10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

77. mál, áfengislög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi ekki kvatt mér hljóðs vegna þess, að hv. 2. þm. S.-M. hafi ekki gert fulla grein fyrir brtt. okkar, heldur fyrir það, að ég vil ekki láta 2. umr. um þetta frv. svo hjá líða, að ég láti ekki í ljós skoðun mína á ýmsum gr. frv. í sambandi við þær brtt., sem fyrir liggja.

Það merkilega fyrirbrigði hefir nú gerzt á Alþingi, að svo virðist sem allir flokkar þingsins hafi nú snúið bökum saman til varnar þessu frv. Ég veit ekki dæmi um jafnmikla einingu og bróðurkærleika í nokkru máli sem þessu hér á þingi. Áður en ég kem að einstökum brtt., vil ég víkja nokkrum orðum að hv. frsm. fjhn. Hann telur, að það, sem valdi því, að allir eigi nú að fallast í faðma og gera samtök um að leiða þá blessun yfir þjóðina, er hann telur í þessu frv. felast, sé atkvgr. um afnám bannsins, er fór fram á næst síðasta hausti. Vegna úrslita þeirrar atkvgr. eigi að samþ. þetta frv. Ég hafði við 1. umr. lýst þeim ástæðum, sem ég og allar þær þúsundir manna, sem greiddu atkv. móti afnámi bannsins, höfum fram að bera fyrir okkar skoðun. Ég skal ekki endurtaka þau rök, en ég vil segja það um málstað andbanninganna hér, að hann styðst við svo hæpin rök gagnvart þessu frv. sem framast getur verið. Þau 11 þúsund kjósenda, sem andmæltu afnámi bannsins, eiga rétt á því, að fyrir þeirra munn séu borin fram þau rök, sem við teljum vera fyrir hendi gegn þessu frv. Ég fyrir mitt leyti hefi þá skoðun, að öllum geti yfirsézt. Það eru allir þeim mannlega breyzkleika undirorpnir, að geta verið skammsýnir. Ég ætla mér ekki þá dul, að við getum ekki verið það líka, en ég hygg þó, að reynslan verði sú í framtíðinni, að afkomendur okkar blessi ekki þá menn, sem nú berjast af kappi miklu fyrir þessu þjóðþrifamáli, sem þeir telja þetta mál vera. Það mun koma á daginn, þó síðar verði, hvor stefnan í þessu máli er heilladrýgri.

Ég ætla mér ekki að nota þá aðferð gegn þessu máli, sem málþóf er kallað, þó hægt væri og fyllilega réttmætt að flytja langar ræður gegn því, og það af fullum rökum. Ég ætla mér ekki að nota þann rétt, þrátt fyrir það ofurkapp, sem nú er beitt við að koma frv. fram. Ég þakka hv. frsm. það, að hann sagði, að það ætti að reyna að gera áfengislögin svo góð sem kostur er á, þakka honum fyrir þau ummæli með tilliti til þess, á hvaða sjónarhól hann stendur í þessu máli, með tilliti til þess, að ég tel hann tæpast heilskyggnan í þessu máli. Hér er háskamál á ferðinni, en það bætir vitanlega úr, þegar um skaðsamlegar till. er að ræða, að viljinn sé góður. Ég hygg, að ég og mínir skoðanafélgar getum ekki síður en hinir talað af reynslu margra ára um þetta mál, og till. þær, sem við hér berum fram, stefna að því einu að takmark, sem mest hina skaðlegu áfengisnautn. Þótt ég sé á móti innflutningi sterkra vína, ætla ég ekki að bregðast undan þeirri skyldu sem bindindismaður að reyna að vinna að endurbótum á frv., sem hægt væri að gera á því, og allar okkar brtt. miða í þá átt og eru sprottnar af því, að við höfum fulla þekkingu á því ástandi, samkv. eldri reynslu, sem frv. leiðir yfir þjóðina, ef það verður að l. Og það vil ég segja, að það bætir ekki ástandið að setja lög um þetta mál, sem eru gagnstæð réttlætismeðvitund þjóðarinnar. Það mætti kannske segja, að öðru máli væri að gegna um þetta frv., ef réttlætismeðvitund allrar þjóðarinnar væri því fylgjandi, en ég er sannfærður um, að réttlætismeðvitund meiri hl. þjóðarinnar er andvíg því, að boðinn sé velkominn inn í landið þessi gamli óvinur með þær afleiðingar, sem honum fylgja og allir vita, að eru til skaða, þó vínsins sé í hófi neytt, sem kallað er. Ég skal fúslega játa, að þær eru háværari þær raddir og sterkari þau völd, sem vilja láta samþ. þetta frv., heldur en hin, sem vilja fella það, en ef öll þjóðin væri spurð, konurnar væru spurðar og æskan, og þá fyrst og fremst í sveitum landsins, þá býst ég við, að meiri hl. væri á okkar máli.

