að ræða, sem þjóðirnar sjá sér ekki fært að kippa burtu eins og sakir standa. Út frá þessu sjónarmiði lít ég á málið sem eitt hið mesta menningarmál þjóðanna, og þá fyrst og fremst hinna vinnandi stétta, og tel, að ekki sé hægt að gera verkamönnum meiri ógreiða en þann, að hleypa öllum tegundum áfengis inn í landið án nokkurra takmarkana. Því með því er verið að setja hina menningarlegu þróun nokkur stig aftur á bak, það er verið að gera marga einstaklinga að vesalingum og jafnvel glæpamönnum innan þjóðfélagsins, og aðra að máttarminni eða veikari stoðum í uppbyggingu þjóðfélagsins. Út frá þessu sjónarmiði er það, að ég sem jafnaðarmaður tel mér skylt að reyna að bægja voðanum frá þeim stéttum, sem ég er fyrst og fremst fulltrúi fyrir og vil hefja upp til meiri vegs og virðingar innan þjóðfélagsins. Og þessi stefna fer eins og eldur í sínu um alla verkamannaflokkana, t. d. hér á Norðurlöndum og víðar. Þeir mynda félagsskap til að vinna að bindindismálum meðal allra stétta í þjóðfélaginu, og uppfræða fólkið sem gleggst um skaðsemi áfengis á menningarlega og efnalega afkomu þeirra. Þegar aðrar þjóðir sækja fram í þessum efnum, þá eru leiðandi menn okkar þjóðfélags að stíga skrefið aftur á bak. Og það sorglega er, að það eru yngri mennirnir, sem það gera.

Nú er önnur spurning, sem ég býst við, að hafi nú vaknað upp fyrir mörgum manninum: „Hver er okkar reynsla af því, hvort Íslendingar kunna að fara með áfenga drykki?“ Ég hefi nú lifað full 50 ár. Ég hefi lifað upp þann tíma, meðan nóg áfengi var á boðstólum, og líka þann tíma, þegar það var takmarkað, sem við þekkjum öll, að var aðeins fólgið í því að banna sterkari vín. Einnig þá tíma, þegar ekkert áfengi var fáanlegt. Samanburð á ástandinu á þessum tímum er vel hægt að gera, og hefir verið gert af öðrum en mér. Mér dettur ekki í hug að neita því, að núv. ástand sé — því miður — verra en það ætti að vera, en ástandið var þó ennþá verra á þeim tímum, er frjáls innflutningur var leyfður, allt þangað til bannið komst á, og ástandið verður ennþá verra en það, sem við búum við nú, þegar sterku vinunum verður hleypt inn aftur. Ég hefi þá skoðun á þjóðareðli okkar Íslendinga, að okkur muni seint lærast að fara með vín að síðaðra manna hætti og nota það í hófi, eins og sumar aðrar þjóðir eru sagðar að gera. Annars legg ég lítið upp úr þessari hófsemdarkenningu, sem sumir menn hafa svo mikið á orði og telja fólki trú um, að sé eitthvert lífsins balsam gegn kenningum bindindis- og bannmanna. Ég minnist orða eins íslenzks stjórnmálamanns, sem nú er látinn, og það eftirtektarverða var, að hann var andbanningur. Hann sagði eitt sinn við mig: „Ég hefi ekki trú á því, að Íslendingar kunni nokkurntíma með vín að fara. Það er of mikið af þessu grófa víkingseðli í þeim til þess að þeir geti haft þá „gentle“-mennsku, sem aðrar þjóðir hafa til að bera í meðferð víns.“ Og það er ef til vill mikill sannleikur í þessum orðum þessa látna stjórnmálamanns. Vínið verkur yfirleitt svo á okkur Íslendinga, að við verðum æstari og grófari í framgöngu og gleymum að viðhafa þá háttprýði, sem yfirleitt er óölvuðum, sæmilega siðuðum mönnum eiginleg. Við eyðileggjum fyrir okkur skemmtanir okkar og ef til vill heimilisfriðinn, svo að ég ekki nefni það, þegar við jafnvel spillum eða jafnvel eyðileggjum heilsu okkar og alla gæfu. Við höfum yfirleitt þá sorglegu sögu að segja, að það sé eins og allt önnur þjóð, sem byggir þá staði, þar sem vín er mjög haft um hönd, eða þar, sem þess er alls ekki neytt. Ef til vill má segja svipað um aðrar þjóðir, en ég hygg þó, að djúpið sé þó minna þar en hjá okkur, hvað sem veldur.

