27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þessu frv., sem hér liggur fyrir, hefir nú verið andmælt af tveimur hv. þm. Þeir hafa fært fram að sínu áliti þau rök, sem liggja til þess, að ekki eigi að samþ. þetta frv., eða yfirleitt frv., sem gangi í þá átt að afnema það bann, sem nú er. Það hefir verið dregið sérstaklega fram og beint gegn mér, að það væri undarlegt, að ég skyldi flytja á Alþingi frv. eins og þetta, þar sem það væri í ósamræmi við aðra starfsemi mína í sambandi við þessi mál. Ég skal nú svara þessu óbeint um leið og ég geri grein fyrir afstöðu minni til bannsins.

Fyrst vil ég minna á það, að það hefir farið fram þjóðaratkvgr. um þetta mál, og ég hefi þá afstöðu gagnvart henni, fyrst og fremst af því að ég lít svo á, að ef slík atkvgr. hefir farið fram, þá sé það varhugavert fordæmi, ef ekki er farið eftir þeirri atkvgr. Það þýðir ekki að færa fram þau rök, að atkvgr. hafi farið fram á óhentugum tíma og hafi verið illa sótt. Það er efalaust, að þegar atkvgr. fór fram, þá gátu þeir sýnt vilja sinn á þessum málum, sem höfðu áhuga á því. Ég lít svo á, að jafnvel þótt einstakir menn séu nú á móti afnámi bannins, þá beri ekki að fara eftir því, þar sem meiri hl. hefir við þessa atkvgr. látið það í ljós, að hann vilji afnám bannsins. Þeirri reglu, að fara þannig eftir vilja meiri hl., hefir verið fylgt í okkar þjóðfélagi í tvö skipti, um áfengislögin og um sáttmálann við Dani.

Ég hefi áður látið þá skoðun mína í ljós að þótt þetta frv. sé flutt vegna þessarar atkvgr. og vegna þess, að það hefir verið lagt fyrir stj. að flytja frv. um þetta mál, þá verð ég að segja, að ég hefði, þótt slík atkvgr. hefði ekki legið fyrir, greitt atkv. með afnámi bannsins. Þessa yfirlýsingu hefi ég gefið löngu áður, þegar almennar umr. hafa farið fram um þetta mál. Skal ég nú reyna að rökstyðja lítilsháttar þessa skoðun mína, án þess að vera of langorður.

Það, sem ég fyrst og fremst vil nefna sem rökstuðning fyrir mínu máli, er það, að við höfum nú við að búa þá undanþágu, að leyft sé að flytja inn Spánarvín, sem hafa allt að 21% alkohol eftir rúmmáli. En þegar ég, sem hefi haft á hendi framkvæmd þessara l. í 10 ár, hefi verið að framkvæma bannlögin, þá hefi ég sannfærzt alltaf betur og betur um það, að það, sem verður að vera meginatriðið í hverjum refsilögum, er það, að undir þeim sé einhver siðferðisgrundvöllur. Hugsunin, sem liggur til grundvallar fyrir allri refsilöggjöf, og þar með þeirri löggjöf, sem gilt hefir hjá okkur um aðflutningsbann á áfengi, er, að það sé siðferðislega rangt að neyta áfengis og drekka sig ölvaðan. Það sé brot bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum.

Ég skal segja ykkur það, að eitt stærsta atriðið í mínum augum viðvíkjandi Spánarvínaundanþágunni, sem við búum nú við, er það, að ég hefi hvað eftir annað rekið mig á það, þegar ég hefi rætt um þetta mál við þá menn, sem hafa verið sektaðir fyrir að drekka óleyfileg vín, að þeir hafa sagt sem svo: „Að hverju leyti er það rangara að drekka sterk vín en Spánarvín? Hvers vegna er mér refsað fyrir að drekka mig ölvaðan af sterkum vínum, þegar ríkið leyfir mönnum að drekka sig ölvaða af veikum vínum? Hvaða siðferðislegur munur er á þessu?“ — Ég játa, satt að segja, að erfitt sé að halda uppi löggjöf, sem greinir aðeins um það, hvort áfengið sé veikt eða sterkt, refsa þeim, sem drekka sig ölvaða af sterkum vínum, en segja það löglegt að drekka sig ölvaða af því áfengi, sem er nefnt hin veikari vín. Við sjáum sannarlega daglega afleiðingarnar af drykkju veikari vína. Afleiðingarnar eru þær sömu og af að drekka hin.