Hv. frsm. sagði, að frv. þetta hefði verið ágætlega undirbúið. Hv. 2. þm. N.-M. sýndi nú fram á, hversu merkilegur sá undirbúningur hefir verið, og ég verð að taka undir það með honum, að frv. var mjög illa úr garði gert, er það var lagt fyrir þingið, enda hefir það tekið meiri stakkaskiptum og endurbótum í meðferð þingsins heldur en flest önnur mál. Annars hefi ég gert nokkra grein fyrir þessu við 1. umr. málsins. Þetta vildi ég segja hv. frsm. og bíð hann að aðgæta, hvort ekki er rétt.

Ég læt þá lokið því að ræða um málið almennt og sný mér að hinum einstöku brtt., sem fyrir liggja. Skal ég þá fyrst snúa mér að brtt. okkar hv. 2. þm. S.-M. og fara um þær nokkrum orðum til viðbótar við það, sem hann sagði um þær. Við leggjum mikla áherzlu á það, að 1. brtt. verði samþ., en hún miðar að því að fella niður heimild til þess að hafa í skipum óinnsiglaðan vínforða til neyzlu handa skipverjum. Ég er búinn að fá nægilega reynslu fyrir því, að þetta vín er ekki notað á þann hátt, sem fyrir er mælt. Það er sumpart notað til þess að lauma því til þyrstra manna í landi, og sumpart til þess að halda uppi svokölluðum gleðskap í skipunum af hálfu þeirra, er stjórnina hafa á skipunum. Það er ekki haft handa skipshöfninni. Hér gildir engin reglugerð um fæði skipverja, þeir hafa hið sama og aðrir á skipunum, og þess vegna telst óþarft að setja nokkrar reglur um fæðið. Þetta skipavín er því ekki háð neinum reglum, og ég fæ ekki séð, að það sé til annars en að gera tollgæzluna erfiðari en hún annars þyrfti að vera. Ég skal upplýsa það sérstaklega, að það eru útlendu skipin, sem sérstaklega nota þessa heimild, og nær eingöngu til þess að selja vínið til manna í landi. Ég vænti því, að hv. þd. geti fallizt á þá takmörkun á frv., sem felst í þessari brtt. Ég hefi átt tal um hana við ýmsa meðal hv. þdm. og þeir hafa fallizt á, að hún væri réttmæt.

Næstu brtt. okkar hv. 2. þm. S.-M. talaði hann mjög rækilega um, og skal ég geyma mér að ræða um hana til 3. umr., þegar ég sé, hvernig hv. d. tekur í hinar brtt.

Þá kem ég að 3. brtt. Ég skal ekki draga neina dul á það, að ég var mikill hvatamaður að því, að sú till. var tekin með, enda munu margir líta svo á, að hún sé ekki síður nauðsynleg en fyrsta till. Hún ræðir um vínveitingar á því eina hóteli hér í bænum, sem hefir vínveitingaleyfi, og bannar það að vínveitingar fari fram annarsstaðar en í veitingasölunum, og aðeins í sambandi við máltíðir, en ekki á dansskemmtunum. Ég veit ekki, hvort þeir, sem hlýða á mál mitt, hafa kynnzt dansskemmtunum þar, þegar vín er haft um hönd. Sjálfur hefi ég ekki tekið þátt í þeim, en sagnir hefi ég af þeim, og það á þá leið, að slíkar skemmtanir séu ekki beint til sóma fyrir höfuðstað Íslands, heldur langt þar frá, og ég vil fastlega vænta þess, að hv. d. geti fallizt á að banna að veita vín við þau tækifæri. Það má geta þess, að það er fyrst og fremst æskan, sem sækir þessar skemmtanir, og henni er, eins og allir vita, hættast við falli, og fyrir æskuna er það gert að reyna að sporna við þessari hættu á þeim samkomum, þar sem hún skemmtir sér. Ég vil því sérstaklega skora á hv. þdm.samþ. þessa brtt. Ég gæti sagt nokkur orð um b-lið 4. brtt., um það, að aldrei megi áfengisverzlunin selja einstaklingi meira en 5 lítra af áfengi í einu. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég geng þess ekki dulinn, að erfitt verður að halda löggjöf þessari í heiðri. Það má búast við, að lausasala vína verði mikil og ekki minni en nú er, en þetta ákvæði mundi þó frekar takmarka hana, ef unnt verður að framfylgja því. Ég býst því við, að þessi till. verði samþ., því mér heyrist, að þó menn vilji fá vínið innflutt, ef þeir tala af heilum hug, þá vilji þeir koma í veg fyrir óhóf í vínnautn. Þess vegna ættu þessir menn að geta mætt okkur um þessa brtt., til þess að draga úr notkun vínsins, ekki sízt óleyfilegri notkun.