Þá get ég ekki látið hjá líða að minnast á það, þó að hv. 2. þm. S.-M. tæki það að nokkru leyti fram í sinni ræðu, að það er sorgleg reynsla, að á þessum tímum, sem við nú lifum á, þegar við verðum að gera ýmsar ráðstafanir til þess að tryggja okkur það, að við getum keypt lífsnauðsynjar okkar frá öðrum löndum, þá skuli vera til nógur gjaldeyrir til að kaupa fyrir sterk vínföng til að gera okkur að hálfgerðum skepnum í mörgum tilfellum. Þetta er sorglegt tákn þeirra tíma, sem við lifum á. Það virðist svo, að sumir áliti það einskonar kreppuráðstöfun, að gera slíka ráðstöfun sem þessa. Ég get ekki skilið þá menn, og ég veit ekki, hvernig menn geta varið það á tímum eins og þessum, að það eigi að verða almenningi til bjargar að fara nú að flytja inn sterk vín.

Er þetta þá í raun og veru rétt frá sjónarmiði þeirra manna, sem líta á þetta sem tekjuöflun fyrir ríkið? Þetta er auðvitað órannsakað mál. En ég lít svo á, að svo muni fara, að við innflutning sterkra vína muni sala veikari vina minnka að miklum mun. Ég byggi það á þeirri reynslu, sem ég hefi yfirleitt á mönnum í þessum málum, að þetta muni verða tvíeggjað sem tekjuauki fyrir ríkissjóð. Því að eins og hefir verið bent á, þá þarf miklu minna af sterku drykkjunum, til þess að menn verði ölvaðir, heldur en af þeim veiku vínum. (BSt: Eru sterk vín ekki drukkin nú?). Ég veit, að hv. þm. á við smygl. En hv. 2. þm. S.-M. benti á það með rökum, að það eru engar líkur til, að smygl minnki. þó að sterk vín verði flutt inn á löglegan hátt, því að þegar vínin eru til, er ekki gott að dæma um, hvernig þau eru flutt inn, jafnvel þó að stimpill áfengisverzlunarinnar sé á flöskunum, því að það er ekkert annað en að hella úr „bokkunum“ af hinu smyglaða víni á þær merktu flöskur áfengisverzlunarinnar — og hver getur svo dæmt um, hvaðan vínið er fengið?

En viðvíkjandi brugginu er það að segja, að það er enginn vafi, að sú stefna er uppi í þinginu að hafa talsvert hátt verð á víninu. Það hefir þær afleiðingar, að bruggararnir geta framleitt ódýrara vín í landinu sjálfu, og það vín drekka menn svo sumpart eins og það kemur fyrir, og sumpart blandað með kjarnbetri vínum, sem seld eru á löglegan hátt. Ég hefi heyrt fjölda manna tala um það, að ef koníak eða romm væri haft saman við landann, þá væri hann góður, og það er enginn vafi, að menn geta drýgt mjöðinn verulega á þann hátt. Það eru því engin líkindi til, að bruggið minnki við innflutning sterku vínanna. Ástæðan til þess, að menn brugga, er líka sú, að mönnum hefir verið kennt þetta, eins og ég hefi áður minnzt á, og síðan freistast margir menn til að reyna að afla sér tekna á þennan ólöglega hátt, og sú tilhneiging verður alveg eins hjá mönnum, þó að leyfður verði innflutningur á sterkum vínum. Atvinnukreppan hefir rekið margan manninn út í bruggunina, og meðan henni linnir ekki, er mjög hætt við að sama verði uppi á teningnum áfram.

