27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

77. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég býst við, að hv. 1. þm. Eyf. þurfi ekki að óttast málþóf af minni hendi, enda lagði hann áherzlu á, að ekki yrði beitt málþófi í þessu máli. Ég tók það strax fram í fyrri ræðu minni, að ég myndi ekki gera það, en hinsvegar tel ég þetta mál þannig vaxið, að sjálfsagt sé, að það verði vel rætt við 1. umr. og verði þá rætt í heild. Samkv. þingsköpum er gert ráð fyrir, að farið sé út í einstakar gr. frv. við 2. umr. málsins, og mun ég því ekki gera það að þessu sinni. Ég þarf ekki að vera langorður. Ég þarf aðeins að svara nokkrum atriðum í ræðu hæstv. dómsmrh. og ræðu hv. 1. þm. Eyf., og í mörgum tilfellum get ég svarað þeim báðum í einu. Báðir hafa viljað bera brigður á þau rök mín, að atkvgr. sú, sem þetta mál var byggt á, hafi verið þannig, bæði hvað undirbúning og framkvæmd snertir, að hún væri röng mynd af þjóðarviljanum í þessu efni. Ég skal taka það fram, að þar var sérstaklega eitt atriði, sem ég varð undrandi yfir, að þeir skyldu vefengja, og það var, að ég sagði, að kosningatíminn hefði ekki verið heppilegur. Báðir þessir hv. þm. hafa haldið því fram, annar hér á þingi a. m. k. og hinn utan þings, að þessi tími væri einhver sá óheppilegasti fyrir fundahöld í sveitum. Hvorugur þeirra reyndi að hnekkja þeim rökum, að samkv. skýrslu um atkvgr. hefir þessi meiri hl. í kosningunum verið um 30% af öllum kjósendum landsins. Ég verð því að telja það nægileg rök, sem ég hefi fært fyrir því, að þessi atkvgr. hafi farið þannig fram og verið þannig vaxin, að hún sé ekki nægileg afsökun til þess að réttlæta fylgi hv. þdm. við þetta frv. Hitt er annað mál, að þeir, sem áður voru ákveðnir í því, að þessa leið bæri að fara, þurfa ekki á atkvgr. þessari að halda sem afsökun. Þannig er um báða þessa hv. þm., hygg ég. Það breytir engu um það, sem ég hefi haldið fram, að ekki sé hægt að gera tilraun til þess að breyta skoðun manna í þessum efnum á þeim grundvelli, að þeim bæri að virða vilja þjóðarinnar.

Ég vil leyfa mér að draga þá fullyrðingu hæstv. dómsmrh. í efa, að meira sé drukkið hér á landi en í öðrum sambærilegum löndum, t d. á Norðurlöndum. Ég hefi því miður ekki skýrslu um þetta hér við hendina, en hún er ábyggileg. Hún er frá 1930. Hún sýnir m. a., að þrátt fyrir það, þótt mikið hafi verið drukkið hér á landi, var þó minna drukkið hér heldur en annarsstaðar á Norðurlöndum. Þetta getur að vísu hafa breytzt síðan.

Það getur verið, eins og hæstv. dómsmrh. segir, að það þurfi að eiga sér stað undirbúningur, áður en slík löggjöf geti komið að fullum notum. Það átti sér stað undirbúningur, áður en þessi löggjöf var sett. Annað mál er það, að bæði er það ógætni okkar Íslendinga, ekki sízt á löggjafarþingum, sem hefir gert það að verkum, að þessi löggjöf hefir frá byrjun verið með þeim annmörkum, að fyrirsjáanlegt var, að hún mundi ekki að öllu leyti geta fullnægt, og svo bætist það einnig við, að undanþága á Spánarvínum hefir komið til sögunnar. En þrátt fyrir allt þetta er það þó víst, að þau bannlagaslitur, sem gilda ennþá, hafa samt hamlað upp á móti ofdrykkjunni, því að allir vita, að það þarf miklu minna af þeim sterku drykkjum, sem útilokaðir hafa verið, til þess að áhrif komi í ljós. Í þessu liggur nytsemi þessa bannlagasliturs. Nokkuð getur og legið í því, hvað slík vín eru dýr. Því verður alls ekki með rökum mótmælt, að þrátt fyrir allt, er stuðningur í þessu bannslitri, sem er. Svo ég tali nú ekki um það, að svo lengi sem við höfum bann, þá er frekar von um, að hægt sé að styðja að hömlum á ofdrykkju en þegar við erum búnir að koma því fyrir kattarnef, þá verðum við að reisa á nýjum grunni.