Svo eru það nokkur orð um 8. gr. b.-lið. E. t. v. finnst hv. þdm. ekki viðeigandi slíkar auglýsingar, sem þar er talað um. Ég er nú ekki víðförull maður, en þó hefi ég séð það í öðrum löndum, að löggjöf, sem mikið varðar heill almennings, er fest upp á sem flestum stöðum, þar sem fólk kemur saman, til þess að allir viti, hverju þeir eigi að breyta eftir. Slíkt er ekkert einsdæmi um þessa löggjöf. Það væri kannske frekar hægt að afsaka, að menn breyta á móti lagaboðum, með því að menn þekki þau ekki, ef ekki væri hægt að svara: þetta stendur alstaðar auglýst. Þetta er tilraun til þess að kenna fólkinu að vita, hvað það eigi að varast.

Ég vil svo lýsa afstöðu minni með örfáum orðum til hinna annara brtt., sem hér liggja fyrir. Brtt. fjhn. eru ekki ýkjamargar. (BSt: En góðar). Þær eru víst fjórar, og sumar eru nauðsynlegar, en ég verð að segja það, að þessi n., sem fékk þetta mál til athugunar, reiðilaust af mér, hefði átt að launa betur það mikla traust, sem henni var sýnt. En það virðist svo, sem tíminn, er hún tók til að athuga frv., hafi verið of stuttur fyrir n. og meira hafi verið hugsað um að hraða málinu heldur en að laga galla frv. — Fyrsta brtt. n. orkar tvímælis. Hv. 2. þm. S.-M. hefir andmælt henni. Það ákvæði í frv., sem hér á að fella burt, er svo afsleppt, að erfitt er að fóta sig á því, og ég sé ekki, að frv. verði að nokkru leyti lakara, þó þessi brtt. verði samþ. — 4. brtt. er til bóta; hún ákveður skýrar það atriði, sem hún fjallar um, heldur en gert er í frv.

Um brtt. hv. 4. landsk. verð ég að segja það, að ég hefði búizt við, að e. t. v. kæmi frá honum ýtarlegri till., þó hann segi, að við höfum nú ekki nema flak af bannlögum. Hann einn af þm. sá það 1921, hvert stefndi, er hann stóð með pálmann í höndunum og neitaði því, sem þá var að gerast. Ég efast ekki um, að þá sá hann langtum lengra en aðrir, en nú sér hann skammt, ef hann sér ekki þær afleiðingar, sem þessi lög munn hafa í för með sér. Eftir framkomu hans hefði ég búizt við, að hann yrði nú róttækari í varnaráttina; ég mun þó greiða atkv. með hans till., að hinum öllum föllnum. Hún segir ekki annað en það, að einfaldur meiri hl. eigi að fá að samþ. útsölurnar, jafnvel þó sá meiri hl. sé spólaður með því valdi, sem áfengisauðmagnið getur í té látið. Það eru ekki þeir, sem vilja verjast áfenginu, sem geta spólað upp þann meiri hl., heldur hinir, sem hafa áfengisauðinn að bakhjarli. Hann segir í þessu sambandi, að undirstaðan sé fallin, við séum að halda í þetta flak af bannlögum, sem löndin í kringum okkur hafi orðið að hverfa frá. Það er rétt, að í tveimur nágrannalöndum, Noregi og Finnlandi, hefir tekizt, fyrir atbeina auðvaldsins í þessum löndum, að gera það að verkum, að bannlögin hafa orðið að víkja þar, þrátt fyrir andstöðu jafnaðarmanna. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að það eru jafnaðarmannaflokkarnir í þessum löndum, sem vinna leynt og ljóst að því þráða takmarki, að aftur verði hægt að útiloka alla vínsölu. Það er m. ö. o. hinn nýi tími, sem boðar nýja menningu og meira frelsi, sem vill útrýma þessum ófögnuði, sem er talinn eitthvert mesta bölið, sem þjáð getur hverja þjóð, og ein af undirstöðum hverskonar örbirgðar og eymdar. En við verðum að að taka afleiðingunum af því, hvernig komið er. Og ég er ekki að segja þessi orð hér af því, að ég búist við, að þau orki því að breyta málinu. Við eigum við of mikið þröngsýni að etja til þess, að nokkur skynsamleg rök fái þar nokkru um þokað. En einhverntíma verður saga þessa máls skrifuð, og þótt orð mín og minna samherja eigi ekki hljómgrunn hér nú og þyki e. t. v. ekki þess verð að vera töluð, þá lifa eftirkomendur okkar og rannsaka sennilega einhverntíma, hvað um þetta mál hefir verið sagt á þeirri síðustu stundu, þegar úrslitabaráttan var háð. Við eigum allir yfir okkur dóm hinna óbornu kynslóða.

