27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

77. mál, áfengislög

Guðrún Lárusdóttir:

Þegar leitað var þjóðaratkvæða um afnám bannlaganna, var málið þannig lagt fyrir þjóðina, að mönnum gafst aðeins tækifæri til að segja annaðhvort já eða nei. Ég býst við, að margir hefðu óskað að geta gert nánari grein fyrir skoðun sinni á ýmsum hliðum málsins. Það er kunnugt, að mjög margir eru óánægðir með ástandið eins og það er nú, bruggið, lögbrotin og allt það fargan, sem af þeim leiðir. Margir eru óánægðir með hin ströngu refsiákvæði, sem valda því, að ýmsir kinoka sér við að vinna að því, að lögunum sé beitt, vegna þeirrar harðleikni, sem hinir brotlegu verða fyrir. Ég býst við, að ef mönnum hefði verið gefinn kostur á að segja meira en já og nei við atkvæðagreiðsluna, þá hefðu margir látið í ljós þá skoðun, að órétt væri að beita mjög ómannúðlegum refsingnm. Og ég hygg, að allmargir, sem hlynntir eru þó bannhugmyndinni, fordæmi bannlögin m. a. vegna þessara hörðu refsiákvæða. Það vill oft verða svo, að gríðarlega harðar refsingar hafi neikvæð áhrif. Heilbrigðar leiðbeiningar og réttlát umvöndun reynist oft sigursælli til þess að skýra hugmyndir manna um mismun góðs og ills og styrkja löngun manna til þess að breyta vel og skynsamlega. Þetta er nú almennt viðurkennt, og heilbrigt almenningsálit styðst fyrst og fremst við réttlætistilfinningu einstaklinganna. Hæstv. forsrh. vék að þessu áðan, og mynd sú, sem hann dró upp af ástandinu, var ekki fögur. Það er sjálfsagt að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, því að jafnan er betra að vita rétt en hyggja rangt. En þó að hæstv. forsrh. vildi sanna, að bannlögin hefðu ekki orðið til neins góðs, sannaði það ekki, hvernig ástandið verður, þegar numin væru úr gildi þau slitur bannlaganna, sem enn eru eftir. Það er óreynt, hvort sú breyting verður til hins verra eða betra. Mér er það ljóst, að þessi lög eru borin fram í þeim tilgangi að bæta úr því ástandi, sem nú er, og er ekki nema gott um það að segja. Hann komst inn á það, að þegar gerðar væru of háar kröfur til óþroskaðrar þjóðar, þá hefði það illt eitt í för með sér, og hann nefndi í því sambandi hinn heiðna sið að bera út börn, sem eigi var úr lögum numinn þegar kristni var lögtekin í landinu. En sú saga ber vott um, að þeir, sem báru fram kristna trú á Alþingi, hafa þekkt og haft trú á hinum umskapandi mætti þessa nýja síðar og því lagi það á vald landsmanna sjálfra, hvort þeir vildu halda þessu hryllilega ákvæði um útburð barna. Þeir hafa gert það með það fyrir augum, að siðbótin yrði þess megnug að uppræta úr hugum manna réttmæti slíks verknaðar. Og sagan hefir sannað, að þeir fóru ekki villir vegar. Smám saman mildaðist hugsunarhátturinn og barnaútburður hvarf síðan úr löggjöfinni af sjálfu sér. Nú er svo komið fyrir löngu, að útburður barna er álitinn hryllilegur glæpur af öllum almenningi. Hér hefir því verið farin sú rétta leið til betrunar og fullkomnara uppeldis meðal þjóðarinnar. Saga bindindismálsins er nú orðin gömul hér á landi, talsvert eldri en goodtemplarareglan, þó að hún hafi markað dýpst spor á meðal þjóðarinnar og mestu komið til leiðar. Goodtemplarareglan hafði andbyr í upphafi, en nú er svo komið, að allir hugsandi menn þjóðarinnar viðurkenna hennar þarflega starf, og hefir það verið viðurkennt af Alþingi með því að úthluta henni meiri og meiri styrk til bindindisstarfsemi í landinu. Hún hefir barizt fyrir heilbrigðis- og siðgæðismálum, og takmarkið mun hafa verið að útrýma öllu áfengi úr landinu, enda þótt sú krafa kæmi ekki fram í upphafi og ekki fyrr en á síðari árum. En þegar starfsemi reglunnar óx fiskur um hrygg, var eðlilegt, að þessi krafa væri borin fram, enda var hún studd af mörgum ötulum bindindismönnum; má þar t. d. nefna Guðm. Björnson landlækni, sem barðist ötullega fyrir því á Alþingi, að komið væri á vínbanni. Ég ætla ekki að fara að rekja sögu málsins, því að hún er öllum kunn. Það var eðlilegt, að þeir, sem fremstir stóðu í baráttunni gegn áfengisbölinu, vildu ganga sem lengst í þessu efni. Þeir höfðu manna bezt kynnt sér það böl, sem áfengið hafði leitt yfir þjóðina í heild og einstaklinga hennar. Það var því engin furða, þó að þeir vildu taka djúpt í árinni. Svo var bannið lögleitt, og ég held, að mér sé óhætt að segja, að allt hafi gengið sæmilega meðan bannið var meira en nafnið tómt. Þá heyrðist ekkert talað um brugg og smygl, sem síðan hefir dunið yfir þjóðina. Síðan fór sem fór, fyrir ástæður, sem margir þekkja, og loks kom að því, að þjóðin var látin kveða upp úr með það, hvort hún vildi afnema bannið eða ekki. En því fór svo, að mikill hluti þjóðarinnar greiddi atkv. með lögunum og margir sátu hjá. Það virðist nú bera vott um lítinn áhuga að sitja hjá og skipta sér ekkert af úrslitunum, en vera má, að ástæðan hafi verið sú, að bannlögin hafi orðið mörgum vonbrigði, sem þó voru hugmyndinni hlynntir, og er það sorglegur þáttur í sögu bindindismálsins, að svo skyldi takast til.