Mér hefir alltaf virzt, að í sambandi við flutning þessa máls hér á þingi, og eins við atkvgr., hafi ekki verið nógu mikil einlægni hjá einstökum hv. þm. Mér dettur ekki í hug að beina þessu til þeirra hv. þm., sem nú hafa talað hér á móti þessu frv., því að ég veit, að þeir eru sannfærðir um, að afnám bannsins muni leiða til hins verra. En mér dettur ekki í hug að halda fram, hvorki í þessu máli né öðrum, öðru en því, sem ég er sannfærður um, að sé satt og rétt, og það er sannfæring mín, að þessu máli sé þannig komið, að nú sé ekki um annað að gera en að afnema bannnið. Við höfum hér fyrir framan okkur reynslu undanfarinna ára. Og hvernig er hún? Reynslan er sú, að nú er í Rvík drukkið meira en í nágrannalöndunum, þar sem bannið hefir verið afnumið. Hér eru sektaðir fyrir ölvun á almannafæri nokkur hundruð manns á hverju einasta ári, stundum upp undir eitt þúsund manns. Og ef við lítum jafnframt á það, að við Íslendingar, sem höfum alveg sérstaklega slæma aðstöðu til að framfylgja bannlöggjöf, eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram, vegna þess að við búum á eyju, þar sem mjög auðvelt er að smygla víni í land —, þá er augljóst, hversu fjarstætt það er að halda við þessu bannlagaslifri. Og reynsla annara þjóða, sem hafa þó miklu betri aðstöðu til að verjast smygli, sýnir, að þær hafa allar orðið að láta undan og afnema bannlögin hjá sér. Reynsla bannlagalöggjafarinnar hefir skorið úr um þetta og beygt aðrar þjóðir til þess að láta undan, og þar erum við Íslendingar síðastir í röðinni. Það er með þessi lög eins og alla aðra refsilöggjöf, að það er með öllu þýðingarlaust, að löggjöfin sé á undan sínum tíma. Ég skal fúslega játa það með hv. 4. þm. Reykv., að það er ákaflega skaðlegt að neyta mikils áfengis, og það er alveg rétt að hafa þá von, að það megi takast að venja þjóðirnar af því. Ég hefi aldrei þótt svo sérstaklega sólginn í áfengi, og get þess vegna staðið alveg hreinn að því leyti í þessu máli, að ég hefi sem lögreglustjóri gengið hart fram í því að framkvæma bannlögin eins og hver önnur lög, enda hefir enginn dirfzt að finna að þeirri framkvæmd. Ég hefi alltaf haft þá skoðun, að áfengislögunum eigi að framfylgja rækilega og þess vegna hefi ég framkvæmt þau alveg eins stranglega og önnur refsilög. Af þessari ástæðu þykist ég hafa efni á að greiða atkv. í þessu máli eins og ég tel réttast og eftir því sem reynslan hefir bent mér í lögreglustjórastarfi mínu. Engin þjóð getur framfylgt þeirri löggjöf, sem er á undan sínum tíma. En það má vel vera, að fólkið verði orðið svo þroskað eftir 100 ár, að þá megi takast að setja lög um aðflutningsbann á áfengi og framfylgja þeim. Og það er svo um hverskonar refsilöggjöf, að hún getur alls ekki staðizt til lengdar, nema hún hafi almenningsálitið í landinu að bakhjalli. Menn forðast ekki að brjóta refsiákvæði laganna vegna refsingarinnar sjálfrar, sem á eftir kemur, heldur vegna almenningsálitsins og þeirrar sannfæringar og réttlætismeðvitundar, sem býr þeim í brjósti. Það, sem hamlar því, að menn steli og gerist t. d. sauðaþjófar, er sú móralska sannfæring, sem búið er að koma inn hjá þeim, að þetta sé rangt. En það er ekki refsingin sjálf eða óttinn við hana, sem heldur mönnum frá því að stela. Og svo er það annað, sem er enn verra; refsiákvæði hafa engan mátt, nema staðið sé við þau og að nægilega þroskað almenningsálit standi á bak við þau. Menn geta framið bannlagabrot og komið út úr fangahúsinu á eftir og litið framan í hvern mann, þrátt fyrir refsinguna, án þess að fyrirverða sig nokkuð, vegna þess að almenningsálitið er ekki nægilega sterkt til að fordæma þessi brot. Við þekkjum ótal dæmi þess í okkar eigin sögu, hversu refsiákvæðin hafa mátt sín lítils gegn almenningsálitinu. Það þótti ekki fært á Alþingi þegar kristni var í lög tekin árið 1000, að banna með lögum útburð barna. Vegna hvers? Af því að hið ríkjandi almenningsálit þeirra tíma taldi það ekki glæpsamlegt, og þó var hér um stórglæp að ræða. Hinir vísu menn þeirrar aldar vissu, að það var þýðingarlaust að banna þetta með lögum, og við vitum, að það var þá skoðun merkustu borgara í þjóðfélaginu, að þetta væri fyllilega leyfilegt. En síðar breyttist almenningsálitið, svo að á þetta var litið sem svívirðilegasta glæp í þjóðfélaginu. Sagan sýnir okkur, að það er svo með hvert atriði, sem snertir siðferðismálin, að það verður að koma þróun, sem göfgar almenningsálitið og stendur á bak við löggjöfina í landinu. Þjóðirnar geta ekki haft fullkomnari löggjöf en þær eru sjálfur, þegar á reynir. Hitt hefði náttúrlega verið ákjósanlegt, ef þjóðin hefði viljað þýðast þá löggjöf, sem bannar mönnum neyzlu skaðlegra drykkja og annara heilsuspillandi vörutegunda.