Um smyglið er það kunnugt, að það verður ekki unnt að taka fyrir það, því að það er ómögulegt að hafa nægilega sterkt eftirlit á allri okkar löngu og vogskornu strönd og þeim mörgu skipum, sem þangað koma og ýmist hafna sig eða hafna sig ekki. Það mundi útheimta svo mikla tollgæzlu, að við værum þess ekki megnugir að halda henni uppi, vegna kostnaðar. Og hver er þá reynsla annara þjóða í þessum efnum? Hvernig er það í Finnlandi, Noregi eða jafnvel í Danmörku? Hefir smygluninni verið útrýmt þar? Nei, smygl hefir ekki minnkað þar, þó að leyft sé að flytja inn sterk vín, — síður en svo. Þar er víninu smyglað inn og selt með góðum árangri. Vínandi mun ekki dýr í innkaupi hjá þeim þjóðum, sem framleiða hann í stórum stíl. Þær þjóðir, sem hafa leyft innflutning sterkra vína, eiga því í harðri baráttu við smyglarana, og samskonar baráttu eigum við fyrir höndum, ekkert síður þó að bannið verði nú afnumið heldur en áður.

Þá vil ég beina því til hæstv. dómsmrh., sem hafði á hendi lögreglustjórn og dómgæzlu hér í Reykjavík, að það er ekki gleðileg tilhugsun fyrir hann að hafa stuðlað að því, að hér aukist lögbrot og verði kannske að taka harðari tökum á þessu en nokkurntíma áður, m. ö. o. að skapa sér sem embættismanni ríkisins mikla örðugleika og vandkvæði út af þessu eina máli. Ég veit ekki, hvað hann kann að hugsa, en ég hygg, að margur mundi hugsa til þess með sorgblandinni meðaumkun, þeir, sem vilja honum vel, að einmitt hann skyldi verða til þess að skapa meiri örðugleika og lögbrot hjá sinni eigin þjóð en nokkurntíma hefir áður verið. Hinir, sem vilja hann feigan á pólitískri braut sinni, telja hann þess vel umkominn og vel maklegan ávaxtanna af starfi sínu. Þessum mönnum hefir nú hæstv. ráðh. rétt hendina í þessu máli.

Ég hefi nú í stórum dráttum lýst minni skoðun, hvers vegna ég er á móti þessu frv. Ein ástæðan er þó enn, sem ég vil nefna. Ég hefi alltaf lifað með þá veiku von í brjósti, að þjóðfélag vort ætti eftir að lifa þá tíma, og það ekki innan langs tíma, að því mætti auðnast að losna við léttu vínin og þar með öll vín úr landinu. Mér er ljóst, að eins og nú er högum okkar háttað við þá þjóð, sem við höfum mest viðskipti við, þ. e. Spánverja, þá eru nú engar líkur til, að svo geti orðið fyrst um sinn. En möguleikarnir til að losna við léttu vínin aukast ekki með því að auka innflutning sterku vínanna. M. ö. o., ef Íslendingar nú leyfa innflutning sterkra vína, þá seinkar það fyrir því, að þeir geti losnað við vín yfirleitt. Ég er svo bjartsýnn, að ég trúi því, að mannkyninu muni einhverntíma takast að losa sig undan bölvun áfengisins, og það er í nánu samræmi við skoðun hinna nýju tíma. En ef hæstv. dómsmrh. er með þessari stjórnarathöfn sinni að hefta okkur á þeirri braut, þá tel ég miður farið og tel hann hafa stigið stórt ógæfuspor.

