27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

77. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Það hefir verið ríkjandi venja, að þegar mál hafa komið frá Nd. hingað í d., þá hafa vanalega verið litlar umr. um þau, og frumvörnin hafa verið send til n. án þess að talað hafi verið um þau svo teljandi sé við 1. umr. En nú hefir sú nýlunda skeð, að risið hafa upp þrír hv. þdm., hver á fætur öðrum, við 1. umr. og haldið langar ræður til mótmæla þessu frv., sem fyrir liggur, sérstaklega tveir þeirra. Þetta er því undarlegra, sem þessir hv. þdm. eiga báðir sæti í þeirri nefnd, sem búast má við, að fái þetta mál til meðferðar, og eru þeir þar í meiri hl.

Ég hefði nú látið þessar umr. afskiptalausar, þó að hv. 2. þm. S.-M. flytti sína ræðu, ef fleiri hefðu ekki komið þar á eftir. En mér finnst, að úr því að umr. eru orðnar svona langar, þá sé ekki úr vegi fyrir mig að minnast á örfá atriði, sem komið hafa fram í umr.

Það, sem einkenndi ræður þessara þriggja hv. ræðum., sem hafa andmælt frv. hér í d., er það, að þeir töluðu allir eins og nú væri með þessu frv. verið að steypa nýju vínflóði yfir landið, og ætti nú loks fyrir alvöru að kenna þjóðinni að drekka áfengi. Ég skal nú segja þessum hv. þdm., sem andæfa frv., það, að ef þetta væri svo, þá mundi ég leggjast á sveif með þeim. Þó að ég væri ekki orðinn atkvæðisbær kjósandi 1908, þegar þjóðaratkvgr. fór fram um það, hvort setja skyldi aðflutningsbann á áfengi til landsins, þá gerði ég mér þó fullkomna grein fyrir því máli og umr. um það í blöðum og á þingmálafundum. Og ef ég hefði þá haft atkvæðisrétt, þá hefði ég greitt atkv. með banni. En þó að ég gæti það ekki, þá vann ég talsvert fyrir málið og studdi þannig að því, að atkv. yrðu greidd með banninu. Ég trúði því þá, eins og fjölmargir aðrir, sem greiddu atkv. með bannlögunum, að takast myndi að útiloka áfengið úr landinu. En ég hygg, að það þurfi ekki að leiða rök að því nú, það er öllum ljóst, að þetta hefir algerlega mistekizt: að útiloka áfengið. Þess vegna eru það að því leyti algerlega rangar forsendur hjá þessum hv. andmælendum frv. og einnig hæstv. atvmrh., að hér sé um það að ræða, hvort rétt sé af löggjafarvaldinu að stuðla að því með samþykkt þessa frv., að þjóðin fái meira áfengi til drykkjar eða ekki. Hér er alls ekki um það að ræða, heldur hitt. hverskonar löggjöf muni eiga hér bezt við og vera líkleg til að koma að mestu gagni til þess að eyða drykkjuskapnum í landinu. Það er ósennilegt, að þetta frv. leiði til aukins innflutnings á vinum. Allir vita, að Íslendingar drekka nú mikið af áfengi, og að það liggja engir möguleikar fyrir til þess að útiloka áfengi úr landinu. Hv. 2. þm. S.-M. vék að því, að ástandið í þessum efnum væri ekki gott sem stæði. Og nú myndi það vaka fyrir ýmsum hv. þm., að eina ráðstöfunin til bjargar, sem Alþ. gæti gert til að bæta þetta ástand, væri sú, að leyfa innflutning á sterkum vínum til landsins. Og vildi hv. þm. telja það ægilegasta skattinn, sem hægt væri að leggja á þjóðina. En eins og ég hefi vikið að áður, þá hygg ég, að það sé alveg ósannað, að af samþykkt þessa frv., óbreytts eða lítið breytts, leiði meiri innflutning á áfengi til landsins en nú er. Og hitt er a. m. kosti ósannanlegt, að af því leiði meiri áfengisnautn hér á landi en nú er. Það er vitað, að af því áfengi, sem nú er drukkið mest í landinu, fær ríkissjóður engar tekjur — þvert á móti –hann verður að greiða kostnað við eftirlit og uppljóstrun óleyfilegrar áfengisbruggunar. Hitt er aftur á móti víst, að ríkissjóður fær ágóða af því áfengi, sem löglega er með farið í landinu. Og þess vegna veit ég ekki, hvort það muni reynast svo mikil fjarstæða, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ýmsir þm. mundu vilja telja innflutning á sterkum drykkjum til bjargráða að einhverju leyti úr því ófremdarástandi, sem nú ríkir í áfengismálum þjóðarinnar.

