27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætlaði ekki að taka til máls aftur, en vegna þess að komið hafa fram nokkur ummæli, sem mér finnst vert að taka til athugunar, þá hefir það nú orðið úr.

Það er þá fyrst og fremst staðhæfing beggja þeirra hv. þm., sem hafa talað á móti þessu frv., að sterku vínin væru útilokuð með þeim bannlagaslitrum, sem við hefðum nú. Þetta er hinn mesti misskilningur. Sterku vínin eru flutt inn í landið alveg eins þrátt fyrir bannið, sérstaklega á hafnir utan Reykjavíkur, en svo eru þau flutt hingað á bifreiðum. Þessu hefir ekki verið reynt að mótmæla með neinum rökum.

Það hefir verið minnzt á, að ástandið sé ólíkt nú eða var, áður en bannlögin voru sett, og að öðruvísi líti út hér í Reykjavík nú. Í þessu sambandi vil ég benda á, að 1908 höfðum við engar bifreiðar, og það er staðreynd, að sá drykkjuskapur, sem nú á sér stað í Reykjavík, fer að mestu leyti fram í bifreiðum, og er þess vegna ekki sjáanlegur nema að litlu leyti þeim vegfarendum, sem um götur bæjarins fara. Þetta stafar af því, að talsvert strangt eftirlit er haft með því, að ölvaðir menn sjáist ekki á götum út í.

Ég skal ekki minnast mikið á tóbak, en benda vil ég á, að þeim rökum hefir ekki verið hnekkt, að ef við ætlum að ganga sérstaklega inn á þá leið að hafa bannlög gegn öllum þeim nautnum, sem skaðlegar eru heilsu manna, þá mætti eins taka tóbakið með. Og það er viðurkennt af báðum hv. andmælendum þessa frv. hér í d., að tóbak sé skaðlegt. Það er ekki stefnumunur í þessu tilfelli, sem skiptir máli, heldur að hvorttveggja gerir skaða, enda hefir það verið rætt af mörgum, einkum fyrir 10 til 20 árum.

Viðvíkjandi refsingunum vil ég taka það fram, að ég álít, að réttmætt sé að halda þeim að nokkru leyti, þó að bannið verði afnumið, og kannske fremur fyrir það. Í þessu sambandi vil ég benda á, að það er allra manna álít, að það brot sé refsivert, og að dómi almenningsálitsins svívirðilegt, að svíkjast undan tolli. Tollsvik eru miklu meira fordæmd af almenningsálitinu heldur en innflutningur á áfengi, þó að benda megi á, að með því að flytja inn áfengi sé verið að svíkjast undan tolli. En það er eins og almenningsálitið hafi skapað sér um það einhverja þá skoðun, sem gerir það að verkum, að innflutningur áfengis er ekki talinn nærri því eins svívirðilegt brot og að svíkjast undan tolli. Menn taka miklu meira eftir því, að sagt er frá tollsvikum, heldur en þótt talað sé um innflutning áfengis, og fordæma það miklu harðara. Þess vegna er réttmætt að halda við refsiákvæðum, en þau verður að miða við almenningsálitið í landinu. Refsing er ekki annað en það, að maður hefir brotið á móti almenningsálitinu. Það er í raun og veru sá eini mælikvarði á refsingar, og þess vegna hefir víða verið tekinn upp sá siður, að dómar eru dæmdir af almennum borgurum (kviðdómar), til þess að dæmt sé í sem beztu samræmi við almenningsálitið.

Það hefir verið á það minnzt, að við, sem viljum afnema bannið, trúum því, að ástandið muni batna við það. Ég vil ekki láta þessu ómótmælt. Ég trúi því alls ekki, að afnám bannsins verði allra meina bót. Ég álít, að fyrsta og annað árið muni engu síður verða erfitt heldur en áður en bannið var afnumið. En síðan hefi ég þá trú, að ef vel er unnið, þá muni ástandið batna frá því, sem nú er.

