10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

77. mál, áfengislög

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég lít svo á, að aðalatriði þeirrar löggjafar, sem hér um ræðir, nefnilega afnám núverandi banns, sé útrætt mál. Ég lít svo á, að þjóðaratkvæðið í fyrrahaust hafi skorið úr þessu til fulls. Það var Alþ. sjálft, sem vísaði þessu máli til þjóðarinnar, og þjóðin svaraði því þannig, að mjög mikill meiri hluti þeirra, sem greiddu atkv., óskuðu eftir því, að áfengisbanninu yrði af létt. Það voru nálægt 16 þús. kjósendur, sem greiddu þannig atkv., en ekki nema 11624, sem sögðu nei. Og auk þess hefir nú þegar sú atkvgr. farið fram á Alþ., að það er sýnilegt, að Alþ. ætlar sér að verða við þessari kröfu þjóðarinnar. Frv. það til áfengislaga, sem hér liggur fyrir, var samþ. í Nd. með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. urðu nokkrar deilur um þetta aðalatriði þess, og má á því nokkuð marka vilja hv. d. á því, sem fram kom, þegar málinu var vísað til 2. umr., þar sem mótatkvæði komu þar fram, en eins og menn muna, þá var það mikill meiri hl. d., sem samþ. að málið gengi áfram. Ég álít því, að það sé tímatöf ein að ræða þetta grundvallaratriði, og mun því sleppa öllum umr. um það, enda heyra slíkar umr. frekar til 1. eða 3. umr. heldur en 2. umr. Þá mun ég einnig láta það niður falla, sem ég hafði þó að nokkru leyti ráðgert, að svara þeim tveimur hv. þm., sem beindu til mín orðum sérstaklega við 1. umr. málsins. Ef nauðsyn ber til, mun ég frekar taka upp umr. við þá um málið á þeim grundvelli við 3. umr.

En þó að svo megi líta á, eins og ég sagði áðan, að það sé útrætt mál, að afnema beri bannið, þá er hitt annað mál, að það þarf vitanlega að gera áfengislögin svo vel úr garði sem kostur er á. Og þá er í því efni einkum tvenns að gæta, að því er mér finnst og sjálfsagt mörgum fleirum. Í fyrsta lagi þarf að taka upp í löggjöfina allar þær varnir gegn misnotkun áfengis, sem skynsamlegar geta falizt og framkvæmanlegar, og í öðru lagi að varast þó að fara út í öfgar í því efni með því að setja t. d. ákvæði í l., sem ekki er hægt að framfylgja, eða sem komar algerlega í bága við réttarmeðvitund þjóðarinnar.

Það má segja, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé mjög vel undirbúið, eftir því sem vant er að vera um þau frv., sem lögð eru fyrir hið háa Alþ. Mér er fullkunnugt um það, og það er sjálfsagt kunnugt öllum hv. þm., að það var vandað vel til samningar frv., áður en það var lagt fyrir þingið, og auk þess hefir það fengið mjög rækilega athugun í Nd. Þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv. í Nd., hafa flestar miðað að því að skerpa þau ákvæði, sem eiga að koma í veg fyrir misnotkun áfengis, og verður að telja það til bóta, en það mun þó í flestum efnum vera svo rækilega gert, að lítið verði nú um bætt eftir að Nd. hefir gengið frá málinu, ef grundvellinum er á annað borð haldið, sem sé þeim, að afnema bannið.

Fjhn., sem hefir haft þetta mál til meðferðar, hefir því ekki séð ástæðu til þess að bera fram margar brtt. við þetta frv. Brtt. hennar eru aðeins 5 að tölu og eru að finna í nál. hennar á þskj. 700.

Fyrsta brtt. n. er við 2. mgr. 9. gr. frv., og er um það, að fyrir orðin „hreppi þeim eða kaupstað“ komi: „því sýslu- eða bæjarfélagi“. Þetta er um atkvgr. þá, sem fram á að fara meðal kjósenda, áður en áfengisútsala er sett á stofn á nýjum stað. Eins og frá frv. er gengið nú, gæti farið svo, að jafnvel fámennt kauptún, sem væri sérstakur hreppur, gæti sett á stofn áfengisútsölu hjá sér, þó að nærliggjandi sveitir væru því algerlega mótfallnar að hafa áfengisútsölu, og þó að þessar sveitir sæktu verzlun í kauptúnið. Þetta verður n. að telja ósanngjarnt, því að ef á annað borð er höfð atkvgr. um þetta atriði, hvort eigi að setja áfengisútsölur á stofn eða ekki, þá sýnist eðlilegt, að allir þeir kjósendur, sem málið varðar, fái að greiða atkv. um það. En það er ekki hægt að neita því, að nærliggjandi sveitir og íbúa þeirra, sem sækja verzlun í kauptúnið, varðar það alveg eins miklu og þá, sem í kauptúninu búa, hvort þar er áfengisútsala eða ekki. þess vegna er það till. n. í þessu efni, að atkvgr. þurfi að fara fram í allri hlutaðeigandi sýslu, þegar svo stendur á, að um það er að ræða að setja á stofn áfengisútsölu í kauptúni.