Ég vil minna þá hv. þdm., sem eru á svipuðu reki og ég, á að gera samanburð á ástandinu hér í Rvík, sem nú hefir um 33 þús. íbúa, og árið 1890. Engum, sem vill segja satt og rétt frá, dettur í hug að mótmæla því, hvílíkur geysimunur er á ástandinu hvað áhrif áfengis snertir nú og þá. Ég kom fyrst til Rvíkur 1890 og var hér á lokadaginn. Ég vil taka það fram, að þetta er ekki sagt Rvík til lasts, en ég hefi aldrei augum litið meira fyllirí en þann dag. Hvernig ætli ástandið væri hér í Rvík í þessum efnum núna, ef áfengisnotkunin hefði aukizt í hlutfalli við mannfjöldann? Það væri ægilegt. Hvernig sem menn velta þessu fyrir sér, þá er áreiðanlega mikið gagn að þessu banni, þrátt fyrir alla galla.

Ég hygg, að sú verði raunin á úti um land, að ástandið breytist innan skamms til hins verra, þegar búið er að opna flóðgáttina og veita straumi hinna sterku drykkja inn í landið. Sumir segja, að menn geti aflað sér sterkra drykkja hvenær sem er. Ég hygg, að þetta sé fullmikið sagt. Ég álít að hér í Rvík sé það svo, að viss flokkur manna geti aflað sér sterkra drykkja. Ég ímynda mér, að ekki sé hægt að segja um verkamenn hér í Rvík, að þeir geti fengið sér áfengisflösku hvenær sem er. (BSt: Það er áreiðanlegt, að þeir geta hvenær sem er fengið sér landa). Mér þykir ótrúlegt, að þetta sé rétt. Ég skal ekki deila um það. En ég hefi aldrei um nokkurra ára skeið séð verkamann drukkinn hér á götum Rvíkur. (BSt: Ég sagði, að þeir mundu geta fengið sér áfengi, en ekki að þeir gerðu það).

Hæstv. dómsmrh. minntist á tóbaksnautnina í sambandi við þetta mál. Ég er honum fullkomlega sammála um það, að það sé heppilegt og nauðsynlegt, að stuðlað væri að útrýmingu tóbaksnautnarinnar. En ég er ekki sammála hæstv. ráðh. um það, að skaðsemi tóbaks sé sambærileg skaðsemi áfengis. Ég hefi sjálfur kynnzt áfenginu lítilsháttar, enda þótt ég hafi ekki notað það, en tóbakinu hefi ég aftur á móti kynnzt af eigin notkun. Ég tel tóbaksnautnina löst á hverjum þeim manni, sem tóbaks neytir. (JÁJ: Löst? Nei, ekki löst!). Jú, löst. Að vísu kemur sá löstur aðallega fram á þeim, sem tóbakið notar. Það veikir hann smátt og smátt bæði andlega og líkamlega. Áhrifin ná ekki til konu og barna, nema að því leyti sem efnahagur allrar fjölskyldunnar skerðist við tóbaksnotkun heimilisföðursins.

Hvað áfenginu viðvíkur, hefir það ekki aðeins spillandi áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði þeirra, sem þess neyta, heldur ná áhrifin einnig að mjög miklu leyti til allrar fjölskyldunnar, og jafnvel einnig út fyrir heimilin. Þess vegna er nauðsynlegt að setja einhverjar skorður við skaðsemi áfengis. En mér er ókunnugt um, að nokkur ákvæði séu til í löggjöf annara þjóða viðvíkjandi tóbaksnotkun. Þó að tóbakið sé óþarfavarningur, er það samt ósambærilegt við áfengið hvað skaðsemi áhrærir.