Jafnframt hefir verið á það minnzt af hv. 2. þm. S.-M., að hann hefði getað fylgt þessari löggjöf, ef ströng ákvæði væru um, að embættismenn mættu ekki neyta áfengis við embættisstörf. Hann lét þá skoðun í ljós, að hann teldi, að þetta væri ljóður á frv., og ennfremur að ekki væri lögboðin fræðsla í skólum landsins um skaðsemi áfengisnautnar. Ég vil nú henda á, að í 19. gr. frv. er það sérstaklega tekið fram, að það er refsiverður verknaður af hálfu embættismanns og varðar frávikningu, ef hann er ölvaður við embættisstörf. Skal ég lesa þessa gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sá embættismaður eða starfsmaður ríkisins eða opinberra stofnana, sem er ölvaður, þegar hann er að gegna embætti sínu eða starfi, skal sæta refsingu. Þriðja brot varðar frávikningu úr stöðunni um stundarsakir, eigi skemur en 3 mánuði, eða að fullu og öllu, ef miklar sakir eru. Sé um lækni að ræða, missir hann lækningaleyfi sitt ásamt embættinu.

Sömu refsingu skal hver sá læknir sæta, þótt hann sé ekki embættismaður, sem er ölvaður, þegar hann er að gegna læknisstörfum sínum, og kemur þá missir læknisleyfis um stundarsakir eða fyrir fullt og allt í stað embættis- eða sýslumissis.“

Það er síður en svo, að ekki sé tekið strangt á þessu. Jafnframt er í 23. gr. ákveðið, að sett skuli reglugerð um fræðslu á skaðsemi áfengisnautnar í öllum skólum, er opinbers styrks njóta. Og í 21. gr. er ákveðið, að skipuð sé sérstök nefnd, áfengisvarnarnefnd, í hverjum bæ og hreppi á landinu. Ég hefi þá trú, að þessi starfsemi geti með tíð og tíma, ef vel tekst, unnið á móti áfengisbölinu meira en sú áfengislöggjöf, sem við nú höfum, sem hefir reynzt eins og staðreyndirnar sýna. Þær staðreyndir eru svo augljósar og á þann veg, að ég skil ekki í þeim mönnum, sem einhverja reynslu hafa af framkvæmd áfengislaganna, að þeir geti verið með þeim lengur. Þetta er reynsla mín.

Það hefir ennfremur verið tekið fram af hv. 4. þm. Reykv. — og lagði hann sérstaka áherzlu á það —, að ég hefði brugðizt honum mjög í þessu máli, því að með þessu virðist ég vera að þjóna yfirstéttinni, því að yfirstéttin vildi leyfa áfengisnautn, m. ö. o. afnema bannið. Mér er ekki umhugað að mótmæla þessu að öðru leyti en því, að ég vil láta koma fram það, sem rétt er í þessu máli, og benda hv. þm. á, að t. d. í Svíþjóð er ekkert bann, en þar eru samt jafnaðarmenn við stjórn. Og í Danmörku er ekkert bann; þó er jafnaðarmannastjórn þar. Þessar þjóðir hafa sjálfsagt þá trú, að betra sé með öðrum hætti að vinna gegn áfengisbölinu en að hafa bann.

Svo vil ég sérstaklega benda á eitt land, sem ætti að vera talandi tákn þess, að þar hefði yfirstéttin ekki ráðið um afnám bannlaganna, og það er Rússland. Þar voru bannlögin afnumin fyrir löngu síðan, og Rússar hafa tekið upp þá aðferð, að vinna sérstaklega kröftuglega móti áfengisnautninni, eins og ég er að benda á, að við eigum að gera í þessu máli og taka upp í staðinn fyrir þau bannlagaslitur, sem við nú höfum. Með þessu þykist ég nægilega hafa bent á, að það, hve skoðanir manna eru skiptar í þessum málum, fer ekki eftir því, hvaða stefnu í þjóðmálum þeir eru taldir þjóna.

