27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

77. mál, áfengislög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég lofaði því í fyrri ræðu minni, að ég skyldi ekki halda hér uppi neinu málþófi. En hér er svo stórt og mikilsvert mál á ferðinni, að ég tel ekki rétt að láta ræðu hæstv. forsrh. ósvarað, því að mér kom afstaða hans mjög kynlega fyrir sjónir.

Hæstv. forsrh. talaði að vísu rólega um málið, eins og vera ber, en komst ekki inn að kjarna þess. Hann leit næstum eingöngu á eina hlið málsins, refsilöggjöfina. Inn á þá hlið málsins hefi ég ekki farið, en má vera, að ég geri það við 2. umr. Hann kvaðst beita sér fyrir flutningi þessa máls af tveim ástæðum. Önnur ástæðan væri þjóðaratkvgr., sem fram hefði farið um áfengislögin, en hin sú, að hann tryði því, að ástandið myndi fara batnandi við þá breytingu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Þessi síðari ástæða kemur nokkuð merkilega fyrir sjónir hjá manni, sem sjálfur hefir verið lögreglustjóri árum saman og séð, hvílíkur meginþorri afbrota og glæpa stafar af áfengisnautn. Það virðist ákaflega ólíklegt, að brotunum fækki við það, að sterkari vínandi en síður verði leyfður í landinu. Og þessi trú hans er því svo mikil, að hann segist mundu hafa verið með afnámi núgildandi áfengislaga, þótt engin þjóðaratkvgr. hefði farið fram.

Ég er að vísu ekki kunnugur dómarastörfum, en ég hefi þó lesið sænska bók um þetta efni, áfengi og afbrot, eftir sænskan dómara, og ég held, að hann sé ekki á því máli, að meiri notkun víns myndi leiða til minni afbrota. Hæstv. ráðh. sagði ennfremur, að erfitt væri að halda uppi áfengislögum þar, sem veik vín eru leyfð. Ég skal fúslega játa, að það er auðvitað miklu erfiðara heldur en ef engin vín væru leyfð í landinu, en það sannar þó a. m. k. það, að ekki verði auðveldara að halda uppi reglu, ef sterk vín verða leyfð líka, og minni skammtur og ódýrari af víni en áður veldur meiri ölvun.

Hæstv. ráðh. sagði, að meira væri drukkið hér á landi en í nágrannalöndunum. Ég hefi að vísu ekki gögn í höndum til að afsanna þetta, en eins og hv. 2. þm. S.-M. hefir bent á, sýna síðustu skýrslur um þetta efni, frá 1930, aðra niðurstöðu.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að önnur lönd hefðu afnumið bannið hjá sér. Hér heldur hæstv. ráðh. uppi svörum háborgaralegrar auðvaldsstefnu. Á bak við afnám bannlaganna erlendis stendur sterkasta auðvald heimsins, áfengisauðvaldið. Enginn sannur umbótamaður getur því fagnað þeirri stefnu eða tekið sér hana til fyrirmyndar. Og ég vil benda á aðra mótsögn hjá hæstv. ráðh. Hann er íþróttamaður hinn mesti og íþróttavinur og trúir því, að íþróttavinir geti spornað á móti áfengisbölinu. En reynslan hefir sýnt, að íþróttamenn falla fyrir víninu eins og aðrir. Og því er það mótsögn hjá leiðandi manni hinnar ungu kynslóðar, eins og hæstv. ráðh. mun vilja láta telja sig, að vilja stuðla að því með afstöðu sinni til þessa máls, að gera hinni uppvaxandi kynslóð greiðari aðgang að heilsuspillandi og mannskemmandi eitri heldur en nú er.

Mér er sagt, að jafnvel í Bandaríkjunum sé nú vöknuð sterk hreyfing í þá átt, að banna aftur sölu vínanda, sem fyrir stuttu var lögleyfð, og hvert ríkið á fætur öðru ætli sér nú að fara þá leið aftur að banna sölu og innflutning alls vínanda. Og þetta er mjög eðlilegt.