Hæstv. forsrh. minntist á skaðsemi tóbaksins. Ég vil taka undir það, því að ég álít, að hinir meinleysislegu vindlingar í silfuröskjunum séu oft upphaf að öðru verra. Það er vissulega rétt, að börn og ungar stúlkur, sem fara að reykja, svipta sig miklu af því, sem þarf til uppbyggingar líkama og sálar, og að tóbakið hefir skaðleg áhrif á taugakerfið, heilann og hin fíngerðari líffæri. Það eru ekki nema fáir dagar síðan kona ein lét í ljós við mig undrun sína yfir því, að því skyldi aldrei hreyft á Alþ., hve tóbak væri skaðlegt og hve neyzla þess færi ískyggilega mikið í vöxt. En það er nú svo komið, að varla er hægt að fá sér kaffibolla á kaffihúsi fyrir reykjarsvælu unga fólksins, og ég álít, að þessar reykingar séu upphaf margra óheilla miklu meir en menn almennt gera sér grein fyrir.

Ég veit, að þetta frv. er borið fram til þess að ráða bót á því böli, sem stafar af bruggi og smygli, einkum brugginu, og ég mundi manna fyrst greiða atkv. með því, ef ég hefði trú á, að það kæmi að tilætluðu gagni og yrði til þess að útrýma brugginu og öllum þeim óheillum, sem því fylgja. En ég verð að segja, að ég er vonlaus um þetta, og það hefir ekki neitt komið fram hér, sem vakið hefir þá von hjá mér, að slíkt mætti verða. Ég sé ekki neina skynsamlega ástæðu til að ætla, að það geti komið í veg fyrir brugg, þó að inn sé flutt meira vín og sterkara en verið hefir. Eina leiðin væri víst sú, að selja vínið svo ódýrt, að bruggið stæðist ekki samkeppnina. En þá kemur til greina annað alvarlegt atriði, og það er aukinn drykkjuskapur í landinu. Það hefir verið játað, að allmikið væri um drykkjuskap á meðal þjóðarinnar, og má sízt á það bæta. Það er óþarfi að ræða hér um það böl, sem allajafna leiðir af áfengisnautninni, því að það er öllum kunnugt, að þar er um að ræða hina alvarlegustu hluti. Það hefir verið bent á, að það kæmi illa heim á þeim neyðartímum, sem nú standa yfir vegna atvinnuleysis og vandræða, að löggjöfin færi að rýmka um vínnautnarmöguleika manna í stað þess að takmarka þá. Það hefir réttilega verið bent á óheill þá, sem leitt hefir af innflutningi Spánarvinanna, hvernig þau hafi kennt unga fólkinu að drekka. Ég vissi um margar mæður, sem báru ugg í brjósti, þegar þessi sæti og girnilegi drykkur var leyfður til sölu, og það er ekkert leyndarmál, að þessi sakleysislegi drykkur hefir leitt bæði sonu og dætur margra hinna áhyggjufullu mæðra til áfengisnautnar. Það er talað um, að nú orðið sé varla hægt að halda dansskemmtun án þess vín sé haft um hönd, og það þykir ekki lengur tiltökumál, þó að ungar stúlkur flækist þar fullar innan um piltana meira og minna ölvaða. Reynslan er oftast sú, að þó að byrjað sé í smáum stíl, fer löngunin í nautnina vaxandi. Það ætlar sér enginn í byrjun að verða ofdrykkjumaður. En hvernig fer? Er það ekki litla glasið með sæta vökvanum, sem oft og tíðum veldur því, að neytandi þess verður þræll þeirrar ástríðu, sem veldur svo ósegjanlegri óhamingju? Ég get því ekki með neinu móti greitt atkv. með neinni rýmkun á innflutningi og sölu áfengis. Hinsvegar mundi ég fúslega veita stuðning sérhverri viðleitni til að koma í veg fyrir bruggið í landinu, en ég hygg, að þetta frv. komi þar ekki að gagni eins og það er nú borið fram. Ég mun því a. m. k. ekki geta fylgt því óbreyttu.

Og þó að ég kunni að standa hér ein míns liðs. veit ég, að ég styðst við mikinn hluta minna kjósenda, sem líka eins á málið. Ég veit, að allir hv. þdm. eru mér sammála um, að þeirri reglu verður að fylgja, enda þótt menn geti greint á um leiðirnar, sem fara má.

Ég vona svo að lokum, að þessu máli verði tryggð þau úrslit, sem verða þjóð vorri til blessnar, en ekki bölvunar.