Þá minntist hv. 4. þm. Reykv. á, að hann væri ekki fylgjandi því, að lagðar væru á þyngri refsingar en er. Í þessu sambandi vil ég henda á, að það er ekki hægt að neita því, að einmitt þeir, sem hafa verið fylgjandi hannlögnnum, hafa einnig verið því fylgjandi, að refsingar væru þyngdar. Og sem sönnun þess má benda á, að nær allar endurbætur á áfengislöggjöfinni á síðustu árum hafa gengið í þá átt að þyngja refsingarnar. Í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á, að þeir mundu vera fleiri, sem bæru höfuðið hátt þrátt fyrir refsingu fyrir ýmsar yfirsjónir, en þeir, sem brjóta áfengislögin, vil ég staðhæfa það sem mína reynslu í þessum efnum, að það er ómögulegt að neita því, að flest brot önnur en áfengislagabrot eru meira og minna fordæmd af fólkinu. Fjöldi manna hefir brotið áfengislögin án þess að almenningsálitið virðist hafa fordæmt það. Þetta er ekki annað en það, að fólkið er ekki orðið nægilegu þroskað í þessu til þess að hægt sé að taka upp löggjöf í þessu efni, því að það er ómögulegt að taka upp í löggjöf refsingar fyrir verknað, sem ekki er fordæmdur af almenningsálitinu, vegna þess, að refsingin er fyrst og fremst almenningsálitið. Manni, sem er sauðaþjófur, er ekki refsað með að vera lokaður inni í nokkra mánuði, heldur með því að vera dæmdur sannur að sök, sem fordæmt er af almenningsálitinu.

Það hefir verið talað um, að það, hvernig farið hefði, sannaði ekki um, að ekki hefði verið tekin upp rétt stefna viðvíkjandi áfengislöggjöfinni þegar bannið var sett, því að hvernig komið er, væri að kenna embættismönnum og ýmsum öðrum, sem stóðu að því leynt og ljóst að vinna á móti áfengislöggjöfinni. Þessi röksemdafærsla er ekki rétt, vegna þess, að alla löggjöf, hvort sem það er áfengislöggjöf eða önnur löggjöf, verður að miða við það ástand, sem er í þjóðfélaginu yfirleitt, bæði hjá embættismönnum og öðrum.

Þeir, sem fyrir sig hafa vilja til þess að fylgja þeim reglum, sem bannlögin settu í upphafi, hafa áfram rétt til þess að fylgja þeirri stefnu. Sá réttur verður ekki tekinn frá þeim með neinum l. En það skiptir ekki mestu máli í þessu sambandi, hverjum er um að kenna, að bannlögin hafa verið brotin, því að eins og ég hefi tekið fram, verður að miða löggjöfina við allt ástandið, sem í þjóðfélaginu er.

Það er mín trú, að ef við afnemum þá áfengislöggjöf, sem nú er eftir að nafni til, þá munum við ekki geta bætt ástandið í þessum málum hjá okkur á fyrsta eða öðru ári. En ef vel er unnið, þá á ástandið að fara batnandi eftir það og verða með tímanum betra en það er nú. Þetta hefir a. m. k. verið gangur málsins meðal annara þjóða, sem farið hafa inn á þessa braut, m. a. hjá þeirri þjóð, sem unnið hefir af mestum dugnaði á móti áfengisbölinu, Rússum. Þeir hafa afnumið áfengisbann hjá sér, en í þess stað tekið upp kröftuga baráttu á móti ofnautn áfengis, og eru þeir að mörgu leyti til fyrirmyndar í því efni.

Af því að ég hefi þá trú, að með þessu móti geti ástandið í þessum efnum hér hjá okkur farið batnandi undir þeim áfengisl., sem hér liggur fyrir frv. um, þá mun ég greiða atkv. með því að afnema það, sem eftir er af bannlögunum.