Þar í landi er nú hafin sterk hreyfing í þá átt að bæta hag hinna vinnandi stétta. En þetta er alveg í mótsögn við það, sem hér er að gerast, þar sem formaður „stjórnar hinna vinnandi stétta“, sem kölluð hefir verið, berst fyrir því að veita víninu inn í landið og rífa þannig niður það, sem hann er að hjálpa til að byggja upp.

Nei, við skulum ekki vera að vitna í bráðabirgðasigra áfengisauðvaldsins, heldur sjá, hverju fram vindur. Og hvernig gengur svo með áfengislöggæzluna í þeim löndum, þar sem bannlögin hafa verið afnumin? Þar eru vopnaðar snekkjur fram með öllum ströndum, vegna þess, að freistingin til að smygla er jafn mikil eftir sem áður.

Hvað refsiákvæði laganna snertir, þá skal ég játa það, að ég er yfirleitt ekki trúaður á, að strangar refsingar bæti menn. En einkennileg er sú þjóð, sem vill draga úr borgaralegu velsæmi með löggjöf sinni og otar því að einstaklingnum, sem honum er refsað fyrir á eftir. Þetta er að auka tilefni refsinganna. Þá talaði hann um, að almenningsálitið tæki ekki hart á bruggi og smygli, og þeir menn, sem gerðu sig seka um líkt, bæru höfuðið jafnhátt á eftir. Þetta má vel vera, en er ekki svo um fleiri afbrotamenn? Hefir hæstv. ráðh. t. d. ekki virzt, að margir sem sekir hafa orðið um fjárdrátt, og þá einkum þeir, sem standa í efri tröppum þjóðfélagsins, gætu borið höfuðið nógu hátt á eftir? Það má vel vera, að þjóðfélagið sé ekki nægilega sterkt siðferðislega, enda vafasamt, hve heppilegt eða rétt það er, að almenningsálitið troði þá menn undir fótum, sem brotlegir hafa gerzt, eftir að þeir hafa tekið út refsingu sína. Með löggjöf eins og þessari er mjög hætt við, að refsilöggjöfin þurfi endurskoðunar með, því þessi löggjöf skapar nóg brot.

Hæstv. ráðh. var að bera saman skaðsemi víns og tóbaks og taldi lítinn mun þar á. Ég ætla ekki að fara deila við hann um slíka fjarstæðu, til þess er þessi staðhæfing of fráleit.

Þá vék hæstv. ráðh. að grundvellinum undir þessu frv., þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra. Allir vita, að þessi atkvgr. fór fram á hinum óhentugasta tíma, svo að kvenþjóðin, sem yfirleitt er þroskaðri í bindindismálum en karlmennirnir, átti erfitt með kjörsókn, sérstaklega í sveitunum, og sótti því mjög illa. Aðeins 30% af kjósendum hafa æskt breytinga á núgildandi löggjöf, og í slíku stórmáli sem þessu væri fjarstæða að taka tillit til slíkrar atkvgr. Þjóðaratkvæðagreiðslan er engin röksemd í þessu máli.