Hv. 2. þm. S.-M. vildi gera lítið úr þjóðaratkvgr. um afnám bannlaganna. Ég þarf lítið um það að segja; hæstv. forsrh. hefir vikið að þessu og tekið af mér það ómak að svara því. Hv. þm. gerði mikið úr því, hversu fáir hefðu tekið þátt í atkvgr. og faldi, að þess vegna væri ekkert á henni að byggja; en ég held, að þeir hafi þó verið æðimiklu fleiri, sem greiddu atkv. um bannmálið í fyrrahaust heldur en l908. Og þó veit ég ekki betur en að bannmenn hafi löngum byggt sínar kröfur í þessu máli á þeirri atkvgr. Þá hélt hv. þm. því einnig fram, að af því atkvgr. var að haustlagi, hafi miklu færri tekið þátt í henni þess vegna; og það kann að vera rétt. En það hafa nú oft farið fram almennar alþingiskosningar á haustin og opinber atkvgr., svo að þetta er engin undantekning í því efni. Samkv. ályktun hv. þm. ætti þá að vera vafasamt um gildi þeirra laga, sem sett hafa verið á þeim þingum, er kosið hefir verið til á haustin.

Hæstv. forsrh. benti réttilega á, að alþjóðaratkvgr. hefði verið látin fara fram að haustlagi um annað mjög þýðingarmikið mál, sambandslög Íslands og Danmerkur, sem allt stjórnarfar okkar er byggt á.

Hv. þm. sagði, að Alþ. ætti að hafa vit fyrir þjóðinni. Það er nú svo. Ég hygg, að það verði ekki svo auðvelt, meðan alm. kosningarréttur er í landinu og þingið kosið af kjósendum landsins, og mun ekki geta gengið nema eitt kjörtímabil, að þingið hafi vit fyrir þjóðinni. Þjóðin tekur vitanlega til sinna ráða og kýs ekki aðra á þing en þá, sem eru í samræmi við hennar vilja. Alþ. á að hafa vit fyrir þjóðinni eins og foreldrarnir fyrir börnunum, segir hv. þm. Foreldrarnir beita oft misjöfnum uppeldisaðferðum við börnin. Sumir foreldrar reyna að sannfæra þau um hið rétta í hverju máli og veita þeim virkilegan skilning á þeim siðferðisspursmálum, sem þau verða að leysa úr. Aðrir foreldrar álíta bezt að hýða þau, og það duglega. Það átti að kenna þjóðinni og venja hana af þeim ósið að drekka áfengi með þessari síðartöldu uppeldisaðferð, hýðingunni. Að hafa vit fyrir þjóðinni, það á þingið að gera að áliti hv. 2. þm. S.-M.; það á að hýða og hýða duglega þá, sem eru óþægir. Hann vildi ekki telja mikið að marka atkvgr. um bannið, vegna þess, að af 27 kjördæmum hefði í 13 verið meiri hl. með afnámi bannsins. En í þeim 13 kjördæmum, sem voru með afnáminu, senda kjósendurnir meiri hl. alþm. á þing, svo að ef miða á við það, hvernig farið hefði, ef þetta hefði jafnframt verið alþingiskosning og kosið eftir þessu máli, þá hefði niðurstaðan orðið nákvæmlega hin sama. Og að þessi 13 kjördæmi kjósa miklu fleiri alþm. en hin, er af því, að þau eru miklu fjölmennari. Hann var að fimbulfamba um það, hv. þm., að kvenfólkið hefði tekið lítinn þátt í þessari atkvgr. En það tók alls engan þátt í atkvgr. 1903, sem bannl. voru byggð á. Ég greip fram í fyrir honum, og snéri hann þá út úr því og vildi gefa í skyn, að ég teldi eftir atkvæðisrétt kvenna. Það var nú ekki mín meining. Hann sagði, að það lægju engar skýrslur fyrir um þátttöku kvenna í atkvgr. Hafi kjörsókn kvenna verið lítil, sem ég efa, þá hefir það einungis verið af því, að þær hafa ekki haft verulegan áhuga á málinu. Það var ekkert foráttuveður kosningadaginn, a. m. k. hvorki á Suður-, Norður- eða Vesturlandi. Þá sagði hann ennfremur, að menn hefðu ekki vitað, um hvað menn greiddu atkv. Þetta er hinn mesti misskilningur. Ég held, að fólk hafi ákaflega vel vitað um það, því að á 2–3 undanförnum þingum lágu fyrir frv. um nýja áfengislöggjöf, og flestir kjósendur í landinu munu hafa gert sér grein fyrir því, að þau frv. voru svipuð og þessi löggjöf mun verða. Ég veit, að hv. 2. þm. S.