Um frv. sjálft skal ég segja það, að eins og það liggur nú fyrir, hafa ýmsar gr. þess tekið stórum breyt. til bóta frá sjónarmiði okkar bindindismanna. Og það skal tekið fram og verða skjalfest í umr., að engir hafa dyggilegar að þeim umbótum unnið heldur en mínir flokksbræður. En engu að síður er mér fyllilega ljóst, að hafi verið örðugt að halda uppi lögum og reglu í þessu landi með þeim áfengislögum sem í gildi hafa verið, þá verður það hálfu erfiðara eftir þá löggjöf, sem nú á að koma á. Og ég get hugsað mér, að ekki líði á löngu þar til breyta verður mörgu í þeim lögum, sem nú er verið að afgreiða. Því mér blandast ekki hugur um, að ef sá andi fær að drottna, sem nú virðist mjög ríkjandi, þá verður örðugt að halda uppi reglu á þann hátt, sem frv. ætlast til. En þó ég sjái þennan galla á þessu öllu saman, þá vil ég sem bindindismaður vera með því að gera allar tilraunir, sem miða að því að takmarka áfengisnautn, þó eitthvað af þeim kunni að bregðast á ýmsan hátt.

Að lokum vil ég minnast örfáum orðum á skrifl. brtt. hv. þm. Dal. Hann telur áfengisvarnanefndirnar óþarflega margar samkv. frv., en ég er þar á öðru máli. Ég býst við, að hann geti sýnt fram á, að ein n. mundi duga í hans héraði og öðrum litlum sýslum, sem þægilegar eru yfirferðar. En lega landsins er nú þannig, að óvíða getur ein n. haft nokkurt verulegt eftirlit í heilli sýslu. Tel ég því mjög misráðið að fækka þessum n. Bræður okkar Norðmenn hafa tekið upp þessa nefndaskipun hjá sér og fengið af henni svo góða reynslu, að ég veit, að jafnaðarmennirnir norsku leggja mikið upp úr að hafa slíkar n. sem víðast og verksvið þeirra ekki of stórt. Verkefni þeirra er mjög víðtækt; þær eiga ekki að vera neinir „snuðrarar“, heldur eiga þær að veita fólkinu fræðslu um skaðsemi áfengisins og hafa áhrif á það til hins betra.

Í þær veljast hinir beztu og siðferðislega sterkustu menn hvers héraðs, sem vilja vinna þjóð sinni það gagn, sem þeir geta á þessu sviði.

Ég ætla svo ekki að lengja mál mitt miklu meira. Það, sem við gerum hér að lokum, hljótum við allir að gera með það fyrir augum, að innflutningur sterku vínanna valdi sem minnstum skaða. Þess vegna hljótum við að verða með þeim till., sem miða að því að draga úr vínnautninni og framkvæmanlegar eru. Mér skilst, að þeir, sem telja sig andbanninga, álíti þrátt fyrir allt vínnautnina bölvun, og ef það er sannfæring þeirra, þá finnst mér þeir eigi að vera með okkur hinum, sem sækjum fastast að hafa takmarkanirnar sem mestar, í því að samþ. þær till., sem miða að því að gera breytinguna sem minnst skaðlega, úr því svo á fram að fara sem raun ber vitni um. Það er að leyfa innflutning sterkra vína.