Hæstv. ráðh. er einn af fulltrúum hinna dreifðu byggða og ætti því að taka tillit til vilja þeirra í þessu máli. Og atkvgr. í fyrra sýndi það ljóslega, eins og reyndar var áður vitað, að í sveitunum er meiri andúð gegn víninu en í kaupstöðunum. Það er gleðilegur vottur um það, að sterk og heilbrigð sveitamenning sé enn við lýði. Sum héruð landsins, t. d. Vestfirðir, tjáðu sig með yfirgnæfandi meiri hl. andvíg afnámi bannsins. Þetta stafar af því, að leiðandi menn í þessum héruðum hafa fram til þessa barizt gegn vínnautn um langt skeið. Embættismanna og yfirstéttavaldið hefir ekki náð slíkum tökum þar sem víða annarsstaðar. Hæstv. ráðh. segir, að eftir 1927 hafi bruggun og smyglun aukizt. Þetta er mjög eðlilegt. Þegar kreppan eykst, og fræðsla um bruggun er látin ríflega í té í mörgum sjálfstæðisflokksblöðum landsins, þá er ekki furða, þótt einhverjir verði til þess að reyna að afla sér fljótfengins gróða með misjöfnum meðulum. Jafnvel merkir menn og lærðir hafa orðið til þess að útbreiða fræðsluna um bruggið og þannig gengið erinda erlendra víngróðafélaga, til að koma bannlögunum á kné. Annars liggja auðvitað engar skýrslur fyrir um brugg í landinu, og ekki smygl heldur. En þó ætla ég, að talsvert meiri hemill hafi verið hafður á smygli eftir 1930 en fyrir þann tíma. Og ég vil í þessu sambandi nota tækifærið til að þakka hæstv. fyrrv. dómsmrh. fyrir það, hve rösklega hann gekk fram í því í sinni stjórnartíð að uppræta bruggið.

Ég skal svo láta úttalað við hæstv. forsrh., af því að mér skildist, að hann mundi ekki taka til máls aftur.

Þá kem ég að þeim höfuðberserk, sem Bakkus konungur hefir fengið í lið með sér í þessari hv. d., hv. 1. þm. Eyf. Hv. þm. vildi gera mikið úr því sérstaka fyrirbrigði, að hér skyldu fara fram miklar umr. um málið við 1. umr. þess hér í hv. d., þar sem það hefði verið afgr. frá hv. Nd. Ég vil benda hv. þm. á, að annað eins hefir nú skeð í öðrum málum og í öðru lagi að hv. þm. Nd. tala fyrir sig og þm. Ed. fyrir sig.

Hv. þm. sagði, að við bannmenn töluðum eins og steypa ætti einhverju nýju áfengisflóði yfir landið. Það er rétt; ég sé ekki annað en nýtt áfengisflóð eigi að koma yfir þetta land. Ég hefi þegar bent á, hvað það er þýðingarmikið fyrir okkur að draga enga dul á það, að hér er verið að steypa nýju áfengisflóði yfir landið. Ég er ekki að tala um bann eða ekki bann, heldur hvort á að bæta við lögleyfðum sterkum vínum, og það er búið að færa rök að því, að þau munu auka drykkjufýsnina og áfengisnautnina, og þess vegna köllum við þetta áfengisflóð. Jafnvel þótt Alþingi tækist að hafa einhver takmörk á því, hvernig þessu sterka áfengi verði úthlutað, þá býst ég við, að a. m. k. til að byrja með verði eftirsóknin það mikil eftir þessum víntegundum, að það verði sannkallað flóð.

Hv. þm. upplýsti fyrir nokkru, að þegar hann var barn, hefði hann verið með banni á víni. (BSt: Ég var ekki barn 1908, heldur fullorðinn maður). Hv. þm. virðist hafa gengið frá sinni barnæsku, því að þá var hann á réttri braut, og hefur því tapað hinu bezta úr barnseðlinu, því þá fór hann eftir áliti sér vitrari og reyndari manna. Þá valdi hann hið betra hlutskipti, en nú lokar hann augunum fyrir því, sem er að gerast, og nú ætti hann að fara að ráði sér vitrari manna eins og hann gerði fyrr. Gamall málsháttur hljóðar svo: Blindur er hver í sjálfs sín sök.

Hv. þm. vildi leggja mikla áherzlu á, að þetta væri svo mikið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð. Ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. komst að þeirri niðurstöðu um daginn, og fær hann orð fyrir að vera heldur glöggur á tölur, að ríkissjóður mundi ekki græða svo mikið á þessu þegar allt kæmi til alls. M. ö. o., að neyzla léttu vínanna mundi minnka og neyzla sterkru vína aukast, en af þeim þarf minna að drekka til þess að verða jafnglaður, eins og hv. þm. mundi vilja kalla það.