-M. er sannfærður í þessu máli, og ekkert um það að segja, þótt hann haldi við sína sannfæringu. Hann kvaðst leggja þetta mál óhræddur undir dóm sögunnar. Ég þykist vita, að hann geri það, og sagan á sínum tíma gefi honum rétt, en öðrum rangt, eftir hans hugmyndum. En ég ímynda mér líka, að Páli Stígsson höfuðsmaður hefði getað sagt hið sama á sínum tíma, þegar hann árið 1564 kom hér á Stóradómi. Það átti að uppræta lauslætið í landinu. Þeir menn, sem að því unnu, voru sannfærðir á svipaðan hátt og hv. 2. þm. S.-M., og töldu lauslætið ákaflega skaðlegt fyrir þjóðina siðferðislega og það bæri undir öllum kringumstæðum að uppræta það. Svo voru sett l. um það að viðtaka nýjar, þungar refsingar við lauslæti. Menn voru drepnir fyrir hórdóm, kvenfólki drekkt og annað þess háttar. En hver varð árangurinn? Ég skal ekki fullyrða, að aldrei hafi meira lauslæti verið á Íslandi en þá, en ýmislegt bendir þó til þess, að svo hafi verið, því að furðulega mörg eru brotin, sem upp komust, og má nærri geta, að yfir margt og mikið hefir verið hilmað, þegar slíkar refsingar lágu við. Þessir menn hafa sjálfsagt — ég efa það ekki — staðið í þeirri trú, að þeir væru að vinna þjóð sinni gagn, eins sannfærðir og hv. 2. þm. S.-M. er um það, að það sé bezt að hafa sem strangastar hegningar og ströngust fyrirmæli í l. viðvíkjandi áfenginu. Sama má segja um galdrabrennur og annað slíkt. Galdur var ógurlegur glæpur í áliti þeirra manna, og ég er viss um, að þeir, sem bezt gengu fram í ofsóknunum, hafa getað sagt eins og hv. 2. þm. S.-M., að þeir væru að vinna eftir sannfæringu sinni og myndu hljóta góðan dóm hjá sögunni. — Það hefir verið sagt af andmælendum þessa frv., að ekki myndi hafast miklar tekjur upp úr þessu fyrir ríkissjóð, því að fylliríið yrði bara ódýrara og þar af leiðandi minna rúmmál víns drukkið, þótt fylliríið yrði sama eða meira. Þetta kynni að vera rétt hjá hv. andmælendum frv., ef þeir gengju út frá því, að ekkert væri hér til að drekka nema Spánarvín, sem eru tolluð og verzlunarágóði af til ríkisins. Þetta er bara ekki svona. Það vita allir, að hér er dukkið mikið af smygluðu whisky, bæði hér í Rvík og víða annarsstaður. Og það eru ekki tómir bandíttar, sem þess neyta, og þegar þessir menn gætu fengið það á löglegan hátt, myndu þeir fremur kjósa það. (SÁÓ: Þeir fá það ódýrara smyglað). Já, en það eru margir svo, að þeir smygla ekki vegna auranna, heldur vegna þess, að varan er ófáanleg, og þótt um nokkurn verðmun væri að ræða, myndu þessir sömu menn heldur kjósa að útvega sér áfengið á löglegan hátt. Þá talaði hv. 4. þm. Reykv. um það, að undirbúningur atkvgr., sem fram fór um málið, hefði verið einhliða. Skildist mér helzt, að þjóðin hefði ekki fengið aðra fræðslu en þá, sem Morgunblaðið hefði látið í té. Mbl., sem gefið væri út af auðvaldinu í Rvík, hefði flutt einhliða prédikanir um afnám bannlaganna. Ég get verið hv. þm. sammála um það, að þjóðin hafi fengið heldur einhliða fræðslu um þetta mál, en upplýsingarnar og fræðslan hefir undanfarin ár aðallega verið frá templurum og bannmönnum. Það eru fá blöð, sem yfirleitt hafa skrifað mikið á móti banninu. Mbl. kann að hafa skrifað eitthvað á móti því rétt fyrir atkvgr., en Templar og Sókn o. fl. o. fl. templarablöð hafa í mörg ár hamast í þessu máli, og templarar hafa fengið styrk úr ríkissjóði og honum einkum verið varið til blaðastarfsemi og „agitationar“ fyrir banninu. Þjóðin hefir þar átt við að búa einhliða málflutning. Ég vissi til þess, að í mínu kjördæmi hreyfðu andbanningar ekki hönd eða fót fyrir atkvgr., en templarar héldu fundi í hverjum einasta hreppi og viðar til að „agitera“ fyrir banninu. Annars má á það benda, hver hin eiginlega reynsla er í þessum efnum. Það hafa fleiri þjóðir en við Íslendingar reynt bannið. Og allar hafa þær afnumið það aftur. Við urðum fyrstir allra þjóða til að setja á aðflutningsbann á áfengi og síðastir allra þjóða til að afnema það. En það er sýnilegt, að við erum neyddir til þess að afnema það eins og allar þær þjóðir, sem það hafa reynt. Hv. þm. sagði, að það væri skylda sín sem jafnaðarmanns að bægja þessum voða frá þjóðinni, einkum fátækari stéttunum. Þetta vil ég taka undir, að sé skylda okkar allra, ef það væri hægt. En hvernig ætlar hann að bæja „landanum“ frá þjóðinni? Með nýjum, þungum refsingum, væntanlega. Það er þrautaráðið, en það er eins og það dugi ekki neitt, því að fyrir hvern bruggara, sem tekinn er, kemur nýr í staðinn. Ég gat um það í upphafi minnar ræðu, að ég hefði haft ákveðnar skoðanir í þessu máli 1908, þegar atkvgr. fór fram. Og ég hefði að sjálfsögðu greitt atkv. með því, að bannl. kæmust á, hefði ég haft kosningarrétt. En það hefir því miður farið svo, að mér sýnist allar hrakspár andbanninga hafa rætzt, en engin af vonum bannmannanna. Reynslan sýnir ótvírætt, að það er ekki til neins að vera að halda í þessa tilraun, sem við Íslendingar gerðum 1908. Ég skal ekkert um það segja, hvernig farið hefði, hefðum við ekki verið neyddir til að veita Spánarundanþáguna. Má vera, að þá hefði skár farið. En þegar svo var komið, var þegar fyrirsjáanlegt, hvert stefndi. Mér virtist hv. f. þm. Reykv. vilja afsaka suma bruggarana. Hann sagði, að þetta væri viðleitni bláfátækra barnamanna til þess að geta lifað. (SÁÓ: Er það ekki rétt?). Getur vel verið, en þá sú mannúð, sem löggjafarnir sýna þessum fátæku mönnum sem kynnu að hafa leiðst út í þetta til þess að veita sér brauð! Það er stutt síðan það kom fyrir í þeim bæ, sem ég á nú að heita má orðið heima í, að teknir voru 11 bruggarar. Ég þekki suma þeirra, og allt eru þetta sárfátækir menn. Einn þeirra t. d. fékk fangelsisdóm og 1500 kr. sekt. Þetta er fullkomin eyðilegging á hans framtíð. Það er auðvitað ekkert við því að segja: Lögunum ber að fullnægja og refsingum samkv. þeim. Ég er ekkert undan þessu að kvarta, en það er einkennilegt að rifja þessi atvik o. fl. slík upp í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. var að minnast á, að bannl. ættu að vernda fátæku stéttirnar. Refsingarnar fyrir brot á áfengisl. hafa verið ákveðnar harðar, mér liggur við að segja villimannlega harðar. Við engu broti liggja nú þyngri refsingar, að manndrápi einu undanskildu. En refsingarnar voru settar svo að vilja bannmanna. Þeir trúðu því, að með nægum refsingum væri hægt að reka þennan djöful, áfengið, úr landinu, alveg eins og þeir, sem forðum ofsóttu galdramennina og hugðust að uppræta galdurinn með brennum. Páli Stígsson vildi líka afnema lauslætið í landinu með Stóradómi, drekkingum og aftökum. Það er sami hugsunarhátturinn, sem gengur aftur hvað eftir annað í okkar sögu, og alltaf hefir farið á sömu leið. Eins og hæstv. forsrh. vék að, bera villimannlegar refsingar fyrir brot, sem þjóðin almennt viðurkennir ekki sem brot, aldrei góðan árangur. Þetta er e. t. v. ekki hvað sízt orsökin til þess, að nú er komið sem komið er, að ekki er annað eftir en afnema bannlögin. Ég get vel hugsað mér, að ef um mannlegar refsingar hefði verið að ræða, hefði mátt halda eitthvað lengur í bann. — Ég geri ráð fyrir því, að þeir hv. þm., sem ég einkum hefi beint máli mínu til, muni svara mér einhverju, en ég mun geyma að svara þeim aftur til 2. umr. vil ég ekki verða til þess, að málþóf takist áður en málið kemst til n.