Það hefir áður verið minnzt á það í þessum umr., að fyrir nokkrum árum var hér ákveðin hreyfing fyrir því að stofna til aðflutningsbanns á tóbaki hér á landi; það var um það bil, sem ég kom fyrst hingað til Rvíkur í skóla. En svo féll hún aftur niður. Ég er viss um, að sú skaðsemi, sem stafar af notkun tóbaks, slagar langt upp í skaðsemi af áfengisneyzlu. Vera má, að það sé ekki heppilegt að leiða þetta efni inn í umr., en ég vil geta þess, að þó ég hafi ekki sjálfur neytt tóbaks, þá hefi ég talað við marga tóbaksmenn, og ég er viss um, að tóbaksneyzlan hefir takmarkað starfsþrótt þeirra margra um þriðjung, þannig að þessir menn eru ekki nema brot af því, sem þeir gætu verið. Þetta á sérstaklega við um vissar tegundir af tóbaksreykingum. Þess vegna væri það vitanlega ákjósanlegt, að menn neyttu ekki tóbaks, og má það teljast blátt áfram refsivert að lama svo sína eigin orku sem gert er með notkun tóbaks. Vera má, að eftir nokkur ár verði ég kominn á þá skoðun, að réttast muni að banna innflutning á tóbaki. En því verr er grundvöllur almenningsálitsins ekki nægilega sterkur til þess enn, fremur en til þess, að reistar verði með lögum skorður við innflutningi áfengis. Reynsla undanfarinna ára hefir sýnt, að drykkjuskapurinn er meiri hér á landi heldur en hjá þeim þjóðum, sem enga áfengislöggjöf hafa haft. Þess vegna er ég sannfærður um, að rétt hafi verið að afnema aðflutningsbannið. En jafnframt og því er aflétt og samhliða hafin öflug starfsemi gegn víndrykkjunni, skal ekki standa á mér að setja í áfengislöggjöfina ýms ákvæði, sem eiga að vinna gegn áfengisbölinu, t. d. um að haldið verði uppi almennri fræðslu um skaðsemi áfengis o. fl. Eftir minni reynslu er ég sannfærður um, að það er sú eina vörn, sem dugir á móti áfengisnautninni.

Síðan Spánarvínin fóru að flytjast til landsins hafa menn getað drukkið sig ölvaða af þeim, og það hefir eins og bannlögin dregið mikið úr þeirri bindindisstarfsemi, sem áður var búin að vinna mikið á í baráttunni við áfengisnautnina. Þegar talað er um, að hinar dreifðu byggðir — sveitirnar — séu yfirleitt á móti áfenginu og að fólkið þar vilji ekki neyta þess, þá er það ekki fyrir áhrif bannlaganna; það verða ekki færð gild rök að því. Hitt liggur ljóst fyrir, að víðasthvar úti um sveitir landsins, þar sem minnst hefir verið drukkið af áfengi og samkv. atkvgr. er ákveðnast fylgi við bannlögin, þar eru og hafa verið ótal möguleikar til að smygla inn áfengi og næstum því engin löggæzla. Bannlögin hafa ekki verndað fólkið fyrir áfenginu á þessum stöðum. Þessi afstaða fólksins stafar eingöngu af því, að það er komið lengra og er þroskaðra í þessum efnum en annarsstaðar. Má sérstaklega benda á Vestfirði þessu til sönnunar. Þar er ákaflega lítil áfengisnautn, sama sem ekkert bruggað, en miklir möguleikar til að smygla inn áfengi og að heita má engin löggæzla. — Þetta er eingöngu því að þakka, hvað fólkið er þroskað á þessum slóðum, og að því marki verður að stefna um allt land. Ég hefi ekki trú á því, að við Íslendingar séum svo mikið lakari en aðrar þjóðir, að áfengisneyzlan þurfi að vera meiri hér en annarsstaðar og geti ekki komizt niður í það mark, þar sem hún er lægst í nágrannalöndunum. Þetta frv. er því ekki flutt til þess að veita meira vínflóði yfir landið, heldur í fullri von um, að það leiði til minnkandi drykkjuskapar í landinu, og ennfremur með tilliti til niðurstöðunnar af atkvgr. um afnám bannlaganna.