Ég býst við, að hann hafi haft nokkuð rétt fyrir sér, að tekjurnar muni ekki aukast, en bölið af áfengisnautninni aukast þeim mun meir.

Þá vildi hv. þm. færa þau rök fyrir sínu máli, að miklu af vínum væri smyglað inn í landið, sem ríkissjóður fengi engan toll af. Það er rétt, að ríkissjóður græðir ekkert á smygluðum vínum. En hv. þm. gerði mikið úr því, hvað miklu væri smyglað inn í landið af sterkum vínum. Ég get upplýst hv. þm. um það, að meðal almennra verkamanna er yfirleitt ekki smyglað vín á borðum. Þau munu aðallega vera á borðum þeirra, sem meira hafa úr að spila, og eftir því, sem ég hefi komizt næst, þá er það mjög takmarkað, sem þeim tekst að hafa á borðum sínum af þessum margumtöluðu smygluðu vínum, þó að það mætti vera minna en er. Hins vegar er það ein af aðferðum andbanninga að ýkja smyglunina sem mest, til þess að gera það bann, sem nú er, tortryggilegt.

Þá minntist hv. þm. á refsiákvæði frv. Hann sagði, að við bannmenn vildum innleiða hýðingar. Ég verð að segja það, að fyrst verið er að setja lög, sem þjóðfélagið vill að sé hlýtt, þá verður að setja einhver viðurlög, sem tryggja það að þau séu ekki brotin, en hvað þan eiga að vera ströng, verður ávallt álitamál. Sumir vilja ströng refsiákvæði og aðrir væg. Um þetta atriði út af fyrir sig má lengi deila, og sérfræðingar á þessu sviði eru heldur ekki á eitt sáttir. En ég skal taka það fram, að eins og frv. var úr garði gert þegar það var lagt fram í Nd., þá voru þar refsiákvæði, sem vörðuðu atvinnusviptingu næstum æfilangt, fyrir það eitt að brjóta viss ákvæði laganna, en það er sú þyngsta refsing, sem hægt er að leggja á nokkurn mann. Það er sama og taka brauðið frá honum og skylduliði hans. En sem betur fer var þetta fellt úr frv. í hv. Nd. En við, sem erum á þeirri skoðun, að það sé rangt að bjóða mönnum upp á þessa óhollu drykki, viljum ekki láta löggjöfina gera leik að því að hvetja menn til lögbrota. En það gerir löggjöf sem þessi, því miður. Þá vildi hv. þm. snúa út úr mínum orðum, þegar ég var að tala um hinn einhliða áróður, sem hafinn var við atkvgr. síðast. Ég leyfi mér að segja, að því miður voru bannmenn ekki svo vel á verði sem vera þurfti, því að áróðurinn var að miklum mun sterkari af hálfu andbanninga, eins og vitanlegt var, þar sem þeir höfðu nóg fjármagn efnamannanna í þessum bæ á bak við, til þess að kosta þennan áróður. En ég vil þó undanskilja þá góðu menn innan efnastéttar bæjarins, sem ekki eru á þeirri skoðun, að ganga eigi þessa braut, en þeir eru í stórum minni hluta. Kosningahitinn var svo mikill hér í bænum eins og við grimmustu bæjarstjórnarkosningar eða alþingiskosningar. Andbanningar höfðu fjölda bifreiða í þjónustu sinni, til þess að smala fólkinu á kjörstaðinn. (BSt: Hvað höfðu bannmenn margar bifreiðar?). Þeir höfðu örfáar í samanburði við andstæðingana. Sami ákafinn og hér í bæ hafði verið hjá andbanningum víðsvegar úti um land. En fyrir hvað voru þessir menn að vinna? Fyrst og fremst voru þessir menn að vinna fyrir sínar eigin nautnir, og ef til vill hafa einhverjir staðið í sambandi við erlendar áfengisverksmiðjur. í von um hagnað, ef markaður ykist hér á landi.