Ég mun nú ekki fjölyrða frekar um ræðu hæstv. forsrh. Mér skildist hann líta svo á, að nú væri eina ráðið í þessum efnum að efla bindindisstarfsemina í landinu og breyta hugsunarhætti landsmanna. Þá leið ætti að fara, taldi hæstv. ráðh. Hæstv. forsrh. er þessari leið víst nokkuð kunnur. Ég vil taka það fram, að það mun aldrei standa á mér, þegar um það er að ræða, að útrýma böli áfengisins. Ég hygg að hv. 1. þm. Eyf. hafi látið orð falla á sömu leið, að nú væri ekki um annað að ræða en að leggja allt kapp á að breyta hugsunarhætti fólksins og boða bindindi. Samt fannst mér vera hægt að grilla í það bak við orð hv. l. þm. Eyf., að hann hefði ekki óbifanlega trú á þeirri bindindisstarfsemi, sem höfð hefir verið um hönd síðustu hálfa öld. (BSt: Alveg rétt). Hann lét það jafnvel í ljós, að þessi starfsemi ætti nokkurn þátt í því, að örlög bannlaganna urðu þau, sem raun ber vitni um. Ég skal ekki fara út í rökræður um það atriði. Þeir menn, sem halda því fram, að það beri að gera þjóðina bindindissama og eigi að breyta almenningsálitinu í þessum efnum, en segja svo í hinu orðinu, að góðtemplarareglan eigi ekki að gera það, þeir verða að benda á einhverja aðra leið og einhverja aðra starfsemi, sem á að taka við. Þrátt fyrir allt og allt er það templarareglan, sem hefir staðið af sér öll straumhvörfin. Önnur bindindisstarfsemi hefir liðið undir lok að meira eða minna leyti. Ég skal ekki bera á móti því, að reglan kunni að hafa starfað of slælega, en þeir, sem ekki bera traust til hennar þrátt fyrir þetta, eiga þá að benda á aðra leið, sem fær er um að taka það hlutverk að sér að leysa betur úr þessu vandamáli. Ég er sannfærður um það, að það heldur því enginn fram í fullri alvöru, að eigi beri að halda uppi og hlúa að bindindisstarfsemi í landinu. Það er óskandi, að öllum þeim, sem nú eru ákveðnir í að greiða atkv. með þessu frv., gefist kostur á að sýna, hversu mikil alvara liggur á bak við það hjá þeim að boða bindindi í landinu. Ef þeir sýna þennan áhuga sinn í verkinu, þá dregur það mikinn brodd úr þeim ásökunum, sem ég hefi beint að þeim.

Hv. 1. þm. Eyf. fór að tala um uppeldismál, og tók hann fram, eins og rétt er, að bann- og bindindismál væru yfirleitt uppeldismál. Hann tók það fram, að tvær aðferðir væru notaðar í þessum efnum. Önnur væri frjáls aðferð, en hin hýðingar, eins og hann orðaði það. Hv. þm. virðist hafa haft eitthvert sérstakt uppeldi með höndum. (BSt: Kennari í 15 ár). Ég hefi ekki komizt svo langt ennþá, en samt hefi ég dálítið haft af uppeldismálum að segja. Það er mín reynsla, að báðar þessar aðferðir þurfi að viðhafa, ef uppeldið á að vera gott. Það þarf bæði að uppfræða og aga. Ég skal ekki um það dæma, hvernig reynsla hv. þm. hefir verið frá hans kennslustörfum, en ég geri ráð fyrir, að hún hafi verið eitthvað á þessa leið.

Hv. 1. þm. Eyf. virðist vera allsögufróður. Hann vitnaði í Pál Stígsson og Stóradóm. Stóradómi átti að beita á mig, ekki samt með því að drekkja mér, heldur með því að líkja mér við Pál Stígsson. Ég er nú ekki svo sögufróður, að ég vilji fara langt út í þetta mál. En ég vil samt taka það fram, að þegar Stóridómur var afnuminn, voru ekki neitt sérstaklega rýmkuð þau ákvæðin, sem þar voru bönnuð, heldur aðeins refsingarnar. Mig minnir, að svo hafi þetta verið, en ég vil samt biðja velvirðingar á því, að ég er ekki vel að mér í sagnfræði.