Ég vil, að færð séu skýr rök að því, hvers vegna við stöndum svo mikið lakar í áfengismálunum en aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, Svíar og Danir. Ég vil, að þeir hv. þdm., sem tala á móti afnámi bannlaganna, ræði jafnframt um það, hvers vegna þau leiddu til stóraukins drykkjuskapar í Finnlandi, og hvers vegna bannlögin voru afnumin þar og hjá öðrum þjóðum, þar sem þau höfðu verið í gildi um nokkurt árabil. Ég vil, að þeir geri grein fyrir því, hvort reynslan af bannlögunum hafi ekki orðið hin sama hér á landi og hjá öðrum þjóðum, sem hafa neyðzt til að afnema þau. — Það er algerlega rangt af andstæðingum þessa frv. að flytja mótmæli sín á þeim grundvelli, að ég sé því fylgjandi, að áfengisnautnin aukist í landinu; þetta er algerlega rangt hvað mig snertir. Ég er einmitt fylgjandi útrýmingu áfengisneyzlunnar. — Það, sem deilt er um, er blátt áfram: hvort betra sé fyrir þjóðina að viðhalda þeim bannlagaslitrum, sem nú eru, með því ástandi, sem ríkt hefir, eða afnema bannlögin. Og í öðru lagi: hvort drykkjuskapurinn muni aukast í landinu, þó að bannlögin séu að fullu afnumin, ef reynt er að vinna á móti áfengisnautninni, eins og áður var gert, með bindindisstarfsemi og fræðslu um áhrif og afleiðingar áfengisneyzlunnar. Þetta er aðalumræðuefnið, og ég óska að rætt sé um málið á þessum grundvelli.

Ég vil svo að lokum geta þess viðvíkjandi sterku vínunum, sem nú á samkv. frv. að flytja inn í landið, að viðhorf þjóðarinnar hefir gerbreytzt á síðari árum, sérstaklega gagnvart sterku vínunum. Síðan 1927 hafa orðið svo stórfelld umskipti í þessu efni, vegna framleiðslu sterkra drykkja í landinu („landa“bruggunar). Þetta sést bezt, ef athugaðir eru þeir dómar, sem kveðnir hafa verið upp hér í Rvík í bruggunarmálum: árið 1931 voru þeir 16, 1932 41 og 1933 46 dómar. En jafnframt hafa miklu færri dómar verið dæmdir fyrir ólöglega sölu á Spánarvínum. Útkoman er því þannig, að um leið og afbrotum fjölgar í stórum stíl fyrir bruggun og sölu sterkra drykkja í landinu, þá fækkar þeim að sama skapi fyrir ólöglega sölu á Spánarvínum. En eitt vil ég segja þeim, sem vilja hafa á móti því, að hin væntanlegu áfengislög rými burt ólöglegu áfengi, og eru óánægðir með okkur, sem fylgjum þessu frv., að það má nú heita óviðráðanlegt fyrir löggæzluna í Rvík að verjast smyglun áfengis hingað til bæjarins. Það er flutt í stórum stíl utan af landi í bílum til Rvíkur. Fyrst og fremst er hér um að ræða áfengi, sem bruggað er í landinu, og í öðru lagi það, sem smyglað er inn á höfnum víðsvegar um land utan Rvíkur; það er að mestu flutt í bílum til Reykjavíkur og á að seljast þar. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að það er selt og drukkið nálega eins mikið af óleyfilegum sterkum drykkjum í landinu eins og lögleyfðum vínum. Þetta fullyrði ég samkv. nánum kunnugleika í þessum efnum og nokkurra ára reynslu. Þannig er útlitið nú. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið að sinni, og býst helzt ekki við að taka aftur til máls við þessa umr.