En það er komið sem komið er í þessum efnum. Atkvæðagreiðslan er látin gilda, svo ófullkomin sem hún er, og afleiðingunum verðum við að taka. En ekki kæmi mér á óvart, þó að þessi herforingi Bakkusar konungs hér í hv. d. sæi eftir því síðar, og máske fyrr en hann grunar, hve mikið kapp hann hefir lagt á þetta mál á því herrans ári 1934. Því að ekki ætla ég að væna hann um, að hann vilji ekki þjóð sinni vel í hverju máli, er hann fjallar um, en mönnum getur missýnzt í þessu sem öðru, og í þessu tilfelli hefir hent hann skynvilla.

Þá var hv. þm. að tala um, hvernig við ættum að draga úr „landa“flóðinu. Ég drap lauslega á það áðan, að „landinn“ er að mínu viti orðinn til sem hver önnur verzlunarvara, vara, sem menn hafa lært að framleiða og hafa hagnað af að selja, vitanlega á ólöglegan hátt. Og hver er munurinn á því, að menn drekki innlenda framleiðsluvöru eða þá, sem flutt er til landsins? Verða menn ekki jafnglaðir á mælikvarða hv. þm., hvors drykksins sem neytt er? Nú er þessum vesalings mönnum bannað að brugga, sem er sjálfsagt og rétt, en jafnframt er erlendum bruggunarverksmiðjum leyft að flytja vín til landsins. Mér finnst ekkert samræmi í þessu hjá þeim mönnum, sem berjast fyrir innlendri framleiðslu. Það, sem gera þarf, er að banna bruggun, banna innflutning sterkra vína, og næsta stigið er að gera landræk hin léttari vín, sem við höfum búið við undanfarin ár okkur til skaða og skammar. Þetta er takmarkið, sem verður að vinna að, en ekki það, sem hér er farið fram á, að uppræta bruggunina eina, en leyfa svo innflutning erlendra vína. Þetta er sá meginstefnumunur, sem er á milli okkar, sem hér höfum talað.

Svo sagði hv. þm., að allar hrakspár andbanninga hefðu rætzt í þessu máli. Það er rétt að ég minnist þess, að Hannes Hafstein sá ef til vill lengra en margur annar, þegar var verið að innleiða bannið. Hann þekkti embættismannastétt landsins og vissi, hvað hún var þung í skauti gegn öllum umbótum. Hann þekkti einnig löghlýðni hennar og nautnasýki. En það var rétt stefna þrátt fyrir allt, sem tekin var 1908, og þeirri stefnu var hægt að halda uppi, ef þjóðin hefði verið á verði og ekki hefðu komið fram svo margir Júdasar sem raun varð á, því að það var júdasarstefnan, sem fyrst reyndi að veikja bannið og síðan að afnema það með öllu. Nú kveður við siguróp hjá andbanningum, því að Alþingi er þann veg skipað nú, að það getur látið kenningar þeirra rætast, að hér sé ekki hægt að halda uppi þessum bannlagaslitrum, sem eftir eru. En þeir hinir sömu menn eiga kannske eftir að sjá, hve mikla giftu afnám bannsins muni leiða yfir þjóðina. Fyrst svona er komið, sem raun er á orðin, þá er það mín einasta von, að erlendar þjóðir ryðji okkur braut í þessum efnum. Að nýir erlendir straumar skelli á okkur eins og bylgja úthafsins upp á ströndina og kenni okkur að reka þennan ófögnuð úr landi aftur. En slík bylgja er nú risin upp vestur í Bandaríkjum, og ef til vill á hún eftir að fara sigurför um heiminn, og þá mun hún brotna við Íslandsstrendur, eins og öldur Atlantshafsins berast oss að hendi, og færa yfir okkur nýtt líf, nýjan yl, nýtt þjóðlíf.