Þá vill n. fella úr 1. málsgr. 13. gr. orðin „eða aðra óleyfilega meðferð áfengis“, og er önnur brtt. n. um það. Eins og menn vita, er í 3. gr. frv. tiltekið, hvaða mönnum eigi að banna að selja áfengi. Hún bannar t. d. að selja ölvuðum mönnum áfengi, þeim, sem eru yngri en 21 árs, og ennfremur þeim, sem gerzt hafa sekir um ólöglega sölu áfengis og önnur stærri brot á áfengislöggjöfinni. N. telur, að öll þessi ákvæði séu rétt, en svo bætir greinin við þessum orðum, sem ég nefndi áðan, að n. vill fella niður. Eftir frv. og þessari fyrirhuguðu áfengislöggjöf verður það nú æðimargt, sem talið er með ólöglegri meðferð áfengis. Það er t. d. ólögleg meðferð áfengis að neyta þess í veitingastofum, sem ekki hafa vínveitingaleyfi, og margt fleira, sem almenningur telur nú ekki stórsaknæmt, er ólögleg meðferð áfengis eftir frv. Og við sumu af þessu liggur aðeins 25 kr. sekt. N. sýnist nú engin meining í því, ef banna á að selja öllum þeim mönnum áfengi, sem kynnu að hafa að einhverju leyti, ef til vill fyrir gáleysi, verið sektaðir fyrir slíka smávægilega yfirsjón, og hún telur líka, að þetta ákvæði frv. sé alveg óframkvæmanlegt. Það verður ekkert nema pappírsgagn, þó að slíkt væri haft í l., því að vitanlega væri ekki nema tilviljun ein, að áfengisverzlun væri það kunnugt, þegar maður kæmi í búð til þess að kaupa sér flösku, hvort hann hefði einhverntíma verið sektaður fyrir einhverja slíka smáyfirsjón. Hvað ætli menn vissu það t. d. á Akureyri, ef þangað kæmi maður úr Reykjavík og keypti þar flösku í áfengisverzluninni, þó að hann hefði verið sektaður um 25 krónur fyrir að súpa á flösku annarsstaðar en leyfilegt var? N. telur skaðlegt, að slík ákvæði séu í l., sem bæði koma í bága við réttarmeðvitund almennings og auk þess eru með öllu óframkvæmanleg. Undir þetta heyrir ennfremur það, ef menn hafa flutt inn áfengi til eigin nota, t. d. keypt sér flösku í skipi, til þess að drekka hana sjálfir, ellegar þá bruggað handa sjálfum sér. N. sér ekki betur en að það ákvæði að banna algerlega að selja þessum mönnum áfengi, geti leitt til þess að hvetja og espa þá til áframhaldandi brota. Ef þeir eru útilokaðir frá því að geta eignazt áfengi á löglegan hátt, þá er vitanlega þeirra freisting miklu meiri til þess að halda áfram að eignast það á ólöglegan hátt. Aftur á móti, þegar menn hafa gerzt sekir um að brugga áfengi, eða smygla því inn í gróðaskyni, til þess að selja öðrum, þá er þar vitanlega um miklu alvarlegri brot að ræða og þeir menn færri, sem svo stendur á um, og þess vegna eðlilegt, að bannað sé að selja þeim áfengi í áfengisverzlunum ríkisins. Þeir væru þá vísir til þess að kaupa þar áfengi til þess að selja öðrum á ólöglegan hátt. Með þessu vill n. því gera skýran greinarmun á þeim, sem að einhverju leyti hafa orðið brotlegir fyrir að fara ólöglega með áfengi bara sjálfs sín vegna, og hinum, sem eru að meðhöndla áfengi í þeim tilgangi að koma því í aðra og hafa sjálfir af því gróða.

3. brtt. n. er aðeins leiðrétting, sem ekki þarf skýringar við. N. þykja nokkuð óljós ákvæði 2. málsgr. 21. gr. frv., sérstaklega með hliðsjón af orðalagi fyrri málsgr. þessarar greinar. Eftir síðari málsgr. er ekki beinlínis hægt að sjá, að vélstjórar eigi að sæta refsingu, þó að nokkuð mikil slys hafi hlotizt af því að þeir hafi verið ölvaðir, og aðrir menn, ef til vill fákunnandi, orðið af þeim sökum að gegna starfi vélstjóranna, því að í þessari málsgr. er aðeins talað um þá, sem hafa stjórn farartækjanna á hendi. En það er ekki beinlínis hægt að segja, að vélstjórar á skipum hafi stjórn skipanna á hendi, en vitanlega getur þó verulegt slys hlotizt af ölvun vélstjóranna, og ef til vill ekkert síður en af ölvun skipstjóranna. Þess vegna er rétt að taka það skýrt fram, að refsingin gildi um alla þá, sem fyrri mgr. gr. talar um. þessi brtt. n. mun reyndar vera leiðrétting, því að meining frv. mun vera sú sama og n. vill vera láta, og þess vegna er 4. brtt. n. aðeins um það, að orða þetta skýrara, svo að öll tvímæli séu tekin af í þessu efni.

5. brtt. n. er aðeins leiðrétting á frv., sem ekki þarf skýringar við, og get ég því látið úttalað um álit n. í þessu máli.

Ég sé, að það hafa komið fram nokkrar brtt. frá öðrum hv. þdm. við þetta frv., bæði á þskj. 714, frá hv. 2. þm. S.-M. og hv. 4. þm. Reykv., og eins á þskj. 718, frá hv. 4. landsk. Ég mun ekki ræða þessar till. að sinni a. m. k., en skal þó geta þess, að n. hefir átt nokkurt tal um þær og hefir tekið ákvörðun um afstöðu sína til sumra þeirra, en aftur um aðrar þeirra hafa einstakir nm. óbundnar hendur.