En hvernig er þetta í þessu frv.? Mér sýnist Stóridómur eiga að haldast þar. Ég get ekki séð, að neitt sé dregið úr honum. En þar er gefið tækifæri til þess að lenda undir Stóradóm. Þess vegna er þessi tilvitnun og samanburður hv. 1. þm. Eyf. ekki eins mikið vopn og hann ætlaðist til í upphafi. Ef það er rétt, að líkja megi bannlögunum við Stóradóm, þá á ekki að fara eins að og gert er í þessu frv., heldur á að draga úr refsingunum, ef þær eru of strangar, eins og forfeður vorir gerðu. (BSt: Bannmenn hafa nú helzt verið á því hingað til að draga úr refsingunum!). Það kemur þessu máli ekki svo mikið við. Ef við eigum að nota fordæmið í Stóradómi, þá eigum við einnig að draga sömu ályktanir. Ég hefi ekki komið inn á það, hvort draga beri úr refsiákvæðum þessa frv. eða ekki. En ef það hefir verið svo, að einn aðalgalli áfengislöggjafarinnar hafi verið sá, að refsiákvæðin hafa, eins og einhver nefndi það, verið ómannúðleg, þá eigum við líka að lækna á réttum stað. Það á að draga úr því, sem er skaðlegt. Hv. 1. þm. Eyf. drap á undirbúning fyrir atkvgr. Hann svaraði hv. 4. þm. Reykv., og ég geri ráð fyrir, að hann svari fyrir sig. En ég vil þó ekki ganga framhjá þeim orðum hv. 1. þm. Eyf., að fræðsla sú, sem þjóðin hefði fengið í sambandi við undirbúning atkvgr. bannlaganna, hefði verið mjög einhliða og eingöngu frá templurum. Eitt af því, sem ég tel, að mætti ámæla templurum fyrir, er það, að þeir höfðu allt of lítinn undirbúning undir þessa atkvgr. Eins og Sókn bar með sér, voru skiptar skoðanir um það innan reglunnar, hvort hún ætti að skipta sér nokkuð af málinu. Niðurstaðan varð sú, að ákveðið var, að reglan skipti sér ekkert af þessu máli, nema að því leyti, sem hún gaf út blað sitt, sem sent var til kaupendanna, sem eru, eftir því sem ég bezt man, ekki nema á annað þúsund á öllu landinu. Í því blaði var haldið fram þeim sömu vörnum eins og gert hefir verið alla tíð, og ekkert meira. Þá má vera, að einstakir templarar hafi haldið fundi. En á þá fundi komu andstæðingarnir yfirleitt ekki. Það er þeirra siður. Ég get ekki séð, að þetta hafi verið neitt einhliða, þar sem andstæðingarnir gáfust óbeinlínis upp. Aftur á móti er mér kunnugt um það, að hér í Rvík var gefið út andbanningablaðið „Andbanningur“. Það kom að vísu ekki nema eitt tölublað af þessu blaði. Í því var ávarp frá fjölda manna í Rvík til landsmanna. Í því ávarpi er minnzt á það, hversu nauðsynlegt það sé fyrir þjóðina að losna við bannlögin. Þetta blað var sent inn á hvert heimili í mínu kjördæmi. Það var sent trúnaðarmönnum félagsins í Rvík, sem voru dreifðir út um alla hreppa í landinu. Þeir útbýttu því svo. Það mátti kalla einhliða „agitation“. Þúsundir manna geta vitnað, að rétt er frá sagt.

Bæði hæstv. forsrh. og 1. þm. Eyf. vitnuðu í reynslu annara þjóða. Við Íslendingar höfum orðið fyrstir til þess að setja bannlög og síðastir til þess að afnema þau. Það er gleðilegt fyrir Íslendinga. En hver er sú reynsla? Víða er hún svo stutt, að ekkert verður af henni ráðið. En alstaðar annarsstaðar er hún sú, að drykkjuskapur hafi aukizt stórkostlega við afnám bannlaganna. Sú reynsla er ekki til fyrirmyndar. Og ég er þess fullviss, að ef við hefðum reynt að þreifa fyrir okkur um bættar áfengisvarnir í gildandi lögum, hefðum við staðið stórum betur að vígi í því að verjast áfengisflóðinu, vegna þess hve landið er afskekkt og umflotið sæ, heldur en hin löndin, sem áföst eru meginlandinu. En í stað þess að taka þetta ráð, á nú að fara að bæta(!) áfengislöggjöfina með því að veita sterkum drykkjum inn í landið í viðbót við þá, sem fyrir eru! Hinsvegar á að láta refsiákvæði laganna og allt það, sem andbanningar hafa talið mest spillandi í lögunum, haldast alveg eins og áður.

Ég geri nú ráð fyrir, að örlög þessa máls séu ráðin hér í hv. deild. En ég vil þá vænta þess, að þeir, sem vilja fara þessa leið í áfengismálunum, geri um leið einhverjar ráðstafanir gegn drykkjuskaparbölinu, því að ég veit, að þeir trúa því ekki sjálfir, að þessi breyting út af fyrir sig bæti ástandið frá því, sem það er nú. Þótt mér sé ljóst, hver ógæfa leiðir af samþykkt þessa frv., er mér hitt ljóst líka, að mikið mætti draga úr þeirri ógæfu með því að lögbjóða t. d. fræðslu um skaðsemi áfengis í öllum skólum og tryggja það, að ekki væru aðrir kennarar en þeir, sem vildu og gætu veitt slíka fræðslu og gengið sjálfir á undan með góðu eftirdæmi, og taka hart á embættismönnum, sem vín hafa um hönd o. s. frv. En ef fylgismenn þessa frv. vilja ekkert gera annað en bæta við hinum sterku drykkjum, þá er þeim líka bezt að hætta þeim fullyrðingum sínum, að þeim sé annt um að efla bindindi meðal þjóðarinnar.