Þá vil ég nefna eitt atriði enn, sem er ekki hvað þýðingarminnst, og það er það, að unga kynslóðin hefir lítið haft að segja af bölvun áfengisnautnarinnar og er því ekki fullkomlega vitandi vits um það tjón, er áfengisnautnin veldur bæði andlega og líkamlega. Hún varð þess valdandi, sérstaklega í kaupstöðum landsins, að þessi litli meiri hl. kom fram við atkvgr. Við, sem tilheyrum eldri kynslóðinni, vissum, hvað það var að biðja um sterk vín. Við þekktum bölvun áfengisnautnarinnar. Ungu kynslóðinni í landinu bar að hlíta ráðum sér reyndari og eldri manna í þessu efni, en trúði betur falsspámönnum í þessu máli, og vantaði lífsreynslu til þess að dæma í jafnþýðingarmiklu máli. Ég fyrir mitt leyti álít, að nú eigi þeir reyndu og ráðnu menn á Alþingi Íslendinga að skera úr og dæma um, hvort það sé hollt hinni ungu kynslóð að hafa nóga áfenga drykki sér til skaða og leiðinda. Ég vil, að Alþingi svari þeim hluta ungu kynslóðarinnar, sem var með afnámi bannsins, sem svo: „Það er ekki hollt að fá þessa drykki, af því að þeir eyðileggja fé þitt og fjör, og þeir skaða líf þitt. Þú hefir ekki reynt, hvað mikið böl fylgir því að drekka áfengi. Ég vil þess vegna ekki leyfa þér að neyta sterkra vína.“ — Þannig talar góður faðir og góð móðir til barns síns. Þannig tel ég, að löggjafinn eigi að tala til þeirrar kynslóðar, sem bráðum verður að taka á sig veg og vanda af því, hvernig menningu og velmegun þjóðarinnar ferst. Okkar er að skila næstu kynslóð landinu okkar í sem mestum menningarblóma. Afnám áfengra drykkja er einn áfanginn á þeirri leið.

Ég get sagt eins og hv. 2. þm. S.-M., að ég ætla ekki að tefja fyrir þessu máli með málþófi. Örlög Karþagóborgar munu þegar vera séð, þó að það veki undrun mína. En ég vildi láta það koma fram, hvers vegna ég er á móti þessu máli. Og ég vil taka undir þau orð hv. 2. þm. S.-M., að dómur sögunnar mun á sínum tíma verða kveðinn upp um það, hvort það hafi verið rangt af þeim mönnum á Alþingi Íslendinga 1934, sem voru á móti því, að leyfa innflutning sterkra vína. Ég hefi þá trú, að hvert það mál, sem í sér hefir fólgið siðgæði og réttlæti. fái fyrr eða síðar að sigra, og ef það er rétt, þá er ég viss um, að dómurinn verður sá, að við, sem nú stöndum á móti þessu máli, sem hér liggur fyrir, höfum verið á réttri braut.

Ég skal að síðustu taka það fram, að ég teldi rétt, að þar sem atkvgr., sem fram fór um aðflutningsbannið með öllum sínum ágöllum, fór eins og kunnugt er, þá teldi ég réttu aðferðina þá, að þessu máli yrði skotið til þjóðarinnar á ný til almennrar atkvgr., eins og þingið gengur frá því, og þar verði sagt annaðhvort já eða nei um það, hvort þjóðin vildi slíka löggjöf eða ekki. Ég legði mikið upp úr því, að slíkt yrði gert. Ég veit, að því verður svarað, að þetta sé óvanaleg aðferð. Það er satt, en þetta er líka óvenjulegt og þýðingarmikið mál, sem varðar alda og óborna. Ég hefi orðið var við það, að ýmsir þeir, sem eru taldir meðal framsýnustu manna þjóðfél., hafa talið þetta eina hina réttustu leið úr því sem komið er, og að atkvgr. verði þá ekki látin fara fram á þeim tíma, sem er að dómi bæði framsóknarmanna og annara sá óhentugasti fyrir mikinn hluta fólks um land allt með tilliti til kjörsóknar.

Ég skal að síðustu lýsa því yfir, að ég mun fylgja öllum þeim umbótatill., sem fram kunna að koma við þetta frv. eins og það nú liggur fyrir frá Nd., en þrátt fyrir það mun ég þó að síðustu greiða atkv. móti þessu frv., því að ég þykist nú hafa fært rök fyrir því, hvers vegna ég er því mótfallinn, en ég vil þó með atkv. mínu hafa áhrif á það, að inn í frv. komist ákvæði, sem takmarka meir en orðið er frjálsan og óhindraðan aðgang hverjum einum að sölum Bakkusar konungs og torveldi þegnum hans dygga þjónustu.